Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 35  —  35. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson,


Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Orðin „aðra en tannréttingar“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Sjúkratryggingar greiða tannlæknaþjónustu aldraðra, öryrkja og þeirra sem eru yngri en 25 ára og skal ráðherra setja reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.

    1. janúar 2009 hækka aldursmörk skv. 2. mgr. 42. gr. laganna í 28 ár og síðan um þrjú ár hver áramót þar til þau hafa náð 40 árum.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til verulegar breytingar á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í tannlæknakostnaði landsmanna. Gert er ráð fyrir að tannréttingar verði felldar inn í tannlæknaþjónustuna og greiddar með sama hætti og sjúkratryggingin og látin ná til fleiri en nú er. Aldursmörkin verði hækkuð strax úr 18 árum í 25 ár við næstu áramót og síðan árlega um þrjú ár þar til allir 40 ára og yngri, auk aldraðra og öryrkja, falla undir sjúkratrygginguna 1. janúar 2013. Ekki er lagt til í að stíga skrefið til fulls að svo stöddu, en af hálfu flutningsmanna er markmiðið að kostnaður sjúklings við tannlækningar, án tillits til aldurs, verði meðhöndlaður eins og annar lækniskostnaður og falli að lokum inn í sjúkratrygginguna.
    Gert er ráð fyrir að greiðsluþátttaka sjúklings verði föst fjárhæð, sambærileg við kostnað við aðra læknisþjónustu utan sjúkrahúsa og ákveðin í gjaldskrá sem ráðherra setur en horfið frá því fyrirkomulagi sem verið hefur að endurgreiðsla ríkisins miðist við gjaldskrá sem ráðherra setur án tillits til þess gjalds sem tannlæknar innheimta fyrir þjónustu sína.
    Rétt þykir að minna á frétt í Ríkisútvarpinu frá 14. mars 2007 með fyrirsögninni Tannverndarstefna stjórnvalda í molum. Þar er haft eftir Sigurjóni Benediktssyni, formanni Tannlæknafélags Íslands, að stjórnvöld hafi brugðist í tannverndarmálum barna. Segir hann að tannheilsa barna fari eftir því hvort foreldrar þeirra hafi efni á því að senda þau til tannlæknis. Sem dæmi þá kosti tannskoðun þriggja ára barns hjá barnatannlækni um 11.000 kr. en aðeins um 3.000 kr. fáist endurgreiddar og því greiði foreldrar um 8.000 kr. úr eigin vasa. Þann kostnað sé svo ekki hægt að telja með við umsókn um afsláttarkort vegna lækniskostnaðar. Annar staðar á Norðurlöndum greiði stjórnvöld yfirleitt allan kostnað af tannvernd barna. Sigurjón segir að nýlegar rannsóknir heilbrigðisráðuneytisins bendi til þess að stefna íslenskra stjórnvalda hafi reynst illa. Nýlegar tölur benda til þess að fimmtungur barna og unglinga á aldrinum 4–18 ára fari ekki til tannlæknis.
    Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við tannlækningar, en lauslegt mat gerir ráð fyrir að heildarkostnaður, að tannréttingum meðtöldum, geti verið allt að 7– 8 milljarðar kr. Hlutur ríkisins er um 1.300 millj. kr. eða tæplega 20% af heildarkostnaði. Ætla má, verði frumvarpið að lögum, að kostnaður nemi í fyrstunni um 1 milljarði kr. árlega, en að fullu komið til framkvæmda nái það til ríflega helmings kostnaðar þeirra sem í dag eru ekki sjúkratryggðir eða 3–4 milljarðar kr.