Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 44  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

Flm.: Birkir J. Jónsson, Kristján Þór Júlíusson, Valgerður Sverrisdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Þuríður Backman, Ólöf Nordal, Höskuldur Þórhallsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að Landhelgisgæsla Íslands haldi úti björgunarþyrlu frá Akureyri.

Greinargerð.


    Á íslenskum fiskimiðum eru veður válynd og þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er mikilvæg fyrir öryggi sjófarenda. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru á Norður- og Austurlandi og mikil útgerð er á svæðinu. Þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er þó einungis staðsett á suðvesturhorni landsins og því búa sjófarendur um norðan- og austanvert landið við minna öryggi en aðrir vegna þess hve fjarlæg þyrlubjörgunarsveitin er. Þó að tillaga þessi sé flutt af hópi þingmanna Norðausturkjördæmis ber alls ekki að líta svo á að hún snúist um byggða- eða atvinnumál, heldur er hér fyrst og fremst um öryggismál að ræða sem brýnt er að leyst verði úr hið fyrsta.
    Margt bendir til að skipaumferð á norðurslóðum aukist til muna á komandi árum í tengslum við minnkandi hafís á siglingaleiðinni um Norður-Íshafsleiðina. Einnig má benda á að miðstöð sjúkraflugs á Íslandi er á Akureyri auk þess sem Sjúkraflutningaskóli Íslands er á Akureyri. Faglega séð ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að byggja upp þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.
    Jafnframt má nefna að þyrlur Landhelgisgæslunnar gegna sívaxandi hlutverki við björgun á landi, t.d. þegar flytja þarf slasað fólk, m.a. frá hálendinu til byggða og undir læknishendur.