Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 129. máls.

Þskj. 130  —  129. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
              1.      Neyðarsamstarf raforkukerfisins: Samvinnuvettvangur vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila á Íslandi vegna vár sem steðjar að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku og/eða stórnotendum. Nánar er kveðið á um starfsemina í samstarfsgrunni neyðarsamstarfs raforkukerfisins.
              2.      Neyðarstjórnun: Skipulag sem lýsir stjórnun í vá.
              3.      Vá: Atburður sem ógnar almannahag, öryggi fólks, mannvirkja og starfsemi, og kallar á að neyðarstjórnun verði gerð virk. Atburðurinn getur valdið stórfelldum truflunum á raforkuflutningi, framleiðslu eða dreifingu raforku á tilteknu svæði.
              4.      Viðbragðsáætlun: Áætlun sem gerir grein fyrir aðgerðum og tengiliðum viðkomandi aðila í vá. Nánar er kveðið á um efni hennar í reglugerð.
     b.      Í stað „14 MW“ í 15. tölul. kemur: 8 MW.

2. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vinnslufyrirtæki skulu hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá.

3. gr.

    5. tölul. 4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Hafa tiltækar viðbragðsáætlanir og annast samræmingu neyðaraðgerða í flutningskerfinu, bregðast við í vá og ef einhver aðili að neyðarsamstarfi raforkukerfisins óskar þess og tryggja tengsl við yfirstjórn almannavarna.

4. gr.

    Á eftir 4. mgr. 16. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dreifiveitur skulu hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá og taka þátt í neyðarsamstarfi raforkukerfisins þegar við á.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,3 aurum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,2 aurum.
     b.      Í stað „0,7 aurum“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 0,5 aurum.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Orkustofnun skal annast innheimtu gjalda þessara fyrir ríkissjóð. Gjalddagi skal vera 1. mars ár hvert vegna þess almanaksárs og byggjast á rauntölum vegna liðins árs. Aðför má gera til fullnustu kröfum um gjaldið án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, þ.e. breyting á skilgreiningu laganna á stórnotanda, lögbinding á verkefnum tengdum neyðarsamstarfi raforkukerfisins og breytingar á fjárhæð gjalds vegna eftirlits samkvæmt lögunum.

II.    Neyðarsamstarf raforkukerfisins.
Almennt.
    Raforkukerfi landsins er lífæð þjóðfélagsins og öruggur rekstur þess er grundvöllur allrar annarrar starfsemi í þjóðfélaginu. Mjög mikilvægt er því að allir þættir rekstursins séu vel skilgreindir jafnt hvað varðar daglega starfsemi sem og viðbrögð við hvers konar áföllum. Stórfelld áföll í raforkukerfinu hvort heldur er hjá vinnslufyrirtækjum, dreifiveitum eða flutningsfyrirtæki geta lamað þjóðfélagið og haft stórfelld áhrif á fjárfestingar landsmanna og um leið þjóðarhag. Einnig geta áföll vegna bilana hjá einstökum stórnotendum haft töluverð áhrif á þjóðarhag.
    Sérhvert flutningsfyrirtæki, vinnslufyrirtæki, dreifiveita og stórnotandi sinnir öryggisstjórnun/öryggismálum sínum í samræmi við lög og reglugerðir og þær kröfur sem þau setja sér. Nokkuð mismunandi er hvort fyrirtækin hafa sérstaklega hugað að neyðarstjórnun og fer það nokkuð eftir staðsetningu og umfangi starfsemi þeirra.

Hlutverk Landsnets.
    Með raforkulögum, nr. 65/2003, breyttist hlutverk Landsvirkjunar við það að framleiðsla og rekstur raforkuflutningskerfisins voru aðskilin. Rekstur flutningskerfisins og kerfisstjórnun er nú í höndum Landsnets, sbr. reglugerð nr. 1051/2004. Fram að gildistöku laganna hafði Landsvirkjun með höndum kerfisstjórn og samræmingu viðbragða við hvers konar truflunum, þar á meðal viðbragða við hamförum og hvers konar stórbilunum í samráði við fulltrúa veitna í stjórnstöð Almannavarna ríkisins. Í stjórnstöð almannavarna ríkisins átti áður sæti fulltrúi veitustofnana og fór Rarik um árabil með það hlutverk. Í nýrri samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur sæti fulltrúa raforkukerfisins ekki verið mannað enn sem komið er. Þar sem Landsnet hefur nú tekið við rekstri og kerfisstjórnun raforkukerfisins af Landsvirkjun má telja eðlilegt að Landsnet taki einnig við þessu samræmingarhlutverki.
    Í raforkulögum og reglugerðum þeim tengdum er ekki fjallað um þætti sem lúta að neyðarstjórnun eða hver sé ábyrgur fyrir skipulagningu og samræmingu viðbragða við neyð í raforkukerfinu.
    Lög um almannavarnir, nr. 94/1962, með síðari breytingum, fjalla um neyðarviðbrögð og er þar öll samræming og stjórnun í höndum almannavarna. Þess er getið að almannavarnir geti lagt kvöð á fyrirtæki um skipulag viðbragða við sérstakar aðstæður (IV. kafli, Einkavarnir, 15. gr.). Þetta á þó einungis við ef um almannavá er að ræða.

Neyðarsamstarf raforkukerfisins (NSR).
    Mikilvægi neyðarsamstarfs raforkukerfisins fyrir þjóðarhag er augljóst. Þar sem raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa og á landinu má búast við náttúruhamförum af ýmsu tagi er enn mikilvægara en ella að kerfið sé fært um að takast á við stórfelldar truflanir á starfsemi þess.
    Ekki er síður mikilvægt að huga að neyðarsamstarfi raforkukerfisins komi til stórfelldra bilana hjá vinnslufyrirtækjum, flutningsaðilum, dreifiveitum eða hjá stórnotendum. Slíkt gæti stytt verulega viðbragðstíma aðgerða í formi gagnkvæmrar aðstoðar er varðar varahluti og mannauð.

Undirbúningur Neyðarsamstarfs raforkukerfisins.
    Í lok maí 2005 hafði Landsnet frumkvæði að fundi með hagsmunaaðilum innan raforkugeirans. Á fundinum voru fulltrúar stærstu vinnslufyrirtækja á landinu, Orkustofnunar, Samorku, stóriðju og ríkislögreglustjóra. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi samræmdrar skipulagningar og samstarfs og var Landsneti falið að sjá um verkefnið áfram.
    Meðal mikilvægra verkefna neyðarsamstarfs raforkukerfisins eru samræming neyðarviðbragða framleiðenda, flutningsaðila, dreifiveitna og stórnotenda og samvinna við opinbera aðila svo sem almannavarnir, m.a. val fulltrúa í samhæfingarstöð almannavarna, uppbygging neyðarfjarskipta, skipulagning viðbragðssveita, auk æfinga. Ekki er síður mikilvægt að koma upp sameiginlegum gagnagrunni þar sem aðilar geta nálgast á skjótan hátt varahluti og mannafla sem hjálpað gæti aðilum í neyð.
    Forsvarsmenn Landsnets lögðu til við iðnaðarráðuneytið í september 2006 að formlegur stuðningur ráðuneytisins fengist við að koma neyðarsamstarfi raforkukerfisins á fót og lýstu sig reiðubúna til að sjá um þessa vinnu áfram og leggja til að hraðað verði ákvarðanatöku um skipulag og fjármögnun neyðarsamstarfs raforkukerfisins ásamt lagalegum stoðum þess þannig að unnt verði að vinna áfram að verkefninu og með því lágmarka hugsanlegt tjón sem hlotist getur af stórfelldum truflunum eða bilunum.
    Í byrjun nóvember 2006 var formlegur stofnfundur NSR haldinn og voru þátttakendur eftirtaldir: Alcan, Alcoa Fjarðaál, Hitaveita Suðurnesja, iðnaðarráðuneyti, Járnblendiverksmiðjan, Landsnet, Landsvirkjun, Norðurál, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik, ríkislögreglustjóri, Samorka.
    Allir framangreindir aðilar hafa um árabil átt með sér gott samstarf á vettvangi raforkumála og eru sammála um gagnsemi og nauðsyn samvinnuvettvangs um neyðarsamstarf raforkukerfisins.
    Á fundinum var skipað í vinnuhópa til að vinna að skipulagi samstarfsvettvangsins, tillögum að lagabreytingum og að uppbyggingu gagnagrunns. Frumvarp þetta byggist á tillögum vinnuhóps NSR um lagabreytingar.

III.    Eftirlitsgjald.
    Í 1. mgr. 31. gr. raforkulaga er kveðið á um að til að standa undir kostnaði vegna eftirlits samkvæmt lögunum skuli flutningsfyrirtækið og dreifiveitur greiða gjald af raforku sem fer um kerfi þessara aðila. Gjaldið á flutningsfyrirtækið nemur 0,3 aurum á hverja kWst en dreifiveitur greiða 0,7 aura á hverja kWst. Orkustofnun annast innheimtu gjaldsins sem rennur í ríkissjóð.
    Tekjur ríkissjóðs af eftirlitsgjaldi og raunkostnaður Orkustofnunar af eftirlitinu hefur verið eftirfarandi:
Ár Eftirlitsgjald
(millj. kr.)
Kostnaður
Orkustofnunar
(millj. kr.)
2003 21,5 17,2*
2004 44,1 50,0
2005 46,1 37,8
2006 51,4 37,3
2007 60,1 17,4*
* Hálft ár.

    Eins og sést hafa tekjur af gjaldinu farið hækkandi frá setningu raforkulaga, sem einkum verður rakið til aukinnar raforkuframleiðslu vegna stóriðju. Á hinn bóginn sést að breytingar á kostnaði Orkustofnunar við eftirlitið hafa verið óverulegar, ef árið 2004 er undanskilið. Eftirlitsgjaldið er því orðið nokkuð umfram kostnað vegna eftirlits Orkustofnunar og hefur svo verið undanfarin ár að undanskildu árinu 2004.
    Í 1. mgr. 31. gr. kemur skýrt fram að gjaldinu sé ætlað að standa undir kostnaði við eftirlit samkvæmt raforkulögum. Í ljósi þessa óskaði ráðuneytið eftir því að Orkustofnun gerði tillögu um breytingu á fjárhæð eftirlitsgjaldsins í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á raforkuframleiðslu og raforkunotkun. Stofnunin leggur til að gjaldið á flutningsfyrirtækið verði 0,2 aurar á kWst en dreifiveitum verði gert að greiða 0,5 aura á kWst.
    Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila hefur lagt til að gjaldtaka sé miðuð við rauntölur liðins árs, þar sem sveiflur í raforkunotkun eru að jafnaði ekki umtalsverðar. Þá hefur nefndin bent á að heppilegra sé að hafa gjalddaga fyrr á almanaksárinu, sem næst upphafi árs. Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á þessum atriðum. Annars vegar er lagt til að miðað verði við rauntölur liðins árs og hins vegar að gjalddagi verði 1. febrúar.
    Ráðuneytið óskaði eftir endurskoðun á gjaldtökuákvæði 1. mgr. 31. gr. laganna og í ljós hefur komið að unnt er að lækka bæði gjaldstofn þann sem lagður er á framangreind fyrirtæki. Annars vegar er um að ræða lækkun á gjaldstofni flutningsfyrirtækisins sem nemur um 0,1 eyri á hverja kWst sem mötuð er inn á flutningskerfið. Hins vegar er um að ræða lækkun á gjaldstofni dreifiveitna sem nemur um 0,2 aurum á hverja kWst af raforku sem móttekin er frá flutningskerfi eða beint frá virkjunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í raforkulögum er kveðið á um að stórnotandi sé notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira. Þeir sem nota svo mikið magn orku geta tengst flutningskerfi raforku beint en ekki um dreifiveitu og greiða fyrir flutning raforkunnar samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur.
    Til þessa hafa eingöngu stóriðjuver fallið undir skilgreiningu stórnotanda. Hins vegar hafa aðrir aðilar með háan nýtingartíma sýnt áhuga á að koma upp starfsemi hér á landi, svo sem netþjónabú. Þótt slík starfsemi hafi háan nýtingartíma getur hún verið nokkuð undir þeim aflmörkum sem lögin kveða á um nú. Til að tryggja þessum aðilum svipaða stöðu og öðrum stóriðjufyrirtækjum er lagt til að aflmörk verði lækkuð úr 14 MW í 8 MW.
    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 2. gr.

    Til að tryggja sem skjótust og markvissust viðbrögð við vá og lágmarka þannig þá truflun sem af henni kann að hljótast er nauðsynlegt að vinnslufyrirtæki hafi skráð verklag í viðbragðsáætlun.

Um 3. gr.

    Til að tryggja sem skjótust og markvissust viðbrögð við vá og lágmarka þannig þá truflun á flutningskerfið sem af henni kann að hljótast er nauðsynlegt að kerfisstjórnandi hafi skilgreint hlutverk sem samræmingaraðili aðgerða við rekstur flutningskerfisins og hafi auk þess skráð verklag í viðbragðsáætlun.

Um 4. gr.

    Til að tryggja sem skjótust og markvissust viðbrögð við vá og lágmarka þannig þá truflun sem af henni kann að hljótast er nauðsynlegt að dreifiveita hafi skráð verklag í viðbragðsáætlun.
    Þegar vá steðjar að dreifikerfi viðkomandi dreifiveitu ber henni að taka þátt í samstarfi

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á annars vegar 1. og 2. tölul. 1. mgr. 31. gr. laganna og hins vegar 3. mgr. sama ákvæðis.
    Í samræmi við ábendingar Samorku og útreikninga Orkustofnunar er í ákvæðinu lagður til breyttur gjaldstofn vegna eftirlits Orkustofnunar. Í fyrsta lagi er lagt til að flutningsfyrirtæki greiði gjald af raforku sem er mötuð inn á flutningskerfið sem nemur 0,2 aurum á hverja kWst en að óbreyttu nemur það gjald 0,3 aurum á samsvarandi einingu. Í öðru lagi er lagt til að dreifiveitur greiði gjald af raforku sem er móttekin frá flutningskerfi eða beint frá virkjunum sem nemur 0,5 aurum á hverja kWst en að óbreyttu nemur það gjald 0,7 aurum á samsvarandi einingu.
    Hvað varðar tillögur þær sem snerta 3. mgr. er lögð til einföldun gjaldtökunnar. Þannig er að óbreyttu kveðið á um að gjalddagi skuli vera 1. ágúst ár hvert vegna þess almanaksárs og byggjast á rauntölum vegna fyrri helmings ársins en áætlun fyrir seinni helminginn. Í frumvarpi þessu er hins vegar lögð til sú einföldun að gjalddagi skuli vera 1. febrúar ár hvert vegna þess almanaksárs. Um leið er vikið frá þeirri framkvæmd að við álagningu næsta árs skuli taka tillit til frávika rauntalna frá áætlun fyrir seinni helming liðins árs. Ekki eru hins vegar lagðar til breytingar á málsgreininni að öðru leyti.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum,
nr. 65/2003, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er annars vegar að lögbinda verkefni og hlutverk neyðarsamstarfs raforkukerfisins og hins vegar að gera breytingar á ákvæði 31. gr. laganna, þ.e. gjaldtöku vegna eftirlits samkvæmt lögunum.
    Í 31. gr. raforkulaga er kveðið á um að til að standa undir kostnaði vegna eftirlits samkvæmt lögunum skuli flutningsfyrirtæki og dreifiveitur greiða gjald af raforku sem fer um kerfi þessara aðila. Orkustofnun annast innheimtu gjaldsins fyrir ríkissjóð og hefur eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa samkvæmt þessum lögum fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda. Í frumvarpinu er lagt til að það gjald sem flutningsfyrirtæki greiða lækki úr 0,3 aurum á hverja kWst í 0,2 aura og að það gjald sem dreifiveitur greiða lækki úr 0,7 aurum á hverja kWst í 0,5 aura. Frá setningu raforkulaga hafa tekjur af eftirlitsgjaldinu farið hækkandi vegna aukinnar raforkuframleiðslu en breytingar á kostnaði Orkustofnunar vegna eftirlitsins hafa hins vegar verið óverulegar. Mismunur hefur því verið á milli tekna eftirlitsgjaldsins og kostnaðar Orkustofnunar. Árið 2005 nam þessi mismunur 8,3 m.kr. og 17,1 m.kr. árið 2006. Með frumvarpinu er leitast við að láta tekjur af eftirlitsgjaldinu og kostnað Orkustofnunar við eftirlitið standast á.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.