Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 203  —  189. mál.
Leiðrétting.




Frumvarp til laga



um brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Flm.: Jón Bjarnason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1. gr.

Í 6. gr. fjárlaga 2008 verði felldur út liðurinn 5.1: „Að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar“.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á fjárlögum ársins 2007 eru heimildir til að selja hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja og heimild til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (liður 5.1 og liður 5.2).
    Í maí sl. nýtti fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sér heimild til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja. Markmið ríkisstjórnarinnar með sölunni var að setja í gang ferli til að koma orkuveitum og orkulindum úr eigu opinberra aðila í hendur einkaaðila á frjálsum markaði.
    Komu þau áform ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks m.a. skýrt fram í útboðsskilmálum: „Íslensk orkufyrirtæki (félög sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög nr. 65/2003) í opinberri eigu mega ekki bjóða í eignarhlut ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga.“

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki treystandi í orkumálum.
    Þótt ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi tekið við áður en salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja (HS) fór fram var söluferlið ekki stöðvað þrátt fyrir háværar kröfur þar um. Salan á hlut ríkisins í HS til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda úr samfélagseigu sem ekki sér enn fyrir endann á. Nægir að nefna framvindu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, einkavæðingu, sölu og afhendingu samfélagseigna til útvalinna einkaaðila. Meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík sprakk út af því máli og nýr meirihluti með aðild Vinstri grænna hefur tekið við. Vonandi leiðir sú breyting til að hægt verði að stöðva einkavæðingarferli og sölu orkuveitna landsmanna.

„Rödd almennings“ á móti einkavæðingu.
    Æ fleiri stuðningsmönnum einkavæðingar og sölu almenningsveitna og orkulinda landsmanna hefur snúist hugur og leggjast nú á sveif með Vinstri grænum um þjóðareign á náttúruauðlindum. Þannig fjallar forustugrein Morgunblaðsins fimmtudaginn 1. nóvember sl. um einkavæðingu, sölu og brask sem átt hefur sér stað með Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Rótina að þessum sinnaskiptum má rekja að hluta til einkavæðingarstefnu ríkisins og sölu þess á hlut sínum í HS. Í forustugreininni eru kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnum og á Alþingi og ráðherrar harðlega gagnrýndir fyrir blinda einkavæðingu og veruleikafirringu og að þeim hafi verið „ótrúlega mislagðar hendur“ í þessum málum. Fylgir leiðarinn með sem fylgiskjal IV.

Komum í veg fyrir einkavæðingu og sölu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Deildartunguhvers.
    Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er brýnt að fella nú þegar á brott úr lögum sams konar heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Enda væri þessi söluheimild ekki á fjárlögum ef stjórnvöld ætluðu sér ekki að nýta hana.
    Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka saman Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) og á ríkið liðlega 20% hlut í hitaveitunni. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver. Svo brýnt almannahagsmunamál þótti á sínum tíma að ríkið ætti vatnsréttindi þar að Alþingi veitti ríkisstjórninni með sérstökum lögum frá 1978 heimild til að taka eignarnámi landspildu úr landi Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum, þ.m.t. Deildartunguhver. Ríkissjóður lagði síðan þessi jarðhitaréttindi inn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Söluheimild ríkissjóðs á HAB nær því bæði til hlut hitaveitunnar sjálfrar ásamt ofnagreindum jarðhitaréttindum.

Um Deildartunguhver og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.
    Deildartunguhver er álitinn vera einhver vatnsmesti hver jarðar, ef ekki sá vatnsmesti. Úr honum koma 180 lítrar af 98 gráðu heitu vatni á sekúndu upp á yfirborðið en það er alls 40% af öllu heitu vatni sem kemur upp á yfirborðið í Borgarfirði. Vatninu úr hvernum er veitt til Akraness, sem er í 64 km fjarlægð, og Borgarness, í 34 km fjarlægð, en einnig til nokkurra bæja á leiðinni. Hverinn er friðaður og gildi hans fyrir ferðamannaiðnaðinn á Vesturlandi er mikið. Við hverinn vex einnig friðað afbrigði af burknanum skollakamba (blechnum spicant) sem vex aðeins á einum öðrum stað á landinu.
    Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar var stofnuð 1979 af Akraneskaupstað og Hitaveitu Borgarfjarðar en að henni stóðu Borgarneshreppur, Andakílshreppur og Bændaskólinn á Hvanneyri. Hitaveitan fær vatn úr Deildartunguhver og borholum í Bæjarsveit, við Laugarholt og Bæ. Árið 2001 sameinaðist HAB Orkuveitu Reykjavíkur og tók nýtt sameinað fyrirtæki til starfa 1. desember það ár. Við það gekk hlutur Akurnesinga og Borgfirðinga í HAB inn í OR en hlutur ríkisins er enn sem áður liðlega 20% og HAB er rekið sem sjálfstætt fyrirtæki.

Áskoranir heimamanna.
    Félög Vinstri grænna á Akranesi og í Borgarbyggð hafa ályktað gegn einkavæðingu og sölu opinberra orkuveitna og krafist þess að heimild til sölu á hlut ríkisins í HAB verði tafarlaust afturkölluð. Með vísan til örlaga hluta ríkisins í HS (breytti þar engu hvort Framsókn eða Samfylking væri í ríkisstjórn með Sjálfstæðiflokki) er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild á fjárlögum til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.



Fylgiskjal I.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð í Borgarbyggð skorar á Alþingi að afturkalla heimild til að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

(11. október 2007.)

    Fundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Borgarbyggð, haldinn í Borgarnesi 10. október 2007, skorar á Alþingi að fella nú þegar úr gildi heimild í fjárlögum til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Atburðarás undanfarinna daga hefur leitt í ljós að sala ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja voru mistök.
    Það er Borgfirðingum afar mikilvægt að ráða þeim náttúruauðlindum sem gera Borgarfjörð jafnfýsilegan búsetukost og raun ber vitni en Deildartunguhver og önnur hitaréttindi HAB í Borgarfirði verði ekki leiksoppar markaðsaflanna líkt og gerst hefur á Suðurnesjum.



Fylgiskjal II.

Bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í bæjarstjórn Akraness.

(11. október 2007.)

    Fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Akraness lagði fram svohljóðandi bókun á fundi bæjarstjórnar 10. október:
    Við horfum í dag fram á það að Hitaveita Suðurnesja verði á næstu dögum einkavædd, það er, að hluti Orkuveitu Reykjavíkur verði seldur inn í REI. Nú er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem á 79,3% í HAB á móti 20,7% hluta ríkisins. Í tillögu að fjárlögum næsta árs er að auki gert ráð fyrir að ríkið selji sinn hlut.
    Það sem hóf þetta ferli allt, sem við nú stöndum frammi fyrir, er sala ríkisins á 15% hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Það hlýtur því að vera hagur Akurnesinga að ekki verði af hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar og komið verði í veg fyrir að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fari sömu leið og Hitaveita Suðurnesja. Ég skora á bæjarstjórn og fulltrúa Akraneskaupstaðar í stjórn Orkuveitunnar að leggjast gegn markaðsvæðingu OR og standa þar með vörð um hagsmuni bæjarbúa.



Fylgiskjal III.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs krefst þess að ríkið falli frá sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja.

(29. júní 2007.)

    Ýmis sveitarfélög sem átt hafa eignaraðild að Hitaveitu Suðurnesja eða eru á þjónustusvæði hennar eru uggandi vegna sölu fyrirtækisins og aðkomu einkaaðila að rekstrinum. Þegar ríkið bauð hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til kaups skömmu fyrir nýafstaðnar kosningar til Alþingis kom í ljós að fjárfestar mátu fyrirtækið á margfalt hærra verði en opinberir aðilar höfðu gert. Þetta endurspeglar trú fjárfesta á möguleikum til að hafa arð út úr orkugeiranum eftir að hann hefur verið markaðsvæddur. Forsenda mikillar arðsemi er að sjálfsögðu hátt raforkuverð sem kemur til með að bitna á neytendum, hinum almenna raforkukaupanda, heimilum og fyrirtækjum.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ítrekað varað við einkavæðingu raforkugeirans og í því samhengi bent á að markaðsvæðing á starfsemi sem í eðli sínu er einokandi er neytendum í óhag. Slíka starfsemi á að reka á samfélagslegum forsendum enda um grunnþjónustu að ræða og í verkahring hins opinbera að tryggja öllum aðgengi og lágt verð á grunngæðum.
    Nú hefur komið ljós að sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila er þvert á vilja margra sveitarfélaga sem eiga hlut í fyrirtækinu. Voldugir fjárfestar, þar á meðal Glitnir og FL-Group ganga nú á milli eignaraðila í því augnamiði að eignast sem stærstan hlut í fyrirtækinu. Með aðgerðum sínum hefur ríkisvaldið valdið óvissu í rekstri Hitaveitu Suðurnesja og komið samstarfi sveitarfélaga í uppnám. Meðal annars í þessu ljósi telur VG að ríkisstjórninni beri að leita allra leiða til að endurheimta hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þannig að tryggt verði að fyrirtækið verði áfram í samfélagslegri eigu og þessi innrás fjárfesta í orkufyrirtæki landsmanna stöðvuð.



Fylgiskjal IV.

Rödd almennings.

(Morgunblaðið, fimmtudaginn 1. nóvember, 2007 – Ritstjórnargrein.)

    Einn ánægjulegasti þátturinn í þróun þjóðfélagsmála í landi okkar síðustu árin er hin beina þátttaka almennra borgara ekki bara í opinberum umræðum heldur með beinni íhlutun í gang mála.
    Dæmi um slíkt er sú undirskriftasöfnun, sem Hannes Friðriksson, innanhúsarkitekt og íbúi í Reykjanesbæ, hefur haft forgöngu um þar sem skorað er á sveitarstjórnarmenn að tryggja að Hitaveita Suðurnesja verði áfram í meirihlutaeigu sveitarfélaganna og annist áfram orkuöflun og sölu og dreifingu á vatni og rafmagni á því svæði.
    Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um, að íbúum á Suðurnesjum standi ekki á sama um þá þróun, sem orðið hefur í málefnum Hitaveitu Suðurnesja á undanförnum mánuðum. Nú gefst fólki á Suðurnesjum færi á að sýna afstöðu sína í verki með þátttöku eða ekki þátttöku í undirskriftasöfnuninni sem Hannes Friðriksson hefur komið af stað.
    Slík þátttaka almennings í ákvörðun um eigin málefni er hin æskilega þróun í lýðræðisríki. Og eins og Morgunblaðið hefur margbent á er full ástæða til að fólkið sjálft í sveitarfélögum eða á landsvísu taki ákvarðanir um meginmál.
    Þannig er alls ekki fráleitt að ræða þann möguleika, að framtíð Hitaveitu Suðurnesja verði ákveðin í beinni kosningu fólksins, sem býr á þjónustusvæði fyrirtækisins.
    Kjörnum fulltrúum eru stundum ótrúlega mislagðar hendur eins og skýrt hefur komið fram í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur síðustu vikur. Og ekki hefur ástandið á þeim vettvangi batnað eftir að nýr meirihluti tók við í borgarstjórn.
    Kjörnir fulltrúar eru stundum í erfiðri stöðu til þess að taka ákvarðanir. Þeir geta legið undir miklum þrýstingi frá aðilum, sem gæta sérhagsmuna. Enginn þarf að efast um, að bæjarfulltrúar meiri hlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa legið undir miklum þrýstingi vegna málefna Hitaveitu Suðurnesja frá sérhagsmunaaðilum.
    Hið góða við að ákvarðanir um meginmál séu teknar í almennum atkvæðagreiðslum er einmitt að sérhagsmunaaðilar geta ekki komizt að hverjum og einum kjósanda, þótt þeir geti vissulega reynt að hafa áhrif á þá með almennum áróðri. Stundum geta þær aðferðir snúizt í höndum þeirra eins og kom í ljós í kosningunni í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík.
    Það verður fróðlegt að sjá hvaða árangri Hannes Friðriksson nær í undirskriftasöfnuninni á Suðurnesjum. En það hlýtur líka að koma til umræðu, að grundvallarákvörðun um framtíð Hitaveitu Suðurnesja verði tekin af fólkinu sjálfu en ekki tiltölulega fámennum hópi manna, þótt þeir hafi verið kjörnir til trúnaðarstarfa í þágu fólksins.
    Hvað skyldu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja um það?