Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 230. máls.

Þskj. 249  —  230. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hlutafélög“ í 1. tölul. kemur: Félög skv. 2.–4. tölul.
     b.      Á eftir orðunum „svo og“ í 3. tölul. kemur: sparisjóðir og skráð útibú erlendra félaga og.

2. gr.

    5. málsl. 4. gr. laganna orðast svo: Breytingin skal tilgreind í samþykktum félagsins og rökstudd í skýringum með fyrsta ársreikningi eftir breytinguna.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 65. gr. laganna:
     a.      Orðin „sameignarfélögum og samlagsfélögum“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í sameignarfélögum og samlagsfélögum skal upplýsa um eigendur og eignarhluta þeirra í upphafi og lok reikningsárs.

4. gr.

    Á eftir orðinu „skal“ í 1. málsl. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: til viðbótar upplýsingum skv. 65. gr.

5. gr.

    Á eftir 66. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 66. gr. a og 66. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (66. gr. a.)

Upplýsingaskylda.


    Í skýrslu stjórnar félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði skal birta nákvæmar upplýsingar um eftirtalin atriði:
     1.      uppbyggingu hlutafjár, þar á meðal hluti sem ekki eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði, mismunandi hlutaflokka og réttindi og skyldur tengdar þeim, sem og hlutfall þeirra af heildarhlutafé,
     2.      allar takmarkanir á framsali hluta, t.d. takmarkanir varðandi hlutafjáreign einstakra aðila eða ef samþykki félagsins eða annarra hluthafa þarf fyrir framsali,
     3.      verulega beina eða óbeina hlutafjáreign, þar á meðal óbeina eign í gegnum önnur félög eða gagnkvæma hlutafjáreign félaga,
     4.      eigendur hluta með sérstök stjórnunarréttindi og lýsingu á þeim réttindum,
     5.      helstu ákvæði kaupréttaráætlana starfsmanna,
     6.      allar takmarkanir varðandi atkvæðisrétt, t.d. takmarkanir á atkvæðisrétti hluthafa sem eiga ákveðið hlutfall eða fjölda atkvæða, frest til að nýta atkvæðisrétt eða ef fjárhagsleg réttindi tengd hlutum eru ekki tengd eignarhaldi þeirra,
     7.      alla samninga milli hluthafa sem félaginu er kunnugt um og geta haft í för með sér takmarkanir varðandi framsal og/eða atkvæðisrétt,
     8.      reglur varðandi tilnefningar og endurnýjun stjórnarmanna og breytingar á samþykktum félags,
     9.      sérstakar heimildir stjórnar, þar á meðal heimildir til að gefa út nýja hluti eða kaupa eigin hluti,
     10.      samninga sem félagið er aðili að og taka gildi, breytast eða falla úr gildi ef breytingar verða á stjórnun eða yfirráðum í félagi í kjölfar yfirtökutilboðs og áhrif þess á félagið, nema um sé að ræða upplýsingar sem haft geta skaðleg áhrif á starfsemi félagsins eða hafa óveruleg áhrif á starfsemi félagsins. Þær undantekningar eiga þó ekki við ef um er að ræða upplýsingar sem félagi er skylt að birta á grundvelli laga,
     11.      samninga félagsins við stjórnarmenn eða starfsmenn um greiðslur eða bætur ef þeir segja upp eða ef þeim er sagt upp án gildrar ástæðu eða ef starfi þeirra lýkur vegna yfirtökutilboðs.
    Stjórn félags sem skráð hefur einn eða fleiri hlutabréfaflokka á skipulegum verðbréfamarkaði skal á aðalfundi hvert ár kynna þau atriði sem tiltekin eru í 1. mgr.

    b. (66. gr. b.)

Yfirlýsing stjórnarmanna.


    Í félagi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem gefið hefur út verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu skal hver og einn stjórnarmaður undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verksvið innan stjórnar félagsins. Í yfirlýsingunni skal koma fram að samkvæmt bestu vitneskju stjórnarmanna sé ársreikningur saminn í samræmi við VIII. kafla og gefi glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins. Þá skal koma fram að skýrsla stjórnar geymi glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem félagið stendur frammi fyrir. Sama gildir þegar um samstæðureikning er að ræða sem móðurfélagið semur.

6. gr.

    Á eftir 87. gr. laganna kemur nýr kafli, VII. kafli A, Árshlutareikningsskil, með fimm nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (87. gr. a.)

Árshlutareikningur.


    Félag skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem gefið hefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skal semja árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
    Ef endurskoðendur hafa ekki áritað árshlutareikninginn skal það koma fram í árshlutaskýrslu stjórnar.
    Árshlutareikningurinn skal hafa að geyma styttan rekstrarreikning, styttan efnahagsreikning í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sjóðstreymi, skýringar og árshlutaskýrslu stjórnar, sbr. 87. gr. b, ásamt árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna, sbr. 87. gr. c, og áritun endurskoðanda þegar það á við.
    Við samningu árshlutareiknings skal fylgja sömu meginreglum um færslu og mat og gildir um samningu ársreiknings.
    Ákvæði um samningu árshlutareikninga samkvæmt þessari grein skulu jafnframt gilda um samstæðureikninga eftir því sem við á.
    Ákvæði 2.–5. mgr. taka einnig til fyrstu þriggja og níu mánaða árshlutareikninga, kjósi félag að semja slík reikningsskil.

    b. (87. gr. b.)

Árshlutaskýrsla stjórnar.


    Í árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins skal að minnsta kosti tilgreina mikilvæga atburði sem átt hafa sér stað á fyrstu sex mánuðum reikningsársins og áhrifum þeirra á árshlutareikninginn. Jafnframt skal árshlutaskýrsla stjórnar geyma lýsingu á helstu áhættu- og óvissuþáttum þeirra sex mánaða sem eftir eru af reikningsárinu og meiri háttar viðskiptum við tengda aðila.

    c. (87. gr. c.)

Árshlutayfirlýsing stjórnarmanna.


    Í félagi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem gefið hefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu skal hver og einn stjórnarmaður undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verksvið innan stjórnar félagsins. Í yfirlýsingunni skal koma fram að samkvæmt bestu vitneskju stjórnarmanna sé árshlutareikningur, sbr. 87. gr. a, saminn í samræmi við VIII. kafla og gefi glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins og samstæðunnar í heild, og að árshlutaskýrsla stjórnar, skv. 87. gr. b, gefi skýra mynd af þeim upplýsingum sem krafist er.

    d. (87. gr. d.)

Undanþága.


    Ákvæði kafla þessa gilda ekki um félög sem eingöngu gefa út skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem nafnverð hverrar útgefinnar einingar er hærra en 4.600.000 kr. Fjárhæð þessi er grunnfjárhæð sem er bundin gengi evru 3. janúar 2007 (92,37 íslenskar krónur).

    e. (87. gr. e.)

Birting árshlutareiknings.


    Félag skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem gefið hefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu skal birta árshlutareikning, sbr. 3. mgr. 87. gr., í samræmi við ákvæði VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 90. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „skylt“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: heimilt.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Félag skv. 2. og 3. tölul. og 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem hefur eingöngu skuldabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, skal beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings ef því ber að semja samstæðureikning samkvæmt lögum þessum.
     c.      Á eftir tilvísuninni „skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr.“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: og 3. mgr. þessarar greinar.

8. gr.

    Á eftir orðinu „samningu“ í 91. gr. laganna kemur: samstæðureiknings eða.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 92. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Félagi skv. 1. mgr. sem kýs að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings sem því er skylt að semja er einnig heimilt að beita þeim við samningu ársreiknings síns.
     b.      2. málsl. fellur brott.

10. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna orðast svo: Eftirlitið nær jafnframt til árshlutareikninga, sbr. VII. kafla A.

11. gr.

    Á eftir 94. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 94. gr. a og 94. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (94. gr. a.)

Dagsektir.


    Ársreikningaskrá getur lagt dagsektir á eftirlitsskyld félög samkvæmt kafla þessum veiti þau ekki umbeðnar upplýsingar innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektirnar þangað til umbeðnar upplýsingar hafa borist ársreikningaskrá. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika viðkomandi félags og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til yfirskattanefndar innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana.
    Áfallnar dagsektir falla ekki niður þó að eftirlitsskylt félag verði síðar við kröfu ársreikningaskrár.
    Dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar og renna til ríkissjóðs.
    Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

    b. (94. gr. b.)

Úrskurðir.


    Komist ársreikningaskrá að þeirri niðurstöðu að reikningsskil eftirlitsskylds félags séu ekki í samræmi við ákvæði laganna getur ársreikningaskrá krafist þess að reikningsskilin séu leiðrétt og að félagið birti breytingar og/eða viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegar eru. Ársreikningaskrá getur birt opinberlega upplýsingar um nauðsynlegar breytingar á reikningsskilum verði félagið ekki við kröfum hennar. Þessu til viðbótar getur ársreikningaskrá óskað eftir því við viðkomandi kauphöll að viðskiptum með verðbréf eftirlitsskylds félags verði hætt tímabundið á skipulegum verðbréfamarkaði, þar til félagið hefur birt fullnægjandi reikningsskil og/eða viðbótarupplýsingar að mati ársreikningaskrár.
    Úrskurður ársreikningaskrár er kæranlegur til fjármálaráðherra innan 14 daga frá því að hann er kynntur þeim er hann beinist að. Tekur úrskurðurinn ekki gildi ef kært er, nema að ráðherra staðfesti hann. Að öðru leyti skal farið með brot á lögum þessum í samræmi við ákvæði XII. kafla.

12. gr.

    Við 95. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Við upphaf hvers reikningsárs skulu félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt þessum kafla gera ársreikningaskrá grein fyrir öllum dótturfélögum sínum sem eru innifalin í samstæðureikningsskilunum og hvert af þeim beita stöðlunum.

13. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 100. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Endurskoðendur og skoðunarmenn skulu gera skýrslu um endurskoðunarvinnu sem a.m.k. inniheldur“ í 1. mgr. kemur: Áritun endurskoðenda og skoðunarmanna skal a.m.k. innihalda.
     b.      Orðin „áritun þar sem skýrt kemur fram“ í 3. tölul. 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðsins „skýrsluna“ í 2. mgr. kemur: áritunina.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 109. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sex“ í 2. málsl. kemur: fjórum.
     b.      Í stað orðsins „tölvutæku“ í 4. málsl. kemur: rafrænu.

16. gr.

    Orðin „eða samstæðureiknings“ í 1. mgr. 112. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Í stað orðanna „og 2003/51/EB“ í 128. gr. laganna kemur: 2003/51/EB og 2004/109/EB.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær tillögur sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga eru þrenns konar. Í fyrsta lagi byggjast þær á félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB. Tilskipun þessi var felld inn í EES-samninginn samkvæmt samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005 frá 30. september 2005. Hluti tilskipunarinnar var tekinn upp í lög um verðbréfaviðskipti en ákvæði II. kafla tilskipunarinnar kalla á breytingar á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og ná breytingarnar til félaga vegna reikningsárs sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar á því ári. Breytingarnar lúta annars vegar að upplýsingagjöf stjórnenda í ársreikningum þeirra félaga sem gefið hafa út verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar upplýsingagjöf stjórnenda í árshlutareikningsskilum þeirra félaga sem gefið hafa út skuldabréf eða hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sem innleidd var í lög um ársreikninga á árinu 2005, var lagður grunnur að samræmingu reikningsskilastaðla í ríkjum ESB fyrir útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulagðan markað. Þar með hefur þegar verið komið á fót sérstöku kerfi fyrir útgefendur verðbréfa, sem er víðtækara en hið almenna kerfi fyrir öll félög sem mælt er fyrir um í tilskipunum um félagarétt. Tilskipunin, sem þetta frumvarp er að leiða í lög, að því er varðar ársreikninga félaga, byggist á þessari nálgun hvað varðar samningu ársreikninga og árshlutareikninga. Árshlutareikningar ná yfir tiltekið reikningstímabil félagsins sem er styttra en reikningsárið, t.d. 3 mánuði, 6 mánuði eða 9 mánuði. Með frumvarpinu er félögum sem gefið hafa út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu gert skylt að semja árshlutareikninga og árshlutaskýrslur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins. Heimilt verður samkvæmt frumvarpinu að semja stytt árshlutareikningsskil í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðla um það efni.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að afnumin verði skylda móðurfélaga og dótturfélaga, þeirra félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, til að notast við alþjóðlega staðla við samningu ársreiknings. Þeim félögum sem hér um ræðir verður eftir sem áður heimilt að beita alþjóðlegum stöðlum kjósi þau það. Skuldbindingar okkar að Evrópurétti taka aðeins til samstæðureikninga en ekki til reikninga móður- og dótturfélaga. Við lögfestingu reglna um alþjóðlega reikningsskilastaðla var talið rétt að láta þær reglur einnig ná til móður- og dótturfélaga. Við nánari athugun og að fenginni reynslu þykir nú hins vegar rétt að hverfa frá þeirri skyldu. Mikill kostnaður og fyrirhöfn fylgir því að gera ársreikninga og árshlutareikninga samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og má reikna með að þessi breyting sé til hagsbóta fyrir mörg fyrirtæki sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Hafa ber í huga að dótturfélög í samstæðum geta verið mjög mörg og starfsemi þeirra misumfangsmikil og því er ekki þörf á að skylda dótturfélög til að gera upp í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Með þessari breytingu er ekki verið að minnka gæði reikningsskila hjá samstæðunum og breytingin mun ekki hafa áhrif á samstæðureikning viðkomandi samstæðu og ekki leiða til óhagræðis eða ónákvæmari upplýsinga til fjárfesta.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að ársreikningaskrá verði veitt heimild til að beita dagsektum þegar félög, sem eru undir eftirliti hennar vegna beitingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu reikningsskila sinna, veita ekki umbeðnar upplýsingar. Um er að ræða félög sem hafa gefið út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu og önnur félög sem heimild hafa til að beita þessum stöðlum. Jafnframt er lagt til að ársreikningaskrá geti haft frumkvæði að því að birta opinberlega upplýsingar um reikningsskil sem talin eru ófullnægjandi að mati hennar og hvaða hluta reikningsskilanna hún telur að þurfi að leiðrétta eða veita frekari upplýsingar um. Þá er og lagt til að ársreikningaskrá geti að auki óskað eftir því að viðskipti með bréf félaga á skipulegum verðbréfamarkaði verði stöðvuð tímabundið, þar til þau hafa farið að tilmælum hennar varðandi leiðréttingar reikningsskila. Tilgangur með þessari tillögu er að gera eftirlit ársreikningaskrár skilvirkara og auðveldara í framkvæmd. Í lögunum eins og þau eru núna, hefur ársreikningaskrá takmörkuð úrræði til að bregðast við ef félög veita ekki umbeðnar upplýsingar. Þetta hefur orðið til þess að vegna viðbragðsleysis eftirlitsskyldra félaga hefur eftirlit ársreikningaskrár ekki virkað eins og til var ætlast. Félög hafa dregið úr hófi að svara fyrirspurnum ársreikningaskrár og þannig gert ársreikningaskrá erfitt um vik að bregðast við þegar upplýsingar vantar í reikningsskil. Þetta hefur sérstaklega átt við í sambandi við árshlutauppgjör. Með því að setja inn ákvæði um dagsektir fær ársreikningaskrá möguleika á að beita aðila sem ítrekað bregðast ekki við beiðnum um upplýsingar sektum. Það má því ætla að eftirlitið verði skilvirkara þar sem upplýsingaöflun vegna mála ætti að ganga hraðar fyrir sig. Við mótun heimilda dagsekta var m.a. horft til þeirra heimilda sem Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og enn fremur 16. liðar í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla þar sem skýrt kemur fram að forsenda þess að styrkja traust fjárfesta á fjármálamörkuðum sé viðeigandi og strangt kerfi til að framfylgja gildandi reglum. Þá var við mótun á heimildum til aðgerða gagnvart félögum sem brjóta ákvæði laganna varðandi framsetningu og innihald reikningsskila einnig horft til heimilda eftirlitsaðila í Danmörku, Noregi og Finnlandi.
    Að auki er að finna í frumvarpinu ýmsar tillögur um lagfæringar á orðalagi án þess að um eiginlegar efnisbreytingar sé um að ræða eins og nánar er greint frá í athugasemdum við þær greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a-lið er lagt til að undir 1. tölul. falli öll félög sem lög um ársreikninga ná yfir og hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi tillaga kemur fram í tengslum við 7. gr. frumvarpsins.
    Í b-lið er tillaga um að tekið verði inn í upptalningu um gildissvið laganna ákvæði um sparisjóði og skráð útibú erlendra félaga. Upptalning þeirra féll niður við fyrri lagabreytingar, sbr. nú lög nr. 3/2006, um ársreikninga, en ótvírætt er að sparisjóðir falli undir lögin. Jafnframt er lagt til að tekið verði með skýrum hætti fram að skráð útibú erlendra félaga falli undir lögin, en reikningsskil þeirra eru birtingarskyld hjá ársreikningaskrá, sbr. 112. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að felld verði niður skylda félags til að tilkynna ársreikningaskrá þegar það breytir reikningsári sínu. Látið er nægja að breytingin á samþykktum sé tilkynnt viðkomandi félagaskrá (fyrirtækjaskrá, firmaskrá) og rökstudd í skýringum með ársreikningi sem senda ber til ársreikningaskrár.

Um 3. gr.


    Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða en lagt er til að ákvæði um upplýsingaskyldu sameignarfélaga og samlagsfélaga um eigendur í árslok verði til einföldunar gerð að sérstökum málslið.

Um 4. gr.


    Hér er með ótvíræðum hætti tekið fram að bæði upplýsingar skv. 65. og 66. gr. skulu koma fram í skýrslu stjórnar hjá þeim félögum sem skylt er að gefa upp upplýsingar skv. 66. gr.

Um 5. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar í samræmi við tilskipanir ESB nr. 25/2004/EB og nr. 109/2004/EB.
     Um a-lið (66. gr. a).
    Í þessari grein er kveðið á um aukna upplýsingaskyldu í skýrslu stjórnar og á aðalfundi félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði um ýmis atriði sem haft geta áhrif á innihald tilboðs. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. tilskipunar nr. 25/2004/EB um yfirtökutilboð og var leitt í lög með samþykkt 28. gr. laga nr. 31/2005, um starfsemi kauphalla. Ákvæðið þykir frekar eiga heima í lögum um ársreikninga og hefur verið fellt út úr fyrrnefndum lögum með gildistöku nýrra laga um starfsemi kauphalla.
    Um b-lið (66. gr. b).
    Breytingin sem hér er lögð til er í samræmi við 4. gr. tilskipunar nr. 2004/109/EB. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skyldu stjórnarmanna í félögum sem hafa gefið út verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt henni ber stjórnarmönnum að undirrita yfirlýsingu um að ársreikningurinn ásamt skýrslu stjórnar og samstæðureikningur, þegar hann er saminn, sé að þeirra bestu vitund í samræmi við VIII. kafla laganna og gefi glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins. Enn fremur að skýrsla stjórnar geymi glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem félagið stendur frammi fyrir. Skal í yfirlýsingunni koma fram nafn hvers og eins stjórnarmanns og staða hans í stjórninni og skulu allir skrifa undir hana.

Um 6. gr.


    Hér er lögð til breyting í samræmi við 5. gr. tilskipunar nr. 2004/109/EB. Um er að ræða fimm greinar sem fjalla um samningu árshlutareikninga, árshlutaskýrslna, árshlutayfirlýsingar stjórnarmanna og birtingu þeirra. Í gildandi lögum um ársreikninga er ekki fjallað um árshlutareikninga nema í 1. mgr. 94. gr. en þar er aðeins kveðið á um það að ársreikningaskrá skuli hafa eftirlit með árshlutareikningum þeirra félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ef þeir eru samdir og birtir almenningi.
    Með árshlutareikningsskilum er átt við reikningsskil félags fyrir tímabil sem er skemmra en 12 mánuðir, sem talið er reikningsár, sbr. 4. gr. laganna.
    Um a-lið (87. gr. a).
    Í 1. mgr. kemur fram að félagi sem gefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu er skylt að semja árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
    Í 2. mgr. er tilgreind sú meginregla að árshlutareikningur þurfi ekki að vera endurskoðaður eða kannaður og skal þess þá sérstaklega getið í árshlutaskýrslu stjórnar. Hafi svo verið gert skal það koma fram í áritun endurskoðanda sem fylgir árshlutareikningnum.
    Í 3. mgr. er lagt til í samræmi við 5. gr. tilskipunar 2004/209/EB að rekstrarreikningur og efnahagsreikningur sé saminn í styttu formi í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal nr. 34. Í 10. tölul. staðalsins kemur fram að þegar félag birtir stytt reikningsskil í árshlutareikningsskilum sínum skulu a.m.k. allar fyrirsagnir og millisamtölur sem voru í síðasta ársreikningi félagsins og þær völdu skýringar sem gerðar eru kröfur um samkvæmt staðlinum vera í þeim reikningsskilum. Aðrar sérlínur eða skýringar skulu vera með ef vöntun þeirra mundi gera styttu árshlutareikningsskilin villandi. Í þessari grein er notað orðið „styttur árshlutareikningur“ til aðgreiningar frá „samandregnum ársreikningi“ sem félög, undir tilteknum stærðarmörkum sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, birta hjá ársreikningaskrá og byggist á reglugerð nr. 694/1996, um samandregna ársreikninga.
    Í 4. mgr. eru ákvæði um að fylgja skuli sömu meginreglum um færslu og mat og gildir um samningu ársreiknings.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um að sömu ákvæði skulu gilda um samningu samstæðureikninga fyrir árshlutatímabil og gilda um ársreikninga.
    Í 6. mgr. kemur fram að ef samdir eru árshlutareikningar fyrir fyrstu þrjá mánuði reikningsársins og fyrir níu mánuði reikningsársins gilda ákvæði 2.–5. mgr. um þá árshlutareikninga.
     Um b-lið (87. gr. b).
    Í b-lið er fjallað um innihald í árshlutaskýrslu stjórnar fyrir fyrstu sex mánuði reikningsársins. Þar skal greina frá mikilvægum atburðum sem átt hafa sér stað á umræddu tímabili og áhrifum þeirra á árshlutareikninginn. Svo og skal skýrslan hafa að geyma lýsingu á helstu áhættu- og óvissuþáttum þeirra sex mánaða sem eftir eru af reikningsárinu og meiri háttar viðskiptum við tengda aðila.
     Um c-lið (87. gr. c).
    Í c-lið er fjallað um innihald í árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna með árshlutareikningnum. Er hún í samræmi við ákvæði í b-lið 5. gr. frumvarpsins.
     Um d-lið (87. gr. d).
    Í d-lið er lagt til að veitt verði undanþága frá því að semja árshlutareikninga og árshlutayfirlýsingu hjá þeim félögum sem eingöngu gefa út skráð skuldabréf þar sem nafnverð hverrar einingar er hærra en 4.600.000 kr. Ákvæðið er í samræmi við b-lið 1. tölul. 8. gr. tilskipunar nr. 2004/109/EB og fjárhæðin, 4.600.000 kr., tekur sömu breytingum og gengi evrunnar á hverjum tíma. Samsvarandi fjárhæð er að finna í 56. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.
    Um e-lið (87. gr. e).
    Lagt er til að birting árshlutareikninga skuli fara fram í samræmi við ákvæði VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti. Ekki er talin ástæða til þess að gera kröfu til opinberrar birtingar árshlutareikninga hjá ársreikningaskrá.

Um 7. gr.


    Í a-lið er lagt til að skylda móðurfélaga og dótturfélaga sem eru innifalin í samstæðureikningsskilum, svo og félaga skv. 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr., sem eru í meirihlutaeigu félaga í samstæðunni, til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlunum verði felld niður. Þess í stað er lagt til að stjórn viðkomandi félags geti ákveðið hvort það beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu ársreiknings og árshlutareiknings.
    Í b-lið er gerð tillaga um að félög sem hafa eingöngu skuldabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings ef þeim er skylt að semja samstæðureikning samkvæmt gildandi lagaákvæðum. Er það í samræmi við reglugerð EB nr. 1606/2002, sem VIII. kafli laganna byggist á. Hér getur verið um að ræða samvinnufélög með B-deildar stofnsjóð svo og sameignarfélög og samlagsfélög sem falla að öðru leyti undir 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Breyting þessi er gerð í tengslum við tillögu í a-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið er lagt til að sama krafa verði gerð til félaga sem eingöngu hafa skuldabréf skráð á markaði og til þeirra félaga sem hafa skráð hlutabréf á markaði og mynda ekki samstæðu með dótturfélögum. Í báðum þessum tilvikum skal slíkt félag beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu ársreikninga og árshlutareikninga sinna.

Um 8. gr.


    Með greininni eru tekin af öll tvímæli um að skyldan til að beita stöðlunum á því ári sem verðbréf eru afskráð af markaði og næsta reikningsári á eftir nái einnig til samstæðureikninga.

Um 9. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða a-lið 7. gr. frumvarpsins þar sem afnumin er skylda móðurfélaga og dótturfélaga í samstæðu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Um 10. gr.


    Hér er um að ræða nánari tilvísun til nýs kafla í lögunum, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.


     Um a-lið (94. gr. a).
    Í 1. mgr. er lagt til að ársreikningaskrá geti lagt dagsektir á eftirlitsskyld félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ef þau verða ekki við því að veita ársreikningaskrá umbeðnar upplýsingar varðandi reikningsskil sín innan hæfilegs frests. Dagsektirnar geti þá numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag þar sem tekið verður mið af fjárhagslegum styrk þeirra og hvort um ítrekað brot er að ræða. Sé um að ræða ítrekað brot er eðlilegt að dagsektir viðkomandi félags séu hærri en ella.
    Samkvæmt 2. mgr. má kæra ákvörðun ársreikningaskrár um dagsektir til yfirskattanefndar innan 14 daga. Þó að ákvörðun ársreikningaskrár um dagsektir sé skotið til yfirskattanefndar leggjast dagsektirnar áfram á hafi ársreikningaskrá ekki verið veittar umbeðnar upplýsingar, enda væri óeðlilegt, með hliðsjón af eðli dagsekta sem úrræðis til að knýja fram efndir, að unnt væri að stöðva dagsektir með kæru til yfirskattanefndar.
    Með 3. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að dagsektir falla ekki niður þó að viðkomandi félag verði síðar við kröfum ársreikningaskrár.
    Samkvæmt 4. mgr. er lagt til að dagsektirnar séu aðfararhæfar og renni til ríkissjóðs.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um ákvörðun sekta og innheimtu þeirra.
     Um b-lið (94. gr. b).
    Í 1. mgr. er fjallað um aðgerðir ársreikningaskrár þegar hún kemst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa fengið allar nauðsynlegar upplýsingar eftirlitsskylds félags um reikningsskil þess að þau séu ekki í samræmi við ákvæði laganna. Lagt er til að ársreikningaskrá geti í því tilfelli krafist að reikningsskilin séu leiðrétt og birt þannig eða krafist viðbótarupplýsinga við reikningsskilin. Verði félag ekki við þessari kröfu getur ársreikningaskrá að eigin frumkvæði birt athugasemdir sínar. Lagt er til að í alvarlegum málum geti ársreikningaskrá óskað eftir því við viðkomandi kauphöll ef félagið er með verðbréf sín í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði að viðskiptum með verðbréf félagsins verði tímabundið hætt þar til félagið hefur birt fullnægjandi reikningsskil að mati ársreikningaskrár.
    Með 2. mgr. er lagt til að úrskurðir ársreikningaskrár verði kæranlegir til fjármálaráðherra og taki úrskurðurinn ekki gildi ef kært er fyrr en niðurstaða hans liggur fyrir. Að öðru leyti verður farið með brot á lögunum í samræmi við XII. kafla laganna.

Um 12. gr.


    Hér er lagt til að bæði skráð félög sem og óskráð félög sem heimild hafa til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum tilkynni ársreikningaskrá í upphafi rekstrarárs um þau dótturfélög sem innifalin eru í samstæðureikningi þeirra og hver þeirra beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við reikningsskil sín. Er það annars vegar vegna innheimtu umsýslu- og eftirlitsgjaldsins og hins vegar til að viðhalda réttri opinberri birtingu, sbr. 4. mgr. 92. gr. í gildandi lögum, á þeim félögum sem beita stöðlunum og ársreikningaskrá hefur eftirlit með.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að fella niður skyldu félaga til að tilkynna ársreikningaskrá sérstaklega um breytingu á endurskoðanda eða skoðunarmanni enda kemur þessi breyting fram í hverjum ársreikningi sem sendur er til ársreikningaskrár.

Um 14. gr.


    Hér er lögð til lagfæring á orðalagi greinarinnar þannig að ljóst sé að verið sé að fjalla um innihald áritunar endurskoðanda eða skoðunarmanns. Samkvæmt 3. tölul. 106. gr. getur áritunin falist í þeirri vinnu sem lögð er í við endurskoðunina sem getur verið án fyrirvara, með fyrirvara, neikvæð eða án álits en þá skal það koma fram í texta áritunarinnar.

Um 15. gr.


    Í a-lið er lagt til að stytta þann frest sem veittur er til að leggja fram til birtingar ársreikninga hjá félögum sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði svo og öðrum félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt heimild í 92. gr. laganna úr sex mánuðum í fjóra. Er það í samræmi við 1. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2004/ 109/EB.
    Í b-lið er lögð til notkun á orðinu „rafræn“ í stað tölvutæk, sbr. l) lið 1. gr. fyrrnefndrar tilskipunar.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er að finna tillögu um að fella niður orðin „eða samstæðureiknings“ sem hefur valdið misskilningi. Útibúum erlendra félaga ber að leggja fram reikningsskil sín sem eru þá eingöngu um rekstur félagsins á Íslandi, tekjur þess og gjöld, eignir og skuldir, tilheyrandi atvinnurekstrinum hér á landi ásamt ársreikningi erlenda félagsins.

Um 17. gr.


    Hér er lagt til að tilgreind verði tilvísun til þeirrar tilskipunar sem tillögur þessa frumvarps byggjast á að stórum hluta.

Um 18. gr.


    Lagt er til að lögin taki til ársreikninga sem samdir eru á árinu 2008 fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar á því ári og árshlutareikninga sem samdir eru á árinu 2008. Samkvæmt kröfu kauphallar semja öll félög með skráð verðbréf nú þegar árshlutareikninga fyrir fyrstu sex mánuði reikningsársins. Er því í raun ekki um að ræða nýtt ákvæði varðandi samningu árshlutareikninga á árinu 2007. Því til viðbótar er það valkvætt að semja þriggja og níu mánaða árshlutareikninga skv. 6. mgr. 87. gr. a í gildandi lögum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006,
um ársreikninga, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga sem eru aðallega af þrennum toga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að lögfesta ýmis atriði sem leiðir af félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/109/EB. Annars vegar er þar um að ræða atriði sem lúta að upplýsingagjöf stjórnenda í ársreikningum þeirra fyrirtækja sem gefa út verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði eins og nánar er greint frá í almennum athugasemdum við frumvarpið. Hins vegar er kveðið á um skyldu slíkra fyrirtækja til að birta árshlutareikninga fyrir fyrstu sex mánuði hvers reikningsárs. Tilgangurinn er að gera fjárfestum betur kleift að meta stöðu sína á grundvelli tíðari upplýsinga frá slíkum félögum. Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að afnumin verði skylda móðurfélaga og dótturfélaga þeirra félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum til að notast við alþjóðlega staðla nema þau kjósi að gera það. Í þriðja lagi eru í frumvarpinu ákvæði sem ætlað er að efla eftirlit ársreikningaskrár með því að fjölga úrræðum til að bregðast við þegar félög veita ekki umbeðnar upplýsingar. Þar á meðal er lagt til að ársreikningaskrá verði veitt heimild til að beita dagsektum frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag vegna dráttar á skilum umbeðinna upplýsinga frá félögum sem sæta eftirliti vegna beitingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Ekki er þó ástæða til að ætla að slíkum dagsektum þurfi að beita í þeim mæli að þær skili teljandi tekjum í ríkissjóð. Þá geti ársreikningaskrá birt opinberlega upplýsingar um reikningsskil sem talin eru vera ófullnægjandi og einnig óskað eftir því að viðskipti með bréf félaga á skipulegum verðbréfamarkaði verði stöðvuð tímabundið. Ákvæði frumvarpsins varða einkum fremur fá en stór íslensk fyrirtæki. Verði það samþykkt má gera ráð fyrir að starfsemi ársreikningaskrár verði skilvirkari en að áhrif á útgjöld ríkisins verði óveruleg.