Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 310  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 6/2007 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. ágúst 2007 í Nuuk á Grænlandi. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi. Markmið þess yrði að auka umræðu um jafnréttismál og skilning á því að kvenréttindi eru mannréttindi óháð menningu, sem og að auka þekkingu á ólíkum kjörum og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

Rökstuðningur.
    Víða um veröld er hagur kvenna mjög bágborinn, einkum í fátækari löndum. Hægt er að nefna mörg hryggileg dæmi um misrétti og ofbeldi gagnvart konum því til stuðnings. Kynbundin mannréttindabrot og ofbeldi endurspegla hefðbundin viðhorf til kvenna í þá veru að konur eigi ekki að njóta sama réttar, sömu sæmdar og sömu virðingar og karlmenn.
    Staða kvenna fer þó ekki endilega saman með lífskjörum, heldur ráða viðhorf meira þar um. Undanfarið hefur orðið mikil umræða um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og konum sem er eitt alvarlegasta brot gegn mannhelgi. Við þessu ber að sporna. Lög um jafnrétti kynjanna eru mikilvæg sem og aðrar sértækar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Jafnrétti í reynd kallar hins vegar á viðhorfsbreytingu.
    Viðhorfum er viðhaldið eða breytt samfara félagsmótun barna og ungmenna sem einkum fer fram innan fjölskyldunnar og menntakerfisins. Gerð skyldunámsefnis um mannréttindi og misjöfn kjör kvenna á norðurslóðum og á Vestur-Norðurlöndum gæti verið lóð á vogarskálar viðhorfsbreytinga í þá veru að líta konur og karla sömu augum sem manneskjur sem njóti sömu mannréttinda og hafi sama rétt til mannhelgi.
    Kerfisbundin söfnun upplýsinga um kjör kvenna á norðurslóðum er ekki fyrir hendi að Norðurlöndunum undanskildum. Það sama gildir um rannsóknir. Hins vegar liggja fyrir niðurstöður einnar viðamestu rannsóknar sem unnin hefur verið um lífskjör á norðurslóðum. Niðurstöðurnar voru birtar í lok mars 2007 og var um að ræða lokaskýrslu alþjóðlega rannsóknarverkefnisins SLiCA (e. Survey of Living Conditions in the Arctic) sem hófst árið 1997 og unnin var með tilstyrk ýmissa stofnana. Rannsóknin náði til norðurslóðasamfélaga Bandaríkjanna og Kanada, á Norðurlöndunum, þ.m.t. Vestur-Norðurlandanna að Færeyjum undanskildum, og samfélaga frumbyggja í Rússlandi.
    Rannsóknina er hægt að nýta sem upplýsingaefni við gerð þess skyldunámsefnis sem mælt er með. Það sama gildir um bók um velferð á Vestur-Norðurlöndum, sem nýverið kom út og felur í sér samantekt á niðurstöðum rannsókna sem unnar voru fyrir tilstyrk Norrænu ráðherranefndarinnar. Annað efni og rannsóknir er vissulega ekki undanskilið en í báðum rannsóknarverkefnunum, sem nefnd hafa verið, er m.a. að finna upplýsingar um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum, þ.m.t. jákvætt samfélagslegt hlutverk kvenna sem sterkra fyrirmynda og einstaklinga í samfélagi við karlmenn. Í samræmi við markmiðið með gerð námsefnisins yrði síðan að samþætta upplýsingar um mannréttindi og kvenréttindi eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum auk annars tengds efnis inn í námsefnið með það að markmiði að gera sambandinu á milli mannréttinda, menningar og stöðu kvenna skil.“