Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 448  —  229. mál.




Nefndarálit



um frv. til. l. um breyt. á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur, Ögmund Hrafn Magnússon og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra, tollstjóranum á Suðurnesjum, sýslumanninum á Akranesi, Ríkisendurskoðun, Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði og Samskipum. Einnig hafa borist tilkynningar frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til fimm breytingar á tollalögum. Í fyrsta lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að tollstjóranum í Reykjavík verði í stað fjármálaráðuneytisins falið að annast afgreiðslu tiltekinna leyfisveitinga til samræmis við yfirlýsta stefnu ráðuneytisins. Í annan stað er lagt til að viðmiðun við ákvörðun tollafgreiðslugengis verði breytt og að hún verði framvegis miðuð við daglega gengisskráningu. Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir nýrri tegund geymslusvæðis er ber heitið umflutningsgeymslur. Í fjórða lagi er lagt til að öðrum lögaðilum í atvinnurekstri en farmflytjendum og tollmiðlurum verði heimilað að reka afgreiðslugeymslur. Í fimmta lagi eru lagðar til smávægilegar lagfæringar á einstökum ákvæðum laganna vegna brotthvarfs varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
    Fram kom að tillaga frumvarpsins um breytta viðmiðun tollafgreiðslugengis hefði verið unnin að höfðu samráði við Hagstofu Íslands. Um ástæður þess hvers vegna tollyfirvöld hefðu ekki hagað framkvæmdinni með þessum hætti fyrr var vísað til þess að það hefði ekki verið tæknilega framkvæmanlegt. Þá ræddi nefndin líkleg áhrif þessarar breytingar á tekjur ríkissjóðs og var það mat gesta að þær mundu standa í stað þótt erfitt væri að sjá það fyrir. Nefndin vill leggja áherslu á að tollafgreiðslugengi verði miðgengi viðkomandi gjaldeyris en ábendingar um þetta komu fram í umsögn Hagstofu Íslands.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt hver áhrif flutningur á afgreiðslu leyfisveitinga úr fjármálaráðuneyti til tollstjórans í Reykjavík mundi hafa á stöðu landsbyggðarinnar. Kom fram að tollafgreiðsla færi að langstærstum hluta í gegnum embætti tollstjórans í Reykjavík. Ekki væri ástæða til að ætla að þessi tilfærsla á verkefnum hefði neikvæð áhrif á landsbyggðina. Nefndin bendir þó á að verkefni embættisins varða mikilsverða þætti í starfsumhverfi fyrirtækja og undirstrikar mikilvægi þess að gætt sé jafnræðis.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar í því augnamiði að laga tilvísanir í einstökum ákvæðum laganna að breytingum frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Á eftir 3. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
           a.      (4. gr.)
                     Í stað orðanna „2.–5. tölul.“ í 2. mgr. 70. gr., 1. mgr. 76. gr. og 1. mgr. 120. gr. laganna kemur: 2.–6. tölul.
        b    . (5. gr.)
                     Í stað orðanna „eða á frísvæði, sbr. 2.–5. tölul. 1. mgr. 69. gr.“ í 1. mgr. 79. gr. laganna kemur: umflutningsgeymslu eða á frísvæði, sbr. 2.–6. tölul. 1. mgr. 69. gr.
     2.      Á undan orðunum „1. mgr. 91. gr.“ í 1. mgr. a-liðar 18. gr. komi: 1.–9. tölul.

    Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Lúðvík Bergvinsson.