Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 497  —  131. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ingva Má Pálsson og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneytinu, Ingvar J. Rögnvaldsson og Guðrúnu Jenný Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Sigurð B. Halldórsson frá Samtökum iðnaðarins og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Skattrannsóknarstjóra ríkisins, Hagstofu Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Útlendingastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði. Einnig hafa nefndinni borist tilkynningar frá Seðlabanka Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Alþjóðahúsi og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Frumvarpið varðar framkvæmd skattalaga þegar í hlut eiga starfsmannaleigur sem ekki hafa skattalegt heimilisfesti hér á landi. Lagt er til að viðsemjanda starfsmannaleigunnar, notendafyrirtækinu, sem stundar starfsemi hér á landi, beri skylda til að annast staðgreiðslu launa og launatengdra gjalda hinna leigðu starfsmanna. Í Hæstaréttardómi nr. 523/2006 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að tilgreind ákvæði tekjuskattslaga, nr. 90/2003, og laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, veittu slíkri framkvæmd ekki nægilega skýra lagastoð.
    Á fundum nefndarinnar var rætt hvort upphafsgrein frumvarpsins fengi staðist þjónustufrelsisákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Um þetta atriði er ágreiningur milli fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins hins vegar.
    Það er skoðun Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins að beiting aðildarríkja á skattlagningarvaldi verði að rúmast innan fjórfrelsisákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í frumvarpinu sé fólgin mismunun og hindrun sem gangi í berhögg við 36. gr. samningsins sem einstök aðildarríki geti ekki réttlætt einvörðungu með vísan til skilvirkrar skattaframkvæmdar. Samtökin hafa gagnrýnt að erlend fyrirtæki sem veita tímabundið þjónustu hér á landi skuli ekki eiga þess kost að geta staðið skil á staðgreiðslu nema með stofnun útibús eða fyrir milligöngu innlends aðila, m.a. í ljósi lagaskyldu um tilnefningu sérstaks fulltrúa, sbr. 3. gr. laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, og 10. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.
    Skattayfirvöld hafa bent á að með frumvarpinu sé verið að festa í sessi skattframkvæmd sem rekja megi til laga nr. 145/1995, um breytingar á þágildandi tekjuskattslögum. Að baki henni búi m.a. það sjónarmið að staða hinna leigðu starfsmanna sé, a.m.k. í skattalegu tilliti, ekki frábrugðin stöðu annarra starfsmanna notendafyrirtækisins. Yfirvöldin hafa jafnframt vakið máls á ýmsum lagalegum og framkvæmdalegum vandkvæðum sem eru því samfara að krefja erlend þjónustufyrirtæki um staðgreiðslu launa og launatengdra gjalda og benda á að það sé meginviðhorf að aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hafi forræði á eigin skattamálefnum.
    Við meðferð málsins hefur nefndin rætt hvort skattyfirvöld geti farið aðrar leiðir við að ná fram markmiðum frumvarpsins sem nefndin telur að horfi til almannaheilla. Í ljósi þeirrar umræðu leggur nefndin til viðbót við upphafsgrein frumvarpsins sem ætlað er að taka til starfsmannaleiga sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríki eða í Færeyjum, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. fyrrnefndra laga nr. 45/2007. Krafa skattyfirvalda um staðgreiðslu á samkvæmt því fyrst og fremst að beinast að viðkomandi starfsmannaleigu og skyldur notendafyrirtækis í þeim efnum verða í formi ábyrgðar. Þá verði ráðherra gert að útlista nánar í reglugerð hvaða skilyrðum starfsmannaleigur þurfi að fullnægja til að geta staðið skil á staðgreiðslu hér á landi. Tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir að notendafyrirtækið geti tryggt í samningi við starfsmannaleiguna að hún standi skil á staðgreiðslu vegna hinna leigðu starfsmanna, t.d. með því að skilyrðisbinda leigugreiðslur sínar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsmannaleiga sem hefur staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum telst þó launagreiðandi nema um annað hafi verið samið við notendafyrirtæki. Notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, sbr. 20. gr. Fjármálaráðherra er heimilt að binda staðgreiðslu starfsmannaleigu nánari skilyrðum.

    Katrín Jakobsdóttir og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Bjarni Benediktsson.


Magnús Stefánsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Ólöf Nordal.