Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 333. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 684  —  333. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu.

     1.      Hversu margir eru án heilsugæslulæknis eða heimilislæknis á starfssvæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hvernig skiptist sá fjöldi eftir starfssvæðum einstakra heilsugæslustöðva og sveitarfélögum? Óskað er sundurliðunar eftir kyni og aldurshópunum 0–5 ára, 6–17 ára, 18–60 ára og eldri en 60 ára.
    Á svæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru u.þ.b. 196.000 íbúar. Af þeim eru um 40.000 skráðir hjá heilsugæslunni í Salahverfi, í Lágmúla og hjá sjálfstætt starfandi heilsugæslulæknum. Þeir sem eru án heilsugæslulæknis eða heimilislæknis á starfssvæði heilsugæslunnar eru ekki skráðir formlega og því er ekki mögulegt að sundurgreina þann hóp.
    Að mati stjórnenda heilsugæslunnar ættu innan við 10.000 manns af þessum 196.000 að vera óskráðir. Þá hefur verið tekið tillit til þess, að nokkuð eru um að fólk sé skráð á fleiri en eina stöð.
    Einnig má gera má ráð fyrir að einhver hluti þessa hóps kæri sig ekki um skráningu á heilsugæslustöð, af einhverjum ástæðum, en ótvírætt er hins vegar samkvæmt nýrri reglugerð nr. 787/2007, um heilsugæslustöðvar, sem sett er á grundvelli laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, að hver einstaklingur á rétt á skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð og þá að jafnaði þá stöð sem er næst heimili hans. Skal einstaklingur að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og ber heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir að leitast við að tryggja það. Í reglugerðinni er jafnframt tekið fram að ef ekki reynist unnt að skrá einstakling sem skjólstæðing tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð skuli þess þó gætt að hann njóti sams konar þjónustu á stöðinni og aðrir. Miða þessi ákvæði reglugerðarinnar að því að tryggja jafnt aðgengi og jafnræði landsmanna til heilsugæsluþjónustu í sinni heimabyggð
    Í samræmi við framangreint hefur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nýlega áréttað umrædd réttindi einstaklinga í bréfi til yfirlækna allra heilsugæslustöðva stofnunarinnar.

     2.      Hvernig er staðan í samanburði við önnur heilsugæsluumdæmi?
    Það getur gerst tímabundið að einstaka læknastöður utan höfuðborgarsvæðisins séu ekki að fullu mannaðar. Að því slepptu er ekki um að ræða að fólk sé án heimilislæknis í öðrum heilsugæsluumdæmum.