Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 457. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 727  —  457. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2007.

1.     Inngangur.
    Kosningaeftirlit og umræða um það var áberandi á árinu. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um aðferðafræði við kosningaeftirlit sem og forsvar, samvinnu og verkaskiptingu milli ÖSE- þingsins og lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODHIR) sem sér um kosningaeftirlit. Samkomulag var gert milli þeirra árið 1997 en þrátt fyrir það er togstreita enn til staðar. Það kom nokkuð berlega í ljós þegar lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE hætti við þátttöku sína í eftirliti með þingkosningunum í Rússlandi 2. desember. Ákvörðun ÖSE kom til vegna skilyrða sem rússnesk stjórnvöld settu og gerðu það að verkum að ÖSE taldi sig ekki geta framkvæmt eftirlit sitt með viðunandi hætti. Það var nokkuð gagnrýnt að ÖSE-þingið skyldi ekki gera slíkt hið sama og hætta við þátttöku sína. Í þessu sambandi er hins vegar vert að geta þess að í samræmi við hefðbundna verkaskiptingu á milli stofnananna þá sinnir lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE kosningaeftirliti til lengri tíma en ÖSE-þingið til skamms tíma, aðallega á kjördag. Skilyrði rússneskra stjórnvalda komu þannig ekki í veg fyrir þátttöku ÖSE-þingsins og annarra sem sinntu eftirliti til skamms tíma. Það átti við um sendinefndir frá Evrópuráðsþinginu og Norðurlandaráði sem tóku þátt í eftirlitinu ásamt ÖSE-þinginu og gáfu út sameiginlega yfirlýsingu að kosningum loknum.
    Annað sem setti svip sinn á starfsemi ÖSE-þingsins var viðleitni til að auka þátttöku þingmannasendinefnda frá löndum Mið-Asíu sem eru fimm talsins, þ.e. Kasakstan, Túrkmenistan, Úsbekistan, Kirgistan og Tadsjikistan. Á ársfundi ÖSE-þingsins í Kænugarði í júlí var haldinn sérstakur hliðarfundur um Mið-Asíu með þátttöku sendinefnda frá löndum Mið-Asíu auk sendinefndar frá Afganistan sem mætti í fyrsta sinn á fund ÖSE-þingsins með áheyrnaraðild. Mikill áhugi hefur verið á því í ÖSE-þinginu, einkum í röðum norrænna þingmanna, að ríki Mið-Asíu eigi aukið svæðisbundið samstarf sín á milli um sameiginleg hagsmunamál eins og orkumál og taki Norðurlandaráð sér til fyrirmyndar í því sambandi. Hinn 9. desember var fyrsta skrefið stigið í þá veru þegar málþing á vegum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs um svæðisbundna samvinnu á sviði orku- og umhverfismála var haldið með þátttöku norrænna þingmanna í landsdeildum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs ásamt þingmönnum landsdeilda Mið-Asíu til ÖSE-þingsins.
    Að lokum var Pétur H. Blöndal virkur í starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE. Í krafti embættis síns átti hann fund með ríkisendurskoðun Noregs sem sér um endurskoðun ársreikninga ÖSE, sótti fund vinnuhóps fastafulltrúa ÖSE um fjárlagatillögu fyrir árið 2008, átti fundi með formanni ráðherranefndar ÖSE og framkvæmdastjóra ÖSE, og heimsótti starfsstöð ÖSE í Albaníu.

2.     Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe) sem m.a. kvað á um að stofna skyldi formlegan vettvang fyrir þingmenn til að koma saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði en ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur enginn hefðbundinn stofnsáttmáli (e. charter) þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga þjóðþing 56 ríkja Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum og þar af á Alþingi þrjá. Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi ÖSE. Til að sinna hlutverki sínu eru á ársfundum þess rætt og ályktað um málefni ÖSE. Unnið er að undirbúningi ályktana í málefnanefndum þingsins og þær síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri til ráðherraráðs ÖSE (e. ministerial council), sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráðs ÖSE (e. permanent council) en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE sem funda vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE virkar þingið sem hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald. ÖSE ber þó hvorki skylda til að fylgja eftir ályktunum þingsins né svara fyrirspurnum þingmanna strangt til tekið. Þá tekur ÖSE-þingið þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi og hefur sú starfsemi aukist mjög að umfangi síðustu ár í samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE og aðrar fjölþjóðastofnanir.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í júlí í allt að fimm daga. Aðildarríkin taka að sér að halda ársfundi til skiptis. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherranefndar ÖSE (e. Chairman-in-office) þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
    Málefnanefndir ÖSE-þingsins eru þrjár, þ.e. nefnd um stjórn- og öryggismál (1. nefnd), um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Auk þeirra starfar stjórnarnefnd (e. Standing Committee) og framkvæmdastjórn (e. Bureau).
    Málefnanefndir þingsins koma saman á ársfundinum og á vetrarfundi sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert þar sem þingmenn fá tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE. Samhliða haustfundinum fer einnig fram árleg málefnaráðstefna ÖSE- þingsins.
    Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefni sem tekið er fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann og undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Auk þess getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa (e. special representative) og þingið aukanefndir til að kanna og taka afstöðu til aðkallandi mála og vera ráðgefandi um þau eins og stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi og jafnréttismál ÖSE svo dæmi séu tekin. Oftar en ekki hefur starf sérnefndanna og sérstöku fulltrúanna skilað miklum árangri við að upplýsa mál og kynna þau fyrir almenningi og fá deiluaðila að samningaborðinu.

3.     Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru í upphafi árs 2007 Pétur H. Blöndal formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sæunn Stefánsdóttir varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingar.
    Ný Íslandsdeild var kjörin 31. maí í upphafi 134. þings í kjölfar kosninga til Alþingis þann 12. maí. Aðalmenn Íslandsdeildar eru Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingar, Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Valgerður Sverrisdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingar, Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks. Á fundi Íslandsdeildar 4. júní var Einar Már Sigurðarson kosinn formaður og Pétur H. Blöndal varaformaður. Í upphafi árs var Arna Gerður Bang ritari nefndarinnar en Magnea Marinósdóttir tók við í lok júní.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2007 var þannig:

1.    Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal.
        Til vara: Björk Guðjónsdóttir.
2.    Nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál: Valgerður Sverrisdóttir.
        Til vara: Birkir J. Jónsson.
3.    Nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Einar Már Sigurðarson.
        Til vara: Lúðvík Bergvinsson.

4.     Lýðræðislegt eftirlit með fjármálum ÖSE.
    Pétur H. Blöndal, þáverandi formaður Íslandsdeildar, var skipaður sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins um fjárreiður ÖSE í september 2006. Á aukastjórnarfundi ÖSE-þingsins í nóvember á Möltu sama ár kynnti Pétur H. Blöndal starfsáætlun sína fyrir þingmönnum og framkvæmdastjóra ÖSE. Gerð er grein fyrir starfsáætluninni í ársskýrslu Íslandsdeildar ÖSE- þingsins frá árinu 2006.
    Alls átti Pétur sjö sérfundi og heimsóknir og skilaði af sér fjórum skýrslum á árinu. Fyrsta heimsókn Péturs í embætti var til ríkisendurskoðunar Noregs í Ósló 10. janúar. Ríkisendurskoðunin hefur borið ábyrgð á endurskoðun fyrir ÖSE síðan í mars 2006 og mun gera það fram til mars 2009. Hlutverk ríkisendurskoðunarinnar er að hafa eftirlit með fjárhag allra stofnana ÖSE og verkefna á vegum þeirra á tímabilinu. Það er m.a. framkvæmt með eftirlitsferðum sem farnar eru með skömmum fyrirvara til að taka út stöðuna hjá ÖSE í einstökum aðildarlöndum. Ríkisendurskoðunin skilar síðan stöðuskýrslu til höfuðstöðva ÖSE í Vín. Um er að ræða trúnaðarskýrslur sem öðrum en ÖSE og utanríkisráðherra viðkomandi aðildarríkis er meinaður aðgangur að.
    Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins 23. febrúar í Vín lagði Pétur fram skýrslu frá fundi sínum með ríkisendurskoðun Noregs. Niðurstaða skýrslunnar var sú að eftirlit ríkisendurskoðunar væri faglega gott. Hins vegar var það gagnrýnt að aðgangur að skýrslunum væri takmarkaður við ÖSE og utanríkisráðherra þess ríkis, sem eftirlitið lyti að. Sú takmörkun stæði í vegi þess að hægt væri að hafa lýðræðislegt eftirlit með því hvernig fjármunum til starfsemi ÖSE væri varið. Að lokum var bent á það að þrátt fyrir að eftirlit ríkisendurskoðunar væri faglega gott þá fæli það ekki í sér mat á árangri af starfi ÖSE með hliðsjón af markmiðum ÖSE eins og t.d. í baráttunni gegn mansali enda ekki hlutverk ríkisendurskoðunar. Það væri hins vegar eftirlit sem ÖSE-þingið gæti í meiri mæli sinnt.
    Daginn fyrir fund stjórnarnefndar 23. febrúar átti Pétur upplýsingafund með sendiherranum og framkvæmdastjóra ÖSE, Marc Perrin de Brichambaut. Þar fékk Pétur nánari upplýsingar um fjármál ÖSE og eftirlit með þeim auk eintaks af fjárlagatillögu ÖSE (e. Program Outline for the OSCE Budget) fyrir árið 2008.
    Fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Kænugarði, sem stóð frá 5.– 9. júlí, fór Pétur á fund vinnuhóps um fjárlagatillögu ÖSE fyrir árið 2008 með fastafulltrúum ÖSE í Vínarborg sem haldinn var 3. júlí og átti fund með formanni ráðherranefndar ÖSE, Carlos Sanchez de Boado y de la Vàlgoma, utanríkisráðherra Spánar.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Kænugarði lagði Pétur síðan fram skýrslu þar sem var að finna greiningu á því að hve miklu leyti fjárlagatillaga ÖSE fyrir árið 2008 kæmi heim og saman við ályktanir þingsins frá síðasta ársfundi. Í skýrslunni er lýst ánægju með það hversu mikils samræmis gætti þar á milli en einnig bent á hvað betur mætti fara og framfylgni við jafnréttisáætlun ÖSE frá árinu 2004 nefnd í því sambandi. Auk þess átti Pétur fund með framkvæmdastjóra ÖSE og með fastafulltrúa Finnlands en Finnar tóku við formennsku ÖSE af Spánverjum í lok árs. Á báðum fundunum kom fram skilningur á starfi Péturs og áhugi á því að ÖSE og ÖSE-þingið ynnu saman að því að efla fjárhag og starf ÖSE á vettvangi.
    Eftir ársfundinn hélt Pétur í heimsókn til starfsstöðvar ÖSE í Albaníu 9.–12. júlí. Tilgangur heimsóknarinnar var að fá innsýn inn í starf ÖSE á vettvangi og reyna að meta árangur þess upp að því marki sem eftirlit ríkisendurskoðunar Noregs með fjárhag stofnunarinnar nær ekki til, þ.e. hvort starfið væri að skila árangri í samræmi við sett markmið, hvernig samstarfi við heimamenn, aðrar stofnanir og félagasamtök væri háttað, og hversu vel fjármunir og kraftar starfsmanna væru nýttir. Útgangspunkur heimsóknarinnar voru aðgerðir ÖSE til að stemma stigu við mansali.
    Í skýrslu sem Pétur lagði fram á stjórnarnefndarfundi 30. september var helsta niðurstaðan sú að starfsemi á vegum ÖSE væri faglega mjög sterk sem og nýting fjármuna og mannauðs. Samhæfing milli mismunandi deilda gerði það að verkum að verkefni á vegum einnar deildar styddu við verkefni annarra deilda án þess að um tvíverknað væri að ræða. Sem dæmi benti hann á hvernig verkefni, sem miðar að því að setja upp skilvirkt manntalskerfi eða þjóðskrá styddi við það verkefni að uppræta mansal þar sem erfiðara væri að gera einstakling, sem er skráður með nafni og kennitölu í þjóðskrá, að fórnarlambi mansals heldur en einstakling sem hvergi er til samkvæmt opinberum skrám. Það ætti ekki síður við í þeim tilvikum sem fyrrum fórnarlömb mansals snúa aftur til síns heima. Samstarf við yfirvöld og félagasamtök væri einnig í góðum farvegi og samráð við aðrar alþjóðastofnanir til fyrirmyndar. Það sem var einna helst gagnrýnt var að stundum gætti misræmis á milli greiningar á vandamálum og lausnum. Sem dæmi var tekið það mat að þriðjungur af fórnarlömbum mansals væru sígaunar, sem flestir hafa litla sem enga menntun og því ólæsir. Á sama tíma væri upplýsingaflæði um mansal að mestu í formi ritmáls í stað myndmáls eða útvarpsefnis sem væri betri leið til að ná til þeirra sem eru ólæsir. Í beinu samhengi við þá gagnrýni var talið að skortur á kerfisbundnu mati á árangri af starfi ÖSE, t.d. í baráttunni gegn mansali, kæmi í veg fyrir að hægt væri að meta almennilega árangur af herferðum ÖSE gegn mansali meðal almennings og/eða hugsanlegra fórnarlamba. Einnig var það talið ámælisvert að ÖSE starfaði ekki með neinum félagasamtökum sígauna sjálfra. Sú gagnrýni var sett í samhengi við verklag ÖSE við val á félagasamtökum til að starfa með við framkvæmd ákveðinna verkefna. Það ferli væri ekki opið nema upp að vissu marki sem gæti gert það að verkum að faglega hæf samtök væri útilokuð frá því að fá samstarfssamning við ÖSE, sem aftur á móti gæti stuðlað að verri nýtingu fjármuna og ýtt undir spillingu eða ásakanir um spillingu sem gæti skaðað starfsemi og trúverðuleika ÖSE.
    Framkvæmdastjóri ÖSE þakkaði Pétri fyrir skýrsluna um leið og hann kynnti drög að fjárlagatillögu stofnunarinnar fyrir árið 2008. Í kynningu hans kom fram að eitt þeirra nýmæla, sem kæmi til framkvæmda árið 2008, væri að meta starf ÖSE ekki eingöngu út frá verkefnum og fjármunum heldur árangri (e. Performance Based Budget Proposal). Samhliða hinni nýju nálgun yrðu teknar upp árangursmælingar sem kæmu til framkvæmda á næsta ári.
Pétur þakkaði framkvæmdastjóranum fyrir kynninguna og fagnaði nýmælunum sem kæmu á móts við gagnrýni sem hann hefði sett fram í skýrslu sinni eftir fund sinn með ríkisendurskoðun Noregs um mikilvægi þess að meta ekki eingöngu hvernig fjármunum væri varið heldur hvort settum markmiðum væri náð með þeim verkefnum sem fjármunum væri veitt til. Að lokum lagði Pétur fram á stjórnarnefndarfundinum 30. september skýrslu af fundi vinnuhóps um fjárlagagerð ÖSE fyrir árið 2008 sem Pétur sótti með fastafulltrúum ÖSE í Vínarborg 3. júlí. Í skýrslunni er samstöðureglan við ákvarðanatöku (e. principle of consensus-minus-one) og eins árs tímarammi fjárlaga ÖSE gagnrýnt upp að því marki sem hvort um sig leiðir til stöðnunar eða kemur í veg fyrir heildstæða stefnumótun til langs tíma. Sú tillaga var gerð að kanna með lengri tímamörk ÖSE-verkefna á vettvangi allt frá 5 til 15 árum að gefnu samþykki viðkomandi samstarfsríkis. Með þeim hætti megi tryggja í meiri mæli en nú að tilteknum markmiðum sé náð að ákveðnum tíma liðnum. Samhliða var gerð tillaga um það að fjármagn til slíkra langtímaverkefna yrði tryggt.

5.     Kosningaeftirlit.
    Kosningaeftirlit og umræða um það var áberandi á árinu. Tveir þingmenn tóku þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins. Pétur H. Blöndal fór til Kasakstan þar sem þingkosningar fóru fram 18. ágúst og Valgerður Sverrisdóttir fór til Rússlands og tók þátt í eftirliti með kosningum 2. desember til neðri deildar þingsins, dúmunnar.
    Eitt mikilvægasta starf ÖSE er að hafa eftirlit með og aðstoða aðildarríkin við að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda og lýðræðis. ÖSE-þingið og lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODHIR) hafa átt samstarf um kosningaeftirlit síðan 1993. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um hvernig samvinnu og verkaskiptingu á milli þeirra skuli vera háttað. Hefur sá ágreiningur verið nokkuð fyrirferðarmikill í umræðum á fundum ÖSE-þingsins. Ágreininginn má að vissu leyti rekja til þess að um er að ræða tvær stofnanir sem hvor um sig gerir sterkt tilkall til þessa hlutverks enda vægi kosningaeftirlits mikið vegna þeirrar víðtæku landfræðilegu skírskotunar sem báðar stofnanir hafa í krafti aðildar 56 landa í Evrópu, Mið-Asíu og Norður-Ameríku að ÖSE, sem eru bæði rótgróin lýðræðisríki eða ríki á vegferð í átt að lýðræðislegu stjórnarfari. Frá upphafi hefur því ríkt nokkur samkeppni milli hinna tveggja stofnana um kosningaeftirlit. Samkomulag var gert á milli þeirra árið 1997 en þrátt fyrir það er togstreita enn til staðar. Hún kom nokkuð berlega í ljós þegar lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE hætti við að taka þátt í eftirliti með kosningunum í Rússlandi 2. desember vegna skilyrða sem rússnesk stjórnvöld settu og var frávik frá hinni almennu vinnureglu sem gildir samkvæmt Parísarsáttmálanum frá 1990 um skilyrðislaust boð ríkis til ÖSE um kosningaeftirlit. Olli það nokkrum titringi að ÖSE-þingið skyldi ekki að sama skapi hætta við þátttöku sína í eftirlitinu. Þess ber hins vegar að geta að í samræmi við hefðbundna verkaskiptingu á milli ÖSE og ÖSE-þingins kom ákvörðun lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE til vegna þeirra skilyrða sem rússnesk stjórnvöld settu og gerðu það að verkum að stofnunin gat ekki sinnt hefðbundnu eftirliti sínu til lengri tíma á meðan skilyrði stjórnvalda komu ekki í veg fyrir að ÖSE-þingið gæti sinnt hefðbundnu kosningaeftirliti sínu til skamms tíma, þ.e. á kjördag með allt að viku viðveru í landinu. Það sama gilti um sendinefndir frá Evrópuráðsþinginu og Norðurlandaráði sem tóku þátt í eftirlitinu ásamt ÖSE-þinginu og gáfu út sameiginlega yfirlýsingu að kosningum loknum.
    Á vegum ÖSE-þingsins fara sendinefndir þingmanna til kosningaeftirlits á kjördag en tíminn sem þeir eru í viðkomandi ríki er allt að ein vika eins og fyrr segir. Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE sendir tvenns konar teymi á vettvangi kosninga. Í fyrsta lagi hóp sérfræðinga sem sendur er á vettvang í allt að 2–3 mánuði til að gera úttekt á kosningalögum, kjörskrám, aðgengi stjórnmálaflokka að fjölmiðlum og fleiru sem lýtur að kosningum. Í öðru lagi hóp kosningaeftirlitsmanna sem ekki eru sérfræðingar en koma til eftirlitsstarfa allt að þremur vikum fyrir kosningar. Þingmenn þykja gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki við kosningaeftirlit á starfssvæði ÖSE þar sem þeir eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóða sinna og hafa sjálfir gengið í gegnum kosningar. Þrátt fyrir mikilvægi góðs samstarfs á sviði kosningaeftirlits hefur ágreiningur ríkt um það frá upphafi eins og fyrr segir og árið 2006 skipaði formaður ráðherraráðs ÖSE sérstakan fulltrúa sinn til þess að hafa eftirlit með samskiptum stofnananna við kosningaeftirlit.

6.     Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum árlega. Til ársfundar að sumri, og haust- og vetrarfundar. Nokkrar breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar ÖSE-þingsins vegna kosninga til Alþingis 12. maí sem komu nokkuð niður á þátttöku þingmanna í reglubundnu starfi ÖSE-þingsins á árinu. Sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, Pétur H. Blöndal, átti engu að síður sjö fundi og heimsóknir vegna embættis síns og skilaði fjórum skýrslum um starf sitt til forseta ÖSE-þingsins. Einnig tóku tveir nefndarmenn, Pétur H. Blöndal og Valgerður Sverrisdóttir, þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins og Valgerður flutti erindi á málþingi um svæðisbundið samstarf á sviði orku- og umhverfismála sem haldið var í Ósló 9. desember á vegum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs með þátttöku þingmanna frá öllum Norðurlöndunum og fjórum af fimm löndum Mið-Asíu.

Vetrarfundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 22.–23. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til funda í Vínarborg. Var þetta í sjötta sinn sem efnt var til svonefndra vetrarfunda ÖSE- þingsins eftir ákvörðun stjórnarnefndar þar að lútandi í febrúar árið 2001. Fundunum er aðallega ætlað að gefa fulltrúum ÖSE-þingsins, sem sæti eiga í málefnanefndum þingsins, færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE. Metþátttaka var á fundinum og sóttu hann 250 þingmenn frá 53 aðildarríkjum ÖSE, auk ýmissa samstarfsaðila. Af hálfu Íslandsdeildar sátu fundinn Pétur H. Blöndal formaður og Jóhanna Sigurðardóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Átök milli ÖSE-þingsins og lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODHIR) settu mark sitt á nær allar umræður vetrarfundarins. Hlutverk ÖSE-þingsins við kosningaeftirlit hefur valdið nokkrum ágreiningi undanfarin ár milli þess og ODHIR, sem er sú stofnun framkvæmdarvaldsins sem kemur að kosningaeftirliti. ODHIR hefur viljað takmarka þátt þingsins og gagnrýnt aðferðir þess við eftirlit. Stofnunin hefur að undanförnu ítrekað brotið gegn samstarfssamningi sínum og ÖSE-þingsins um samstarf við kosningaeftirlit að mati þingsins. Í viðleitni til þess að draga úr þessum ágreiningi var árið 2006 skipaður sérstakur eftirlitsmaður til þess að fylgjast með kosningaeftirliti beggja stofnana. Miklar umræður urðu um málið og var lögð rík áhersla á mikilvægi þess að sættir næðust þar sem deilan hefði skaðleg áhrif á trúverðugleika ÖSE-þingsins og ÖSE í heild sinni.
    Fund stjórnarnefndarinnar ávörpuðu Göran Lennmarker, forseti ÖSE-þingsins, Jerry Grafstein, gjaldkeri þess, og Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins. Lennmarker fór í upphafsorðum sínum yfir embættisverk sín undanfarna mánuði og lagði áherslu á að kosningaeftirlit væri einn mikilvægasti þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Hann fjallaði sérstaklega um starf ÖSE-þingsins við kosningaeftirlit í Serbíu í janúarmánuði þar sem hann stýrði eftirlitinu. Niðurstaða eftirlitsins var að kosningarnar hefðu farið heiðarlega fram og fagmannlega í alla staði. Í framhaldi af þeirri umræðu ræddi Lennmarker um mikilvægi þess að leysa deilu ÖSE-þingsins og ODHIR eins fljótt og auðið væri þar sem hún gagnaðist aðeins þeim ríkjum sem væru andsnúnar kosningaeftirliti og styrkti stöðu þeirra. Í máli sínu lagði hann áherslu á að skýra þyrfti hlutverk ÖSE-þingsins og ODHIR þannig að verkferlin lægju ljós fyrir.
    Í kjölfar tölu forsetans kynnti gjaldkeri þingsins skýrslu sína. Þar kom fram að ÖSE-þingið starfaði innan fjárhagsáætlunar árið 2006 líkt og undanfarin ár. Stefna gjaldkerans væri að ÖSE-þingið ætti í sjóðum fjármuni sem næmu árlegum starfskostnaði þess og hefur það gengið eftir undanfarin ár. Framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins fór því næst yfir starf skrifstofu þingsins og sagði að undirbúningur fyrir ársfund ÖSE-þingsins sem fór fram í Kænugarði í júlí hefði gengið mjög vel. Auk þess ræddi Oliver um mikilvægi þess að efla ásýnd ÖSE- þingsins í fjölmiðlum og kynna starfsemina betur fyrir umheiminum. Hann lagði áherslu á að fundin yrði lausn á deilu ÖSE-þingsins og ODHIR og í því sambandi ætti að hafa samstarfssamning sem gerður var á milli deiluaðila árið 1997 að leiðarljósi. Varðandi niðurstöður kosningaeftirlits lagði Oliver áherslu á tvö atriði. Í fyrsta lagi væri afar brýnt að þær niðurstöður sem birtar væru opinberlega væru skýrar og á skilmerkilegu máli sem ekki byðu upp á misskilning eða mistúlkun. Í öðru lagi mætti persónulegt mat eftirlitsaðila ekki undir neinum kringumstæðum hafa áhrif á niðurstöður þeirra. Hlutleysis yrði að vera gætt til hins ýtrasta og samræmis milli verkferla og niðurstaðna eftirlitsmanna ÖSE-þingsins og ODHIR.
    Síðasti liður á dagskrá stjórnarnefndarinnar voru umræður um skýrslur sérnefnda og sérstakra fulltrúa forseta ÖSE-þingsins. Vegna tímaskorts varð að sleppa framsögum við þennan lið en skýrslur um málin voru lagðar fram. Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildar, var skipaður sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins varðandi fjármál ÖSE í september 2006. Hann lagði fram skýrslu um málið til forseta ÖSE-þingsins og var henni dreift til fundargesta. Þar reifaði hann m.a. starf sitt fyrstu mánuðina og fór yfir niðurstöður fundar með ríkisendurskoðun í Ósló 10. janúar. Ríkisendurskoðun Noregs ber ábyrgð á endurskoðun fyrir ÖSE frá mars 2006 til þriggja ára. Markmið endurskoðunarinnar væri að kanna allar stofnanir og öll verkefni á vegum ÖSE-stofnunarinnar á árunum þremur. Starfsmenn norsku ríkisendurskoðunarinnar færu reglulega í eftirlitsferðir til aðildarríkjanna með stuttum fyrirvara til að taka út stöðu landanna. Í framhaldinu væri ÖSE eingöngu gefin skýrsla um stöðu mála og öðrum meinaður aðgangur að upplýsingunum, að utanríkisráðherra viðkomandi lands undanskildum ef viðkomandi óskaði eftir skýrslunni. Pétur gagnrýndi þetta verklag en taldi eftirlit Norðmanna að öðru leyti sterkt og gott þó að erfitt hafi reynst að mæla hluti eins og baráttuna gegn mansali, vopnasmygl og smygl fíkniefna eða aðgerðir til að stuðla að friði.
    Á næstu mánuðum kvaðst Pétur ætla að leggja áherslu á að kortleggja ákvarðanatökuferlið varðandi fjármál ÖSE-stofnunarinnar með það að markmiði að bæta aðkomu þingsins að því. Auk þess stefndi hann að því að auðvelda þinginu að fá heildarmynd yfir fjárhag ÖSE-stofnunarinnar og meta hvort fjármunum þeim sem veitt væri til hennar, væri varið í samræmi við markmið. Pétur hafði ítrekað óskað eftir fundi með Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóra ÖSE, en hann hafði verið tregur til að veita nánari upplýsingar um fjármál stofnunarinnar. Að morgni 22. febrúar var staðfestur fundur með Pétri og framkvæmdastjóranum þar sem fjármál ÖSE og eftirlit með þeim yrðu rædd. Fundurinn var upplýsandi og gagnlegur og áttu sér stað góðar umræður. Í lok fundarins afhenti Brichambaut Pétri fjárlagatillögu ÖSE fyrir árið 2008.
    Á sameiginlegum fundi allra málefnanefnda hélt Josep Borrell, sérlegur fulltrúi formanns ráðherraráðs ÖSE og utanríkisráðherra Spánar, framsöguerindi og svaraði spurningum fundarmanna. Borrell ræddi um aukið vægi ÖSE-þingsins og hvernig það styrkti starf ÖSE- stofnunarinnar með hvatningu og nýjum hugmyndum, auk hins þingræðislega stuðnings. Næst tóku til máls Barbara Prammer, þingforseti Austurríkis, og Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóri ÖSE. Brichambaut lagði í ræðu sinni áherslu á að kosningaeftirlit væri meginviðfangsefni ÖSE-stofnunarinnar og ÖSE-þingið gegndi þar lykihlutverki. Í framhaldinu urðu snarpar umræður um deilu ÖSE-þingsins og ODHIR þar sem þung áhersla var lögð á að lausn yrði fundin hið snarasta. Tilkynnt var að ársfundur ÖSE-þingsins árið 2008 yrði haldinn í Kasakstan. Þá lýsti Kassym-Jomart Tokayev, forseti öldungadeildar þingsins í Kasakstan, því yfir að hann vonaðist til að Kasakstan tæki við formennsku í ÖSE árið 2009.
    Allar þrjár málefnanefndir ÖSE-þingsins héldu fundi í tengslum við vetrarfundinn. Á fundum nefndanna þriggja var rætt um þau málefni sem tekin verða fyrir á ársfundi þingsins í júlí. Á fundi 1. nefndar um stjórn- og öryggismál ræddi Hans Raidel, varaformaður nefndarinnar, um mikilvægi þess að alþjóðastofnanir ynnu saman og kynnu skil á verkefnum hverrar annarrar með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir tvíverknað og skörun. Slíkt hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu og hefur skapað neikvæða umræðu í kringum stofnanirnar og mikilvægi þeirra. Kristian Phil Lorentzen skýrsluhöfundur kynnti meginviðfangsefni skýrslu sinnar um öryggi í orkumálum og þróun lýðræðis í Hvíta-Rússlandi. Í 2. nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál var aðallega fjallað um orkuöryggi og mikilvægi endurnýtanlegra orkuauðlinda. Einnig var rætt um málefni innflytjenda m.a. út frá áhrifum á þróun samfélaga, bæði félagslega og efnahagslega. Fund 3. nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál ávörpuðu þeir Christian Stohal, sendiherra og forstöðumaður ODIHR-stofnunarinnar, og Miklos Haraszti, fulltrúi ÖSE á sviði eftirlits með frelsi fjölmiðla (RFOM). Auk þess ræddi Jesús López-Medel um hugmyndir að skýrslu sinni sem birt verður á ársfundinum í Kænugarði.

Ársfundur ÖSE þingsins.
    Dagana 5.–9. júlí 2007 fór 16. ársfundur ÖSE-þingsins fram í Kænugarði í Úkraínu. Til hliðar við dagskrá ársfundarins var sérstakur fundur um málefni Mið-Asíu. Af hálfu Íslandsdeildar sat fundinn Pétur H. Blöndal varaformaður auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Ársfundurinn hófst formlega með fundi stjórnarnefndar. Göran Lennmarker, forseti ÖSE- þingsins, Spencer Oliver framkvæmdastjóri og Jerry Grafstein, fráfarandi gjaldkeri, lögðu fram skýrslur og ávörpuðu fundinn. Einnig gerðu sérlegir fulltrúar ÖSE-þingsins grein fyrir starfi sínu. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins um fjárreiður ÖSE, lagði fram skýrslu. Í skýrslunni var að finna greiningu á því að hve miklu leyti fjárlagatillaga ÖSE (e. Program Outline for the OSCE Budget) fyrir árið 2008 kæmi heim og saman við ályktanir þingsins frá síðasta ársfundi. Lýsti Pétur ánægju sinni með það hversu mikils samræmis gætti þar á milli almennt en benti einnig á það sem betur mætti fara eins og að fylgja jafnréttisáætlun ÖSE frá árinu 2004 betur eftir. Pétur gerði einnig grein fyrir starfi sínu fram til þessa og fyrirhugaðri heimsókn til vettvangsskrifstofu ÖSE í Albaníu en markmið heimsóknarinnar væri að kynna sér frá fyrstu hendi starfsemi og rekstur á vegum ÖSE. Að lokum lagði Pétur H. Blöndal fjórar spurningar varðandi fjármál ÖSE fyrir Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóra ÖSE, í umræðum á þinginu og átti síðar sérstakan fund með framkvæmdastjóranum og fastafulltrúa Finnlands en Finnar taka næst við formennsku eftir Spánverjum.
    Í máli forseta þingsins bar hæst heimsókn hans og Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar og formennskuríkis ÖSE (e. Chairman-in-Office), til Armeníu og Aserbaídsjan. ÖSE hefur leitt friðarviðræður milli ríkjanna tveggja í deilum þeirra um svæðið Nagorno-Karabakh síðan 1992 undir merkjum Minsk-hópsins svonefnda. Forsetinn, sem hefur tekið þátt í starfi hópsins undanfarin fjögur ár, var bjartsýnn á að lausn á þeim átökum væri í sjónmáli. Kom fram í máli hans að mikið starf væri óunnið við að leysa „frosin átök“ og taldi heimsóknina vera dæmi um gott samstarf á milli ÖSE-þingsins og ÖSE-stofnunarinnar í þeim efnum. Lofaði forsetinn einnig þá vinnu sem fer fram í þinginu og á vettvangsskrifstofum ÖSE, sem hann sagði vera kjarnann í starfi ÖSE auk kosningaeftirlitsins, sem fer fram á vegum ÖSE-þingsins annars vegar og lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODHIR) hins vegar. Mikil togstreita hefur ríkt undanfarin ár milli þessara tveggja stofnana. Kom sú togstreita til umræðu í þinginu þegar ályktun um hlutverk og stöðu ÖSE-þingsins fór fram. Var m.a. spurt út í það fyrirkomulag sem Spánn hefur viðhaft í formennskutíð sinni hjá ÖSE- stofnuninni, þ.e. að senda sérlegan fulltrúa formennskuríkis á vettvang kosninga til eftirlits með kosningaeftirliti stofnananna. Í svari Migual Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, kom fram að sérlegur fulltrúi formennskuríkis ÖSE þjónaði því hlutverki að vera nokkurs konar tengiliður milli ÖSE-þingsins og ODHIR vegna samstarfsörðugleikanna milli þeirra. Mikil umræða varð um málið og m.a. talað um nauðsyn þess að virða samkomulagið frá 1997 um samstarf þessara stofnana eða gera nýtt þar sem hlutverk hvors um sig væri vel skilgreint. Mikilvægt væri að hafa í huga að báðar stofnanirnar væru greinar af sama meiði og ósamkomulagið á milli þeirra skaðaði trúverðugleika ÖSE sem heildar. Í sambandi við umræðu um trúverðugleika stofnunarinnar lagði jafnréttisfulltrúi ÖSE-þingsins, Tone Tingsgaard, áherslu á fjölgun kvenna við kosningaeftirlit til samræmis við markmið ÖSE.
    Þróun mála í austri, ekki síst í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, á Kákasus-svæðinu og í löndum Mið-Asíu, er talin vera mjög mikilvæg. Sú ákvörðun að óska eftir því að halda ársfundinn í Kænugarði var ekki síst tilkomin af því og þakkaði forseti ÖSE-þingsins þeim Viktor Júsjenkó, forseta Úkraínu, og Oleksandr Moroz, forseta úkraínska þingsins, sérstaklega. Í ávörpum þeirra endurspeglaðist stjórnmálakreppan sem hefur ríkt í landinu síðan forseti landsins leysti upp þingið 2. apríl þar sem þeir vörpuðu ábyrgðinni á kreppunni hvor á annan. Vonast var til að boðaðar þingkosningar 30. september yrðu til þess að finna lausn á stjórnmálavanda landsins svo að það gæti haldið áfram lýðræðislegri vegferð sinni.
    Ársfundurinn afgreiddi alls 11 skýrslur og ályktanir sem málefnanefndir þingsins höfðu unnið. Var einhugur um öll mál í meginatriðum að undanskilinni skýrslu fyrstu nefndar um stjórn- og öryggismál. Skýrslan, sem var í tveimur hlutum, fjallaði annars vegar um orkuöryggi og hins vegar um Hvíta-Rússland. Varð umræða um stöðu Hvíta-Rússlands fyrirferðarmikil á þinginu þar sem sendinefnd Hvíta-Rússlands með stuðningi m.a. frá Aserbaídsjan, Bosníu–Hersegóvínu og Rússlandi mótmælti því eindregið að eitt ríki væri tekið fyrir með þeim hætti sem þarna væri gert og vildi að sá hluti skýrslunnar yrði tekinn út. Var skýrslan samþykkt í heild í þinginu þrátt fyrir andmælin.
    Sérstakur fundur var haldinn um Mið-Asíu til hliðar við ársfundinn. Fundurinn var settur af sérlegum fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum Mið-Asíu, finnska þingmanninum Kimmo Kiljunen sem hefur sinnt stöðunni síðan í maí með þrennt að markmiði. Í fyrsta lagi að vinna að því að auka þátttöku þingmanna frá Mið-Asíu í starfi ÖSE-þingsins en ríki Mið-Asíu eru Kasakstan, Túrkmenistan, Úsbekistan, Kirgistan og Tadsjikistan. Í öðru lagi að auka svæðisbundna samvinnu á milli þjóðþinga í Mið-Asíu. Að lokum að auka samstarf þeirra við þjóðþing annarra ÖSE-ríkja, sér í lagi þjóðþing Norðurlandanna. Auk Kimmo Kiljunen fluttu ávörp á fundinum þeir Göran Lennmark, forseti ÖSE-þingsins, og Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóri ÖSE, formenn landsnefnda Kasakstan, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Afganistan, og sendiherrar ÖSE í Kasakstan og Túrkmenistan. Formenn sendinefndanna og sendiherrar ÖSE gerðu grein fyrir stöðu efnahags- og stjórnmála í viðkomandi ríki en svæðið sem heild er ríkt af náttúruauðlindum, einkum olíu og gasi, auk vatns. Meðal þess sem lagt var til á fundinum var í fyrsta lagi að ríki Mið-Asíu hefðu með sér aukna samvinnu um sameiginleg hagsmunamál eins og orkumál. Skref í þá átt væri að auka samskipti á milli þjóðþinga Mið-Asíu, Afganistan þar með talið. Var Norðurlandaráð nefnt sem fyrirmynd í því sambandi. Í öðru lagi mætti auka hæfni þinganna til að sinna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu. Í því sambandi gerði Kimmo Kiljuna það að tillögu sinni að koma á bæði marg- og tvíhliða samstarfi á milli þjóðþinga í Mið-Asíu og á Norðurlöndunum í formi heimsókna, funda og námskeiða. Markmiðið væri að miðla þekkingu og reynslu og þar með aðstoða ríki Mið-Asíu við að styrkja löggjafarvaldið. Stefna ætti að því að halda sérstakan fund næsta haust um slíkt svæðisbundið þingmannasamstarf. Í þriðja lagi var rætt um að halda fundi og atburði á vegum ÖSE og ÖSE-þingsins í auknum mæli í löndum Mið-Asíu. Þegar væri búið að ákveða að halda næsta ársfund ÖSE-þingsins í Kasakstan og verið væri að kanna forsendur þess að Kasakstan taki við formennsku ÖSE árið 2009. Þingkosningar fóru fram í landinu 18. ágúst og sendi ÖSE-þingið sendiefnd, sem m.a. Pétur H. Blöndal var í, til að taka þátt í kosningaeftirliti. Sendinefndirnar frá ríkjum Mið-Asíu tóku allar mjög vel í hugmyndina um aukið samstarf við Norðurlöndin og kom fram á fundinum að löggjafarþing Svíþjóðar hafði þegar boðið þingmannasendinefnd frá Túrkmenistan í heimsókn.
    Sendinefnd frá Afganistan var í fyrsta sinn stödd á ársfundi ÖSE-þingsins. Í máli formanns sendinefndarinnar kom fram sterkt ákall um að veita stjórnvöldum í Afganistan áframhaldandi stuðning við að tryggja öryggi í landinu þar sem öryggi væri forsenda alls annars, efnahagslegra framfara og stjórnmálalegs stöðugleika. Sú spurning vaknaði hvaða hlutverk ÖSE gæti tekið að sér í Afganistan. ODHIR studdi við kosningar í landinu fyrir um tveimur árum en annað starf hefur ekki farið fram á vegum ÖSE í landinu. Framkvæmdastjóri ÖSE sagði frá því að hann hefði nýverið verið á ferð í Afganistan til að kynna sér aðstæður og í máli utanríkisráðherra formennskuríkis ÖSE á þinginu kom fram að ÖSE væri að íhuga að leggja meira af mörkum í Afganistan. Liður í því væri að skilgreina hlutverk fyrir nágrannaríki þess í Mið-Asíu.

Stjórnarnefndarfundur og málefnaráðstefna ÖSE-þingsins 30. september.
    Stjórnarnefndin fundaði 30. september í Portoroz í Slóveníu. Fundinn sótti fyrir hönd Íslandsdeildar Pétur H. Blöndal varaformaður, ásamt Magneu Marinósdóttir ritara.
    Forseti ÖSE-þingsins, Göran Lennmarker, setti fundinn og formaður landsdeildar Slóveníu til ÖSE-þingsins bauð fundarmenn velkomna. Fyrsta mál á dagskrá var að fara yfir helstu niðurstöðu málþings sem haldið var dagana 29.–30. september um forsendur stöðugleika og öryggis í Suðaustur-Evrópu. Tilefni málþingsins var að gildistími stöðugleikasáttmála Suðaustur-Evrópu (e. Stability Pact for South Eastern Europe) rann út í lok árs 2007 og við tók svæðisbundna samstarfsráðið (e. Regional Cooperation Council). Það er samvinnuáætlun sem ráðamenn í Suðaustur-Evrópu hafa unnið að mestu sjálfir öfugt við stöðugleikasáttmálann sem unninn var af alþjóðasamfélaginu til að skapa forsendur friðar í lok átakanna á Balkanskaga.
    Fjöldi fyrirlesara hélt erindi á málþinginu undir þremur liðum, þ.e. valddreifingu, menntun og svæðisbundinni samvinnu um orkumál. Í umræðunni um valddreifingu var rætt um mikilvægi þess að auka valddreifingu og styrkja sveitarstjórnarstigið og þar með færa ákvarðanatöku nær þegnunum og mæta betur þörfum mismunandi hópa í Suðaustur-Evrópu. Í umræðunni um menntun kom hins vegar fram annars konar sjónarmið. Aida Premilovac, hjá vettvangsskrifstofu ÖSE í Bosníu–Hersegóvínu, varaði við því í erindi sínu að eftirláta stefnumótun á sviði menntamála einstökum sveitarfélögum í stað ríkisins. Hélt hún því fram að valddreifing á sviði menntamála þar í landi væri þvert á móti ógn við öryggi og stöðugleika til langs tíma. Skólar væru einsleitir þar sem börn sem tilheyra mismunandi þjóðernishópum, þ.e. Bosníumenn, Króatar og Serbar, sæktu ekki sama skóla eða sæktu sama skóla undir kjörorðinu „tveir skólar undir sama þaki“, þ.e. börn sem tilheyra tveimur þjóðernishópnum væru í skóla í sömu byggingunni en notuðu ekki sama innganginn, fengju mismunandi kennslu, kennara og þar fram eftir götunum. Börn mynduðu þar af leiðandi ekki þjóðernislega samkennd hvert með öðru heldur aðgreindu sig frá hvert öðru. Þetta hafi komið hvað best í ljós þegar flóttamenn hófu að snúa aftur til síns heima. Enn fremur væri námsefni á þjóðernislegum nótum þar sem saga „hinna“ væri ekki sögð. Slíkt námsefni félli ekki að framtíðarsýn um frið og sátt milli mismunandi þjóðernishópa. Tilraunir hefðu verið gerðar til þess að útbúa námsefni með áherslu á mannréttindi sem hefði það að markmiði að auka þekkingu og skilning eins þjóðernishóps á t.d. trúarbrögðum og sögu annarra hópa og stuðla þar með að umburðarlyndi og friði. Hins vegar hafi verið erfitt að útbúa og kenna það námsefni vegna skorts á miðstýringu þar sem framboð á námsefni væri á hendi hvers sveitarfélags frekar en ríkisins. Í sveitarfélögunum væru mismunandi þjóðernishópar í meiri hluta, sem hver um sig hefur mest um það að segja hvers konar námsefni væri á boðstólum í skólum. Í raun væru því 14 menntamálaráðuneyti í landinu í stað eins. Þetta fyrirkomulag viðhéldi aðgreiningu á milli hópa og væri dæmi um neikvæðar afleiðingar valddreifingar á sviði menntunar þar sem ekki væri verið að byggja upp eina þjóð heldur margar innan landamæra sama ríkis.
    Í umfjöllun um orkuöryggi var rætt um mikilvægi sameiginlegs orkumarkaðaðar fyrir rafmagn og gas (e. South-East European Regional Energy Market) á grundvelli sáttmála (e. Energy Community Treaty) frá 25. október 2005 sem tengir innri markað Evrópusambandsins við markaði í löndum Suðaustur-Evrópu, Grikklandi og Tyrklandi. Gert væri ráð fyrir að Úkraína, sem hefur aukaaðild að sáttmálanum, og Noregur gerðust aðilar að sáttmálanum. Aðild að samningum gerir það að verkum að ríki aðstoða hvert annað við að mæta orkuþörf ef truflun verður á framleiðslu og/eða framboði á markaði. Samningurinn þjónar sem slíkur mikilvægu hlutverki við að tryggja orkuöryggi.
    Eftir umræðu um niðurstöður málþingsins gerði gjaldkeri ÖSE-þingsins, Hans Raidel, grein fyrir fjármálastöðu ÖSE-þingsins. Fjárhagur þingsins stendur vel og er með því besta sem gerist hjá alþjóðastofnunum, allt væri innan ramma fjárlaga og árgjöld til þingsins að fullu greidd með tveimur undantekningum.
    Framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, Spencer Oliver, tók næstur til máls. Hann gerði grein fyrir fundi sínum og forseta ÖSE-þingsins með formanni ráðherranefndar ÖSE, Miguel Angel Moratinos, um samstarf um kosningaeftirlit en um það hefur ríkt nokkur ágreiningur. Framkvæmdastjórinn lagði fram skýrslu um kosningaeftirlit í Kasakstan og aðra starfsemi þingsins, þar með talda starfsemina fram undan.
    Sérlegir fulltrúar ÖSE-þingsins og starf þeirra var rætt á fundinum. Greindi framkvæmdastjórinn frá því að Anne Marie Lizin, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins í málefnum Guantánamo og forseti efri deildar þjóðþings Belgíu, væri fyrsti þingmaðurinn frá Evrópu sem hefði hlotið leyfi til að kynna sér aðstæður í Guantánamo-fangelsinu þar sem meintir hryðjuverkamenn eru í haldi bandarískra stjórnvalda. Sú staðreynd bæri vitni um mikilvægt starf þingmanna ÖSE-þingsins. Einnig var tilkynnt um ákvörðun forseta ÖSE-þingsins frá því í september um útnefningu tveggja sérlegra fulltrúa, þ.e. bandarísku öldungadeildarþingkonunnar Hilda Solis til að taka alþjóðlega fólksflutninga til skoðunar og ítalska þingmannsins Carlo Vizzini til að fjalla um baráttuna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins um fjárreiður ÖSE, lagði fram skýrslu um fund sinn 3. júlí í Vín með vinnuhóp fastafulltrúa ÖSE um fjárlagatillögu ÖSE og heimsókn sína til vettvangsskrifstofu ÖSE í Albaníu 9.–12. júlí.
    Finnski þingmaðurinn Kimmo Kiljunen, sérlegur fulltrúi um Mið-Asíu, greindi frá málþingi um orku- og umhverfismál með þingmönnum frá Mið-Asíu og Norðurlöndunum, þ.e. landsdeildum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs, auk sendiherra ÖSE í löndum Mið-Asíu sem haldið var 9. desember í Ósló. Málþingið var fyrsta skrefið í því að auka samvinnu milli þjóðþinga í Mið-Asíu sem sækti fyrirmynd sína til svæðisbundins samstarfs Norðurlandanna í Norðurlandaráði.
    Framkvæmdastjóri ÖSE-stofnunarinnar, Marc Perrin de Brichambaut, tók næstur til máls og gerði grein fyrir fjárlagatillögu ÖSE fyrir árið 2008, sem lá fyrir að samþykkja 21. desember. Hann skýrði frá nýrri nálgun stofnunarinnar við fjárhagsáætlunargerð sem kennd er við árangursmiðaða nálgun. Samhliða hinni nýju nálgun yrðu teknar upp árangursmælingar sem kæmu til framkvæmda árið 2008. Framkvæmdastjórinn gerði grein fyrir því hvernig fjárlagagerð stofnunarinnar gengi fyrir sig og hvernig fjármunum væri varið. Kom fram í máli hans að 22% hefðu farið í rekstur skrifstofu ÖSE á síðasta ári, 67% til starfsemi á vettvangi og 11% til stofnana ÖSE. Landfræðilega hefðu fjármunir sem fóru til starfsemi á vettvangi farið að 5% hluta til Austur-Evrópu, 65% til Suðaustur-Evrópu, 14% til Mið-Asíu og 16% til Kákasus-svæðisins. Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að þörf væri á stuðningi þingmanna til að tryggja fjármagn frá þjóðþingum til starfsemi ÖSE en undanfarið hefði þurft að grípa til um 10–15% niðurskurðar á sumum sviðum vegna fjárskorts, sem þrengdi verulega að starfseminni. Framkvæmdastjórinn var spurður á móti hvort hann mundi beita sér fyrir því að vernda hagsmuni ÖSE-þingsins sem þykir ekki ætíð njóta sannmælis af hálfu ÖSE og bent á togstreituna um kosningaeftirlit og áherslur ÖSE í sambandi við gerð stofnskrá (e. convention) fyrir ÖSE. Framkvæmdastjórinn vildi lítið tjá sig um málið.
    Í kjölfar ræðu framkvæmdastjóra ÖSE gafst þingmönnum tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar á fjárlagatillögu fyrir árið 2008 og leggja spurningar fyrir framkvæmdastjórann. Pétur H. Blöndal þakkaði framkvæmdastjóranum fyrir kynninguna og vísaði í skýrslu sína um fund sinn með vinnuhóp um fjárlög ÖSE 3. júlí í Vín til að árétta skoðun þingsins.
    Að lokum staðfesti stjórnarnefndarfundur útnefningu nýs aðstoðarframkvæmastjóra þingsins frá og með 1. janúar 2008. Vitaly Evsseyev frá Rússlandi, sem hafði gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra sl. 14 ár, lét af störfum og við tók Gustavo Pallarés frá Spáni, fyrrum verkefnastjóri og ráðgjafi forseta ÖSE-þingsins um 12 ára skeið.

Málþing um svæðisbundið samstarf á sviði orku- og umhverfismála með þátttöku þingmanna frá Norðurlöndunum og löndum Mið-Asíu 9. desember í Ósló.
    Málþing um svæðisbundið samstarf á sviði orku- og umhverfismála var haldið í Ósló 9. desember á vegum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs með þátttöku þingmanna frá Norðurlöndunum og löndum Mið-Asíu. Fyrir hönd Íslandsdeilda ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs sóttu fundinn Valgerður Sverrisdóttir og Árni Páll Árnason, formaður Íslandseildar Norðurlandaráðs. Valgerður flutti framsögu á fundinum um reynslu Íslands af nýtingu vatnsorku og jarðvarma, mikilvægi þess að vega og meta kosti út frá hagkvæmnis-, umhverfis- og verndunarsjónarmiðum, og að nýta náttúruauðlindir í þágu almannahags í samræmi við áherslu norræna velferðarmódelsins um samþættingu markaðshagkerfis og félagshyggju sem lið í því að undirbyggja stjórnmálalegan stöðugleika og þar með hagsæld og velferð til frambúðar.

Alþingi, 19. febr. 2008.



Einar Már Sigurðarson,


form.


Pétur H. Blöndal.


varaform.

Valgerður Sverrisdóttir.





Fylgiskjal.


Ályktanir og skýrslur ÖSE-þingsins árið 2007.


    Eftirfarandi ályktanir og skýrslur voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2007:
          Ályktun um hlutverk og stöðu ÖSE-þingsins gagnvart ÖSE.
          Ályktun um lausn átaka innan ÖSE-svæðisins.
          Ályktun um konur og öryggi.
          Ályktun um bann við klasasprengjum.
          Ályktun um ólöglegan flutning smávopna og skotfæra með flugförum.
          Ályktun um öryggisstefnu í umhverfismálum.
          Ályktun um aukið viðskiptafrelsi beggja vegna Atlantsála.
          Ályktun um aukið samstarf ÖSE við mannréttindafrömuði og mannréttindastofnanir.
          Ályktun um að styrkja aðgerðir gegn mansali í aðildarlöndum ÖSE.
          Ályktun um baráttu gegn gyðingahatri, kynþáttahatri, og annars konar andúð og fordómum, þar með talið gegn múslimum og sígaunum.
          Skýrsla stjórn- og öryggismálanefndar um orkuöryggi og stöðu mála í Hvíta-Rússlandi
          Skýrsla nefndar um efnahagsmál, tækni, vísindi og umhverfismál.
          Skýrsla nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál um lýðræði sem siðferðilega skuldbindingu, frelsi í stjórnmálum, lýðræðislegar kosningar og kosningaeftirlit, borgaralega þátttöku, gegnsæi og baráttuna gegn spillingu, alþjóðlega fólksflutninga, verndun minnihlutahópa og trúarbragðafrelsis og um þróunarsamvinnu.