Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 399. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 736  —  399. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Guðbjarts Hannessonar um landupplýsingar.

     1.      Er til yfirlit yfir stafræn kort og aðrar landupplýsingar, svo sem loftmyndir og gervitunglamyndir, í eigu ríkisins og sveitarfélaga?
    Landmælingar Íslands hafa um nokkurra ára skeið í samvinnu við LÍSA, samtök um landupplýsingar á Íslandi, rekið lýsigagnavefinn Landlýsingu (http://landlysing.lmi.is/). Þar er hægt að nálgast upplýsingar um margvísleg gagnasöfn á sviði landupplýsinga frá um 25 opinberum aðilum. Lýsigagnavefurinn er þó langt frá því að vera tæmandi enda er opinberum aðilum ekki skylt að skrá gagnasöfn sín þar og oft eru slíkir aðilar mjög tregir til að skrá gögnin. Mörg dæmi eru um að upplýsingum um loftmynda- og kortaeign sveitarfélaga sé mjög ábótavant og erfitt er að fá aðgang að gögnum sem þessir opinberu aðilar hafa þegar fest kaup á.
    Í lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, segir að Landmælingar Íslands skuli sjá um skráningu og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi. Stofnunin vinnur nú að undirbúningi þess verkefnis og er sérstaklega horft til INSPIRE- tilskipunar 1 Evrópusambandsins þar sem mikil áhersla er lögð á skráningu upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn og aðgengi að þeim. Það er mat Landmælinga Íslands og ráðuneytisins að hagkvæmt sé að vinna samkvæmt evrópskum lögum og reglum á þessu sviði.
    Líklegt er að gera þurfi breytingar á lögum til að tryggja að upplýsingar frá stofnunum og sveitarfélögum verði komið á framfæri við skráningaraðila og að gögnin verði gerð aðgengileg sem flestum sem á þurfa að halda, ekki síst öðrum opinberum stofnunum og sveitarfélögum.

     2.      Hverjir sjá um kaup á slíkum gögnum fyrir ríkið og sveitarfélögin?
    Einstakar stofnanir og sveitarfélög sjá oftast sjálf um innkaup á landfræðilegum upplýsingum en því miður eru slík verkefni sjaldan boðin út á vegum opinberra aðila t.d. með milligöngu Ríkiskaupa þar sem horft er til lengri tíma og hugað að sameiginlegum hagsmunum.
    Landmælingar Íslands hafa á undanförnum árum haft forustu um innkaup á gervitunglamyndum í samstarfi við fleiri stofnanir og sveitarfélög og hefur sá háttur sparað háar fjárhæðir. Sú góða reynsla er mikil hvatning til þess að opinberar stofnanir taki upp slík vinnubrögð og sameinist um kaup á landfræðilegum gögnum sem nýtast mörgum. Reynsla Ríkiskaupa af gerð rammasamninga er einnig mikilvæg fyrirmynd í þessu sambandi.
    INSPIRE-tilskipunin er einnig hvatning til þess að opinberir aðilar samnýti gögn og sjái til þess að notkunarheimildir gagna séu fyrir allt opinbera kerfið. Landmælingar Íslands eru stofnun sem getur haft forustu á þessu sviði en það krefst góðs vilja og samstarfs milli stofnana.
    Að öllum líkindum þarf að gera lagabreytingar til að tryggja hámarkshagkvæmni í innkaupum landfræðilegra gagna og til þess að tryggja að við innkaup sé litið á þarfir opinberra aðila í heild og að lágmarksstöðlum og gæðakröfum sé fylgt.

     3.      Hverjar eru þarfir opinberra aðila á þessu sviði og er til skýr stefnumörkun um þau mál?
    Ljóst er að þarfir opinberra aðila fyrir góð landfræðileg gögn munu aukast hratt á næstu árum, sérstaklega á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Íslensk stjórnvöld hafa miklar skyldur við að vakta og kortleggja náttúru Íslands og umhverfið og því er mikilvægt að reglulega sé aflað upplýsinga sem nýtast sem flestum. Slík gagnaöflun er í eðli sínu dýr og því mjög mikilvægt að fylgt sé ákveðinni stefnu til langs tíma. Dæmi um gagnaöflun er reglubundin loftmyndataka af Íslandi og öflun grunnkorta fyrir skráningu lóða, landa og annarra fasteigna.
    Íslenska ríkið og sveitarfélög á Íslandi þurfa að móta heildarstefnu í þessum málaflokki til að nýta betur opinbert fé og koma í veg fyrir tvíverknað. Með væntanlegri innleiðingu INSPIRE-tilskipunarinnar á Íslandi er þörf á yfirsýn yfir málaflokkinn með skýrri stefnumótun. Einnig er krafa um að komið sé á skýrri grunngerð landupplýsinga þar sem hlutverk og verkefni opinberra aðila eru vel skilgreind, en á ensku er slíkt kallað National Spatial Data Infrastructure (NSDI).

     4.      Hversu miklir fjármunir fara til innkaupanna?
    Ekki er til yfirlit um hve miklum fjármunum er varið til innkaupa á landfræðilegum gögnum hér á landi enda eru slík innkaup á vegum margra ráðuneyta og sveitarfélaga. Því er ljóst að til að svara þessari spurningu þarf að gera talsvert viðamikla úttekt. Líklegt er að opinberar stofnanir og sveitarfélög séu árlega að nota nokkur hundruð milljónir af opinberu fé í þessi gögn og notkun þeirra. Ljóst er að með aukinni samvinnu við opinbera aðila væri hægt að nýta betur þá fjármuni sem nú eru notaðir til kaupa á gögnum. Einnig er ljóst að til þess að komast jafnfætis t.d. öðrum Norðurlöndum á þessu sviði þarf að auka fjárveitingar í málaflokkinn.

     5.      Væri hugsanlegt að líta til nágrannaríkja eins og Noregs með það að leiðarljósi að breyta núverandi fyrirkomulagi og samræma innkaup og notkun opinberra aðila á landupplýsingum?
    Norðmenn eru meðal fremstu ríkja heims í innkaupum og notkun landfræðilegra upplýsinga en þar í landi hefur korta- og fasteignastofnunin Statens Kartverk leitt uppbyggingu á þessu sviði með verkefni sem nefnist Norge Digitalt. Undir forustu Statens Kartverk hefur í nokkur ár verið starfrækt nokkurs konar samlag opinberra aðila á þessu sviði vegna sameiginlegrar fjármögnunar, innkaupa og samnýtingar. Þetta fyrirkomulag Norðmanna hefur vakið mikla athygli og er INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins meðal annars byggð á mjög svipaðri hugmyndafræði. Dæmi um verkefni sem unnin eru með þessum hætti er reglubundin loftmyndataka af öllum Noregi úr flugvélum.
    Vinnuaðferðir Norðmanna á þessu sviði eru til fyrirmyndar og eru Landmælingar Íslands í góðu samstarfi við Statens Kartverk um þessi mál. Sameiginleg innkaup á gervitunglamyndum af Íslandi er fyrsta skrefið sem stigið hefur verið í þessa átt hér á landi en reynsla af því verkefni er mjög góð. Því er ljóst að Íslendingar geta lært mikið af því að taka Norðurlandaþjóðirnar sér til fyrirmyndar.
Neðanmálsgrein: 1
1     Þann 15. maí síðastliðinn tók gildi í Evrópusambandinu ný tilskipun um notkun og miðlun landupplýsinga sem nefnist INSPIRE. Tilskipunin mun væntanlega verða tekin upp hér á landi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Landmælingar Íslands, ásamt fulltrúum umhverfisráðuneytisins, hafa undanfarin missiri kynnt og metið þessa tilskipun. Ljóst er að með því að fylgja hugmyndafræði INSPIRE geta falist mikil tækifæri til umbóta hér á landi varðandi skráningu, miðlun og notkun stafrænna kortagrunna og annarra landupplýsinga hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Heimasíða INSPIRE er www. ec-gis.org/inspire/.