Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.

Þskj. 747  —  468. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög
(einföldun reglna um greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




Lög um hlutafélög, nr. 2/1995,     með síðari breytingum.


1. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 6. gr. a – 6. gr. c, sem orðast svo:

    a. (6. gr. a.)
    Stofnendur eða stjórn getur ákveðið að ekki skuli gera sérfræðiskýrslu skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 37. gr. vegna greiðslu hlutafjár með verðbréfi eða peningamarkaðsskjali sem tekið hefur verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði enda miðist verð bréfsins eða skjalsins við vegið meðaltal á þeim markaði síðustu sex mánuði fyrir greiðslu hlutafjárins.
    Ef verðmæti verðbréfs eða peningamarkaðsskjals hefur af sérstökum ástæðum breyst verulega á þeim tíma er nota skal það til greiðslu á hlutafé skulu stofnendur eða stjórn endurmeta verðmæti greiðslunnar og skal þá gerð sérfræðiskýrsla skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 37. gr.

    b. (6. gr. b.)
    Stofnendur eða stjórn getur ákveðið að ekki skuli gera sérfræðiskýrslu skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 37. gr. vegna greiðslu hlutafjár með öðrum verðmætum en reiðufé ef verðmæti greiðslunnar kemur beint fram í endurskoðuðum, lögmæltum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár og eignfærsla fer fram samkvæmt ársreikningalögum.
    Ef nýjar aðstæður leiða til þess að verðmæti greiðslu skv. 1. mgr. hefur breyst verulega á þeim tíma er inna skal hana af hendi til félagsins skulu stofnendur eða stjórn endurmeta verðmæti greiðslunnar og skal þá gerð sérfræðiskýrsla skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 37. gr.
    Ef ekki fer við hlutafjárhækkun fram endurmat skv. 2. mgr. geta hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár þegar ákvörðun um hlutafjárhækkun er tekin, krafist þess að verðmæti greiðslu sé endurmetið og gerð sé sérfræðiskýrsla skv. 1. mgr. 37. gr. Slíka kröfu má gera þar til greiðslan hefur verið innt af hendi til félagsins ef hluthafarnir, sem að kröfu standa, réðu yfir minnst 5% hlutafjárins þegar ákvörðun um hlutafjárhækkun var tekin.

    c. (6. gr. c.)
    Ef ekki hefur verið gerð sérfræðiskýrsla skv. 6. gr. a og 6. gr. b skulu stofnendur eða stjórn í þess stað útbúa greinargerð sem skal geyma eftirfarandi:
     1.      Lýsingu á greiðslu.
     2.      Verðmæti greiðslunnar, grundvöll verðmætamats og aðferð við matið.
     3.      Yfirlýsingu um að verðmæti greiðslunnar svari a.m.k. til nafnverðs þeirra hluta sem gefa skal út að viðbættu hugsanlegu álagi vegna yfirverðs.
     4.      Yfirlýsingu um að ekki séu komnar upp nýjar aðstæður sem skipta máli varðandi upprunalegt verðmætamat.
    Við stofnun skal greinargerð fylgja stofnsamningi. Við hlutafjárhækkun skal greinargerðin vera í boðun til hluthafafundar eða fylgja henni. Greinargerðin skal send hlutafélagaskrá innan mánaðar frá því að greiðsla var innt af hendi til félagsins og birt skv. 151. gr.
    Taki stjórn ákvörðun um hlutafjárhækkun samkvæmt umboði frá hluthafafundi telst greiðslan ekki greiðsla á hlutafé fyrr en hlutafélagaskrá hefur verið send tilkynning um það hvenær ákvörðun um hlutafjárhækkun var tekin, svo og upplýsingar skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. Birta skal tilkynninguna skv. 151. gr. Greinargerð skv. 1. mgr. má í slíku tilviki takmarka þannig að aðeins verði tilkynnt að ekki hafi komið upp nýjar aðstæður sem skipti máli varðandi verðmætamat.

2. gr.

    Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Gætt skal ákvæða 6. gr. a – 6. gr. c eftir því sem við á.

3. gr.

    2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Í hvaða sveitarfélagi hér á landi félagið skal teljast hafa heimilisfang.

4. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Gögn þau sem um ræðir í 6. gr., sbr. þó 6. gr. a – 6. gr. c, skulu einnig fylgja áskriftarskrá.

5. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Ákvæði 5.–6. gr., 6. gr. a – 6. gr. c og 7.–8. gr. skulu gilda um þetta eftir því sem við á.

6. gr.

    Í stað orðanna „átján mánaða“ í 2. málsl. 2. mgr. 55. gr. laganna kemur: fimm ára.

7. gr.

    Í stað orðanna „6.–8. gr.“ í 2. mgr. 133. gr. laganna kemur: 6., 7. og 8. gr.

8. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 6. gr.“ í 1. tölul. 3. mgr. 148. gr. laganna kemur: 2. mgr. 6. gr., sbr. þó 6. gr. a – 6. gr. c.

Lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.


9. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 6. gr. a og 6. gr. b, sem orðast svo:

    a. (6. gr. a.)
    Stofnendur eða stjórn getur ákveðið að yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns, þess efnis að skýrsla skv. 2. mgr. 5. gr. sé rétt, þurfi ekki að fylgja stofnsamningi, sbr. 1. mgr. 6. gr., eða gögnum um hlutafjárhækkun, sbr. 2. mgr. 26. gr., þegar hlutafé er greitt með verðbréfi eða peningamarkaðsskjali enda sé bréfið eða skjalið metið á meðaltalsverði á skipulegum verðbréfamarkaði síðustu sex mánuði fyrir greiðslu hlutafjárins.
    Ef verðmæti verðbréfs eða peningamarkaðsskjals hefur af sérstökum ástæðum breyst verulega á þeim tíma er nota skal það til greiðslu á hlutafé skulu stofnendur eða stjórn endurmeta verðmæti greiðslunnar. Skal þá gerð skýrsla skv. 2. mgr. 5. gr. og yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns fylgja henni.

    b. (6. gr. b.)
    Stofnendur eða stjórn getur ákveðið að yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns, þess efnis að skýrsla skv. 2. mgr. 5. gr. sé rétt, þurfi ekki að fylgja stofnsamningi, sbr. 1. mgr. 6. gr., eða gögnum um hlutafjárhækkun, sbr. 2. mgr. 26. gr., þegar hlutafé er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé ef verðmæti greiðslunnar kemur beint fram í endurskoðuðum, lögmæltum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár og eignfærsla fer fram samkvæmt ársreikningalögum.
    Ef nýjar aðstæður leiða til þess að verðmæti greiðslu skv. 1. mgr. hefur breyst verulega á þeim tíma er inna skal hana af hendi til félagsins skulu stofnendur eða stjórn endurmeta verðmæti greiðslunnar. Skal þá gerð skýrsla skv. 2. mgr. 5. gr. og yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns fylgja henni.
    Ef ekki fer við hlutafjárhækkun fram endurmat skv. 2. mgr. geta hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár þegar ákvörðun um hlutafjárhækkun er tekin, krafist þess að verðmæti greiðslu sé endurmetið og gerð sé skýrsla skv. 2. mgr. 5. gr. sem yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns fylgi. Slíka kröfu má gera þar til greiðslan hefur verið innt af hendi til félagsins ef hluthafarnir, sem að kröfu standa, réðu yfir minnst 5% hlutafjárins þegar ákvörðun um hlutafjárhækkun var tekin.

10. gr.

    2. tölul. 2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Í hvaða sveitarfélagi hér á landi félagið skal teljast hafa heimilisfang.

11. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Ákvæði 5.–6. gr., svo og 6. gr. a og 6. gr. b, skulu gilda um þetta eftir því sem við á.

12. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 107. gr. laganna orðast svo: Ákvæði 6. gr., 6. gr. a – 6. gr. c og 7.–8. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda eftir því sem við á.



13. gr.

    Með lögum þessum er tekið mið af óbindandi ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/68/EB frá 6. september 2006 um breytingu á tilskipun ráðsins 77/91/EBE um stofnun hlutafélaga og tilskilið hlutafé þeirra og breytingar á því.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lagafrumvarpi þessu, sem samið hefur verið í viðskiptaráðuneytinu, er stefnt að því að breyta til einföldunar reglum í lögum um hlutafélög (hfl.) og jafnframt að nokkru leyti í lögum um einkahlutafélög (ehfl.) viðvíkjandi greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé o.fl. við stofnun eða hlutafjárhækkun án þess þó að slíkt dragi úr vernd hluthafa og lánardrottna. Jafnframt eru reglur rýmkaðar um eigið fé hlutafélaga. Er þá tekið mið af óbindandi ákvæðum í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/68/EB frá 6. september 2006 um breytingu á tilskipun ráðsins 77/91/EBE um stofnun hlutafélaga og tilskilið hlutafé þeirra og breytingar á því (annarri félagaréttartilskipuninni, hlutafjártilskipuninni), sbr. fylgiskjal I. Jafnframt var tækifærið nýtt til að einfalda kröfur um heimili félags í samþykktum þess.
    Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 95 frá 6. júlí 2007. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af drögum að norsku lagafrumvarpi um sama efni.
    Einföldun reglnanna felst aðallega í því að ekki er í sérstökum tilvikum krafist sérfræðiskýrslu þegar hlutir í hlutafélögum eru greiddir í formi verðbréfs eða peningamarkaðsskjals eða verðmæti greiðslu fyrir hluti kemur beint fram í endurskoðuðum, lögmæltum ársreikningi. Geta ákvæðin einfaldað meðferð mála í hlutafélögum, lækkað kostnað og aukið samkeppnishæfni.
    Í lögum um einkahlutafélög eru ekki gerðar sömu kröfur og í lögum um hlutafélög, þ.e. ekki er krafist sérfræðiskýrslu, þannig að reglur frumvarpsins hafa minna gildi hvað einkahlutafélög snertir.
    Ákvæði 1.–8. gr. frumvarpsins gera ráð fyrir breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum. Í 9.–12. gr. eru síðan ákvæði um breytingu á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum. Loks er í 13. gr. gerð grein fyrir EES-heimild ákvæða frumvarpsins en 14. gr. geymir gildistökuákvæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að á eftir 6. gr. hfl. komi þrjár nýjar greinar, 6. gr. a – 6. gr. c.
    Almennt þarf sérfræðiskýrslu til að staðfesta verðmæti annarra eigna en reiðufjár þegar hlutafé er greitt með slíkum eignum. Er þá ætlunin að tryggja að raunverulega sé verið að leggja félaginu til eignir sem eru jafnverðmætar og hlutaféð. Í 1. mgr. a-liðar þessarar greinar frumvarpsins, sem yrði 6. gr. a í hfl., er gert ráð fyrir einföldun reglna við stofnun hlutafélaga. Þarf þá ekki að gera sérfræðiskýrslu, sem unnin er af einum eða fleirum sérfróðum mönnum, annaðhvort löggiltum endurskoðendum eða lögmönnum ellegar öðrum sérfróðum mönnum sem dómkvaddir á heimilisvarnarþingi félagsins. Nánar tiltekið þarf ekki að gera sérfræðiskýrslu skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr. hfl. varðandi stofnun eða 1. mgr. 36. gr. hfl. varðandi hlutafjárhækkun ef greiðsla hlutafjár fer fram með verðbréfi eða peningamarkaðsskjali sem tekið hefur verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði enda miðist verð bréfsins eða skjalsins við vegið meðaltal á þeim markaði síðustu sex mánuði fyrir greiðslu hlutafjárins. Skv. b-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, merkja peningamarkaðsskjöl þá flokka fjármálagerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, svo sem ríkisvíxla, innlánsskírteini og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum.
    Eins og fram kemur í ákvæðum 1. mgr. a-liðar er það skilyrði að verð peningamarkaðsskjalsins miðist við vegið meðaltal á skipulegum verðbréfamarkaði síðustu sex mánuði fyrir greiðslu hlutafjárins. Þykir rétt að miða við það tímabil en ríki ráða lengd tímabilsins samkvæmt framangreindri tilskipun. Í 2. mgr. a-liðar greinar þessarar er hins vegar gert ráð fyrir undanþágu frá 1. mgr. Skal endurmeta verðmæti greiðslunnar ef verðmæti verðbréfs eða peningamarkaðsskjals hefur af sérstökum ástæðum breyst verulega á þeim tíma er nota skal það til greiðslu á hlutafé. Skulu stofnendur eða stjórn endurmeta verðmæti greiðslunnar og skal þá gerð sérfræðiskýrsla.
    Í 1. mgr. b-liðar greinarinnar er kveðið á um aðra undanþágu frá því að gera sérfræðiskýrslu. Við stofnun hlutafélags ellegar við hlutafjárhækkun þarf m.ö.o. ekki að gera sérfræðiskýrslu þegar hlutafé er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé ef verðmæti greiðslunnar kemur beint fram í endurskoðuðum, lögmæltum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár og eignfærslan fer fram samkvæmt ársreikningalögum. Er í raun verið að leggja endurskoðun að jöfnu við sérfræðiskýrslu hvað varðar viðkomandi eign. Skilyrði er að verðmætin séu færð til eignar samkvæmt ársreikningalögum. Hér hafa verðmæti verið staðfest í endurskoðuðum ársreikningi greiðanda og er talinn óþarfi að endurtaka staðfestinguna í sérfræðiskýrslu.
    Samkvæmt 2. mgr. b-liðar þarf að fara fram endurmat á verðmæti greiðslu og gera sérfræðiskýrslu ef nýjar aðstæður leiða til þess að verðmæti greiðslu skv. 1. mgr. b-liðar hefur breyst verulega á þeim tíma er inna skal hana af hendi til félagsins. Þetta er sams konar öryggisákvæði og í 2. mgr. a-liðar.
    Í 3. mgr. b-liðar eru síðan sérstakar reglur um endurmat við hlutafjárhækkun.
    Í 1. mgr. c-liðar greinarinnar er kveðið á um það að, í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið nauðsynlegt að gera sérfræðiskýrslu skv. a- og b-lið greinarinnar, sé samt sem áður útbúin greinargerð þar sem m.a. kemur fram lýsing á greiðslu, verðmætamat og yfirlýsingu um að ekki séu komnar upp nýjar aðstæður sem skipta máli varðandi upprunalegt verðmætamat.
    Í 2. mgr. c-liðar eru nánari ákvæði um framlagningu greinargerðarinnar og sendingu hennar til hlutafélagaskrár.
    Í 3. mgr. c-liðar eru sérstök ákvæði um að skylt sé að tilkynna hlutafélagaskrá um ákvörðunardag hlutafjárhækkunar og gefa henni upplýsingar skv. 1. mgr. auk ákvæða um birtingu tilkynningarinnar.

Um 2. gr.


    Með hliðsjón af breytingu á 10. gr. annarrar félagaréttartilskipunarinnar með tilskipun 2006/68/EB er slakað svolítið á kröfum 8. gr. hfl. vegna öflunar umtalsverðra verðmæta á fyrstu tveimur árum eftir skráningu hlutafélags. Ákvæði, sem samsvara 8. gr. hfl., er ekki að finna í lögum um einkahlutafélög.

Um 3. gr.


    Greinin felur í sér breytingu á 9. gr. hfl. þannig að tekið yrði upp ákvæði úr lögum um hlutafélög frá árinu 1978 þess efnis að nægilegt sé að taka fram í hvaða sveitarfélagi félag teljist hafa heimilisfang. Ekki þarf þá að taka fram götunafn og númer þótt það sé heimilt. Að gefnu tilefni er og tekið fram að átt sé við sveitarfélög hér á landi.
    Breytingar í þessum tölulið leiðir ekki af framangreindri EES-gerð en þykja vera til einföldunar þar eð samþykktum verður einungis breytt á hluthafafundum. Þarf eftirleiðis ekki að halda slíka fundi ef breyting verður á aðsetri félagsins innan sama sveitarfélags og þá heldur ekki senda hlutafélagaskrá nýjar samþykktir en slíkt kostar fé og fyrirhöfn.

Um 4. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir tæknilegum breytingum á ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. hfl. um gögn sem fylgja skulu áskriftarskrá. Almenna reglan er að sérfræðiskýrsla skv. 6. gr. skuli fylgja áskriftarskránni sé hún gerð. Gæta þarf þó nýrra ákvæða í 6. gr. a – 6. gr. c, þ.e. ekki þarf að leggja fram sérfræðiskýrslu ef undanþága er veitt á grundvelli 6. gr. a og 6. gr. b en greinargerð skv. 6. gr. c þyrfti þá að fylgja.

Um 5. gr.


    Í greininni, sem varðar hækkun hlutafjár, er kveðið á um tæknilega breytingu á 2. málsl. 1. mgr. 37. gr. hfl. Er breytt tilvísun í þær ákveðnu greinar sem snerta sérfræðiskýrslu vegna greiðslu á hlutafé með öðrum verðmætum en reiðufé.

Um 6. gr.


    Í greininni, sem snertir eigin hluti, er breytt ákvæðum í 2. málsl. 2. mgr. 55. gr. hfl. þannig að heimild hluthafafundar til handa félagsstjórn til að eignast eigin hluti má veita til lengri tíma en nú er, þ.e. til fimm ára í stað átján mánaða. Getur þetta auðveldað starf félagsstjórnar en hluthafafundur getur að sjálfsögðu afturkallað heimildina.

Um 7. gr.


    Hér er breytt tilvísun í greinar í 2. mgr. 133. gr. hfl. en sú grein fjallar um skiptingu hlutafélaga. Af þessari breytingu, ef samþykkt verður, leiðir að ekki verður varðandi skiptingu slakað á kröfum um sérfræðiskýrslu fremur en slakað verður á kröfum um sérfræðiskýrslu við samruna, sbr. 2. mgr. 37. gr. hfl. og 1. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarps þessa. Samsvarandi niðurstaða var í drögum að norsku frumvarpi sem litið var til við samningu frumvarps þessa.

Um 8. gr.


    Í greininni, sem fjallar um tilkynningu til hlutafélagaskrár, er breytt tilvísun í 1. tölul. 3. mgr. 148. gr. hfl. í samræmi við fyrirhugaðar breytingar með frumvarpi þessu.

Um 9. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að unnt sé að fara einfaldari leið í einkahlutafélögum eins og í hlutafélögum við greiðslu hlutafjár með verðbréfi eða peningamarkaðsskjali, svo og við greiðslu með verðmætum samkvæmt ársreikningi, eftir því sem við á. Tekið er mið af mismunandi kröfum hfl. og ehfl. Samkvæmt ehfl. er ekki krafist sérfræðiskýrslu en hins vegar er gert ráð fyrir því að löggiltur endurskoðandi eða lögmaður skuli votta að skýrsla skv. 5. gr. ehfl., sem endurskoðandi eða lögmaður þurfa ekki að vinna, sé rétt. Ákvæði þessi gilda um greiðslu hlutafjár með öðrum verðmætum en reiðufé við stofnun og jafnframt við hlutafjárhækkun.

Um 10. gr.


    Ákvæði greinarinnar fela í sér einföldun, sbr. athugasemdir við 3. gr.

Um 11. gr.


    Í greininni er breytt tilvísun í lagaákvæði vegna breytinga með frumvarpi þessu.

Um 12. gr.


    Þessi grein, sem fjallar um breytingu einkahlutafélags í hlutafélag, felur í sér breytingu á tilvísun 2. málsl. 1. mgr. 107. gr. ehfl. í vissar greinar laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þ.e. um að viss ákvæði hfl. skuli gilda um breytingu einkahlutafélags í hlutafélag eftir því sem við á. Tilvísunin í ákvæði hlutafélagalaganna um sérfræðiskýrslu, þegar greitt er með öðru en reiðufé, tekur nú einnig til nýrri ákvæða samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 13. gr.


    Í greininni er getið EES-heimildar fyrir ákvæðum frumvarps þessa.

Um 14. gr.


    Greinin geymir gildistökuákvæði.



Fylgiskjal I.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/68/EB
frá 6. september 2006
um breytingu á tilskipun ráðsins 77/91/EBE að því er varðar stofnun hlutafélaga og tilskilið hlutafé þeirra og breytingar á því
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í annarri tilskipun ráðsins 77/91/EBE frá 13. desember 1976 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu og aðildarríki krefjast þegar almenningshlutafélög eru stofnuð og um tilskilið hlutafé og breytingar á því í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra ( 3 ), eru settar fram kröfur varðandi nokkrar ráðstafanir sem slík félög gera í tengslum við hlutafé.
2)          Í orðsendingu sinni til ráðsins og Evrópuþingsins frá 21. maí 2003 sem nefndist „Að færa félagarétt til nútímahorfs og bæta stjórnarhætti í fyrirtækjum í Evrópusambandinu – Áætlun um þróun“ kemst framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að einföldun og nútímavæðing tilskipunar 77/91/EBE myndi stuðla verulega að meiri skilvirkni fyrirtækja og samkeppnishæfni án þess að rýra vernd hluthafa og lánveitenda. Þessi markmið hafa forgang en breyta engu um þörfina á að hefjast þegar í stað handa við almenna athugun á hagkvæmni annarra aðferða við að viðhalda eigin fé sem myndi veita hagsmunum lánveitanda og hluthöfum í hlutafélögum [

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


almenningshlutafélögum] viðunandi vernd.
3)          Aðildarríki skulu eiga þess kost að heimila hlutafélögum að afhenda hlutabréf gegn öðru endurgjaldi en reiðufé án þess að félögin þurfi að fá sérstakt verðmat sérfræðings, í tilvikum þar sem viðmiðun fyrir slíkt endurgjald er skýr. Engu að síður skal tryggja rétt minnihluta hluthafa til að krefjast þess háttar mats.
4)          Hlutafélögum skal heimilt að afla eigin hlutabréfa eftir því sem varasjóðir þeirra leyfa og tímabilið, þegar hluthafafundur getur heimilað slíka eignaöflun, skal lengt í því skyni að auka sveigjanleika og létta stjórnunarálagi af félögum sem þurfa að bregðast hratt við markaðsþróun sem hefur áhrif á verð hlutabréfa í þeim.
5)          Aðildarríkin skulu eiga kost á að heimila hlutafélögum að veita fjárhagsaðstoð til kaupa þriðja aðila á hlutabréfum í þeim eftir því sem varasjóðir þeirra leyfa til að auka sveigjanleika að því er varðar breytingar á hlutafjársamsetningu félaga. Þessi möguleiki skal vera með fyrirvara um verndarráðstafanir að teknu tilliti til markmiðsins með þessari tilskipun að vernda bæði hluthafa og þriðju aðila.
6)          Í þeim tilgangi að auka staðlaða vernd lánveitanda í öllum aðildarríkjunum skulu lánveitendur eiga kost á að hefja dómsmál eða málarekstur á sviði stjórnsýslu, samkvæmt tilteknum skilyrðum, ef líkur eru á að þeir nái ekki fram kröfum sínum vegna lækkunar á hlutafé hlutafélags.
7)          Til að hindra markaðssvik skulu aðildarríkin, við framkvæmd þessarar tilskipunar, taka tillit til ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) ( 4 ), reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2273/2003 frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar undanþágur fyrir endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga ( 5 ) og tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 2004/72/EB frá 29. apríl 2004 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar viðurkenndar markaðsvenjur, skilgreiningu á innherjaupplýsingum í tengslum við afleidd vöruskuldaskjöl, samningu innherjaskráa, tilkynningu um viðskipti stjórnenda og tilkynningu um grunsamleg viðskipti ( 6 ).
8)          Því ber að breyta tilskipun 77/91/EBE til samræmis við þetta.
9)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 7 ), eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 77/91/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað 21. undirliðar í 1. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „–     í Ungverjalandi:
        nyilvánosan muködo részvénytársaság;“,
2.    Eftirfarandi greinar bætist við:
     „10. gr. a
    1.     Aðildarríkin geta ákveðið að beita ekki 1. 2. og 3. mgr. 10. gr. ef framseljanleg verðbréf, eins og þau eru skilgreind í 18. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (*), eða peningamarkaðsgerningar, eins og þeir eru skilgreindir í 19. lið 1. mgr. 4. gr. þeirrar tilskipunar, eru, samkvæmt ákvörðun stjórnar eða framkvæmdastjórnar, lögð fram sem endurgjald í öðru en reiðufé og þessi verðbréf eða peningamarkaðsgerningar eru metin á vegnu meðalverði í viðskiptum með verðbréfin eða gerningana á einum eða fleiri skipulegum mörkuðum, eins og þeir eru skilgreindir í 14. lið 1. mgr. 4. gr. þeirrar reglugerðar, á nægilega löngu tímabili sem ákvarðast skal samkvæmt landslögum settum fyrir þann dag sem viðkomandi endurgjald í öðru en reiðufé er lagt fram.
    Hafi sérstakar aðstæður, sem hafa í för með sér verulega breytingu á verðmæti eignarinnar þann dag sem hún er lögð fram, hins vegar haft áhrif á þetta verð, þ.m.t. markaðsaðstæður sem gera slík verðbréf eða peningamarkaðsgerninga óinnleysanlega, skal fara fram endurmat að frumkvæði og á ábyrgð stjórnar eða framkvæmdastjórnar. Við þetta endurmat gilda 1., 2. og 3. mgr. 10. gr.
    2.     Aðildarríki geta ákveðið að beita ekki 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. ef eignir, aðrar en framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerningar sem um getur í 1. mgr., eru, samkvæmt ákvörðun stjórnar eða framkvæmdastjórnar, lagðar fram sem endurgjald annað en reiðufé, ef viðurkenndur, óháður sérfræðingur hefur metið þær á gangvirði og eftirfarandi skilyrðum hefur verið fullnægt:
    a)    gangvirði er ákvarðað eigi fyrr en sex mánuðum fyrir þann dag sem eignin er í raun lögð fram,
    b)    matið hefur farið fram í samræmi við almennt viðurkennda matsstaðla og -reglur í aðildarríkinu sem eiga við um þá gerð eigna sem leggja á fram.
    Komi upp nýjar, fullgildar aðstæður, sem hefðu í för með sér verulega breytingu á gangvirði eignarinnar þann dag sem eignin er í raun lögð fram, skal fara fram endurmat að frumkvæði og á ábyrgð stjórnar eða framkvæmdastjórnar. Við þetta endurmat gilda 1., 2. og 3. mgr. 10. gr.
    Fari slíkt endurmat ekki fram getur einn hluthafi eða fleiri, sem eiga samtals a.m.k. 5% af skráðu hlutafé félagsins þann dag sem ákvörðun um aukningu hlutafjár er tekin, krafist mats óháðs sérfræðings og gilda þá 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. Slíkir hluthafar geta lagt fram slíka kröfu allt fram að þeim degi sem eignin er í raun lögð fram, að því tilskildu að á þeim degi, sem krafan er lögð fram, nemi hlutaféð, sem viðkomandi hluthafar fara með, enn a.m.k. 5% af skráðu hlutafé félagsins eins og það var daginn sem ákvörðunin um hlutafjáraukningu var tekin.
    3.     Aðildarríki geta ákveðið að beita ekki 1., 2. og 3. mgr. 10. gr. ef aðrar eignir en framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerningar, sem um getur í 1. mgr., eru, samkvæmt ákvörðun stjórnar eða framkvæmdastjórnar, lagðar fram sem endurgjald annað en reiðufé og gangvirði þeirra má rekja til einstakrar eignar í lögboðnum reikningsskilum fyrra fjárhagsárs, að því tilskildu að lögboðnu reikningsskilin hafi verið endurskoðuð í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila (**).
    Annar og þriðji undirliður 2. mgr. skulu gilda að breyttu breytanda.
     10. gr. b
    1.     Ef annað endurgjald en reiðufé, eins og um getur í 10. gr. a, er látið í té án skýrslu sérfræðings, sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. 10. gr., skal, að viðbættum kröfunum sem fram koma í h- lið 3. gr. og innan eins mánaðar frá þeim degi sem eignin er í raun lögð fram, birta tilkynningu þar sem fram kemur:
    a)    lýsing á því endurgjaldi, sem er í öðru en reiðufé, sem um ræðir,
    b)    verðmæti þess, hver hefur séð um matið og, ef við á, matsaðferðin,
    c)    yfirlýsing um hvort tilgreint virði svari í það minnsta til fjölda, nafnverðs eða, ef nafnverð er ekki tiltekið, til bókfærðs verðs og, ef við á, yfirverðs á hlutabréfunum sem á að gefa út vegna slíks endurgjalds,
    d)    yfirlýsing um að engar nýjar, fullgildar aðstæður hafi komið upp að því er varðar upphaflega matið.
    Birtingin skal fram fara á þann hátt sem mælt er fyrir um í lögum hvers aðildarríkis í samræmi við 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE.
    2.     Ef leggja á fram annað endurgjald en reiðufé án skýrslu sérfræðings, sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. 10. gr., í tengslum við aukningu hlutafjár, sem fara skal fram skv. 2. mgr. 25. gr., skal birta auglýsingu með dagsetningunni þegar ákvörðunin um aukninguna var tekin og birta upplýsingarnar, sem skráðar eru í 1. lið, á þann hátt, sem mælt er fyrir um í lögum hvers aðildarríkis, í samræmi við 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE, áður en eignin, sem lögð er fram sem annað endurgjald en reiðufé, er afhent. Í því tilviki takmarkast tilkynningin skv. 1. lið við yfirlýsinguna um að engar nýjar, fullgildar aðstæður hafi komið upp frá því að fyrrgreind auglýsing var birt.
    3.     Hvert aðildarríki skal sjá til þess að fyrir hendi séu fullnægjandi verndarráðstafanir til að tryggja að málsmeðferðinni, sem fram kemur í 10. gr. a og í þessari grein. sé fylgt ef lagt er fram annað endurgjald en reiðufé án skýrslu sérfræðings sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. 10. gr.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/31/EB (Stjtíð. ESB L 114, 27.4.2006, bls. 60).
    (**)     Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.“
3.    Fyrsta undirlið í 1. mgr. 11. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    „í stað „10. gr.“ komi „1., 2. og 3. mgr. 10. gr.“,
    b)    eftirfarandi málsliður bætist við:
        „Ákvæði 10. gr. a og 10. gr. b skulu gilda að breyttu breytanda.“
4.     Í stað 1. mgr. 19. gr. komi eftirfarandi:
    „1.     Með fyrirvara um meginregluna um jafna meðferð allra hluthafa sem hafa sömu stöðu og með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) (*) geta aðildarríki heimilað félagi að afla eigin hlutabréfa, hvort sem það er í nafni félagsins eða fyrir milligöngu einstaklings sem kemur fram í eigin nafni en fyrir hönd félagsins. Að því marki sem slík eignaöflun er heimil skulu aðildarríki sjá til þess að hún sé háð eftirfarandi skilyrðum:
    a)    á hluthafafundi skal heimild fengin sem ákvarðar skilmála og skilyrði slíkrar eignaöflunar, einkum þó hámarksfjölda hlutabréfa þeirra sem afla skal, tímabil það sem heimildin gildir, en hámarkslengd þess skal ákvarðast af landslögum, en þó ekki vera lengri en fimm ár, og hámarks- og lágmarksendurgjald þegar um er að ræða eignaöflun gegn endurgjaldi. Stjórn og framkvæmdastjórn skulu ganga úr skugga um að skilyrðum b- og c-liðar sé fullnægt á þeim tíma sem hver heimiluð eignaöflun tekur gildi,
    b)    eignaöflunin, þ.m.t. á hlutabréfum sem félagið hefur áður aflað og á enn, svo og hlutabréf, sem einstaklingar kaupa sem koma fram í eigin nafni en fyrir hönd félagsins, má ekki verða til þess að lækka verðgildi hreinnar eignar niður fyrir þá fjárhæð sem tilgreind er í a- og b-lið 1. mgr. 15. gr.,
    c)    aðeins má nota hlutabréf, sem eru greidd að fullu, í þessum viðskiptum.
    Enn fremur geta aðildarríki sett eftirfarandi skilyrði fyrir eignaöflun, í skilningi fyrsta undirliðar:
    i)    að nafnverð eða, ef nafnverð er ekki tiltekið, bókfært verð hlutabréfanna sem aflað er, þ.m.t. hlutabréf sem félagið hefur áður aflað og á enn, svo og hlutabréf, sem einstaklingar kaupa sem koma fram í eigin nafni en fyrir hönd félagsins, megi ekki fara yfir mörk sem aðildarríkin ákvarða. Þessi mörk mega ekki vera lægri en 10% af skráðu hlutafé,
    ii)    að í samþykktum eða stofnsamningi félagsins sé mælt fyrir um heimild félagsins til að afla eigin hlutabréfa í skilningi fyrsta undirliðar, hámarksfjölda hlutabréfa sem á að afla, lengd þess tímabils sem heimildin gildir og hámarks- og lágmarksendurgjald,
    iii)    að félagið uppfylli viðeigandi tilkynninga- og upplýsingaskyldur,
    iv)    að gerð kunni að verða krafa, að ákvörðun aðildarríkja, um að tiltekin félög afsali sér hlutabréfum sem þau hafa aflað, að því tilskildu að fjárhæð sem er jöfn nafnvirði hlutabréfanna, sem þau afsala sér, verði sett í varasjóð sem ekki er unnt að úthluta úr til hluthafa nema lækkun verði á skráðu hlutafé. Þennan varasjóð má aðeins nota til að auka skráð hlutafé með eignfærslu varasjóða,
    v)    að eignaöflunin hafi ekki áhrif á það að kröfur lánveitanda verði uppfylltar.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 96, 12.4.2003, bls. 16.“
5.    Í 3. mgr. 20. gr. komi orðin „a- og b-lið 1. mgr. 15. gr.“ í stað orðanna „a-lið 1. mgr. 15. gr.“
6.     Í stað 1. mgr. 23. gr. komi eftirfarandi:
    „1.     Þegar aðildarríki heimilar félagi, annaðhvort beint eða óbeint, að leggja fram fé, að veita lán eða að setja tryggingu, með það í huga að þriðji aðili afli hlutabréfa í því, skulu þau gera þess háttar viðskipti háð skilyrðunum sem sett eru fram í öðrum, þriðja, fjórða og fimmta undirlið.
    Viðskiptin skulu fara fram á ábyrgð stjórnar eða framkvæmdastjórnar við sanngjarnar markaðsaðstæður, einkum með tilliti til vaxta sem félagið fær greidda og með tilliti til tryggingar sem er lögð er fram til félagsins vegna þeirra lána og fyrirframgreiðslna sem um getur í fyrsta undirlið. Lánsfjárstaða þriðja aðila eða, þegar um er að ræða marghliða viðskipti, sérhvers aðila að viðskiptunum skal hafa verið rannsökuð til hlítar.
    Stjórn eða framkvæmdastjórn skal leggja viðskiptin fyrir hluthafafund til fyrirframsamþykkis og skal hluthafafundurinn fara að reglum um ályktunarhæfi og meirihluta sem mælt er fyrir um í 40. gr. Stjórn eða framkvæmdastjórn skal leggja skriflega skýrslu fyrir hluthafafundinn þar sem tilgreindar eru ástæður fyrir viðskiptunum, hagsmunir félagsins af því að vera aðili að slíkum viðskiptum, skilyrði fyrir því að félagið gerist aðili að viðskiptunum, áhættan sem felst í viðskiptunum að því er varðar greiðsluhæfi og gjaldþol félagsins og verðið sem þriðji aðili á að greiða fyrir hlutabréfin. Þessa skýrslu skal leggja inn til skráningar til birtingar í samræmi við 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE.
    Heildarfjárhagsaðstoð, sem þriðju aðilum er veitt, má aldrei leiða til lækkunar á hreinni eign niður fyrir þá fjárhæð sem tilgreind er í a- og b- lið 1. mgr. 15. gr., þegar jafnframt er tekið tillit til lækkunar á hreinni eign sem kann að hafa átt sér stað þegar félagið sjálft eða þriðji aðili fyrir hönd þess aflaði eigin hlutabréfa í samræmi við 1. mgr. 19. gr. Félagið skal færa varasjóð, sem er ekki til úthlutunar, að fjárhæð sem nemur heildarfjárhagsaðstoðinni, á skuldahlið efnahagsreikningsins.
    Ef þriðji aðili aflar, með fjárhagsaðstoð frá félagi, hluta í því félagi í skilningi 1. mgr. 19. gr. eða skráir sig fyrir hlutum sem gefnir eru út við aukningu á skráðu hlutafé, skal slík eignaöflun eða skráning fara fram á sanngjörnu verði“
7.     Eftirfarandi grein bætist við:
     „23. gr. a
    Í tilvikum þar sem einstaklingar í stjórn eða framkvæmdastjórn félagsins, sem er aðili að viðskiptum sem um getur í 1. mgr. 23. gr., eða í stjórn eða framkvæmdastjórn móðurfyrirtækis, í skilningi 1. gr. tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga (*), eða slíkt móðurfyrirtæki sjálft eða einstaklingar, sem koma fram í eigin nafni en fyrir hönd aðila í slíkum fyrirtækjum eða fyrir hönd slíks fyrirtækis, eru mótaðilar í slíkum viðskiptum, skulu aðildarríkin gera fullnægjandi verndarráðstafanir til að tryggja að slík viðskipti stríði ekki gegn hagsmunum félagsins.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/43/EB.“
8.    Í stað annars undirliðar í 2. mgr. 27. gr. komi eftirfarandi:
    „Beita skal 2. og 3. mgr. 10. gr. og 10. gr. a og 10. gr. b.“
9.     Í stað 1. mgr. 32. gr. komi eftirfarandi:
    „1.     Ef um er að ræða lækkun á skráðu hlutafé, skulu a.m.k. lánveitendur þeir sem eiga kröfur frá því fyrir birtingu ákvörðunarinnar um lækkunina, eiga rétt á að fá a.m.k tryggingu fyrir kröfum sem hafa ekki fallið í gjalddaga á þeim birtingardegi. Aðildarríkin mega ekki sniðganga þennan rétt nema lánveitandinn hafi gert fullnægjandi verndarráðstafanir eða slíkar verndarráðstafanir séu ónauðsynlegar með tilliti til eigna félagsins.
    Aðildarríkin skulu fastsetja skilyrði fyrir nýtingu þess réttar sem kveðið er á um í fyrsta undirlið. Aðildarríkin skulu í öllum tilvikum tryggja að lánveitendur hafi heimild til að fara þess á leit við viðeigandi stjórnsýslu- eða dómsmálayfirvald að það geri fullnægjandi verndarráðstafanir, að því tilskildu að þeir geti með trúverðugum hætti sýnt fram á að kröfur þeirra séu í hættu vegna lækkunar á hlutafé sem þeir hafa skráð sig fyrir og fullnægjandi verndarráðstafanir hafi ekki verið gerðar hjá félaginu.“
10.    Í stað 1. mgr. 41. gr. komi eftirfarandi:
    „1.     Aðildarríkin mega gera undanþágu frá 9. gr. (1. mgr.), 19. gr. (fyrsta málslið a-liðar í 1. mgr.) og 25., 26. og 29. gr. að svo miklu leyti sem slíkar undanþágur eru nauðsynlegar fyrir samþykkt eða beitingu ákvæða sem ætlað er að hvetja til þátttöku starfsmanna eða annarra hópa einstaklinga sem skilgreindir eru í landslögum, í kaupum á hlutafé fyrirtækja.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 15. apríl 2008.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 6. september 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES P. LEHTOMÄKI
forseti. forseti.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (einföldun reglna um greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé o.fl.).

    Markmið frumvarpsins er að gera ýmsar breytingar til einföldunar á núgildandi lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Jafnframt eru reglur rýmkaðar um eigið fé hlutafélaga. Einföldun reglnanna felst einkum í því að ekki er í sérstökum tilvikum krafist sérfræðiskýrslu þegar hlutir í hlutafélögum eru greiddir í formi verðbréfs eða peningamarkaðsskjals eða þegar verðmæti greiðslu fyrir hluti kemur beint fram í endurskoðuðum lögmæltum ársreikningi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB C 294, 25.11.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 14. mars 2006 (hefur enn ekki verið birt í     Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 24. júlí 2006.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 26, 31.1.1977, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 96, 12.4.2003, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 336, 23.12.2003, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB L 162, 30.4.2004, bls. 70.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.