Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 763  —  410. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlaug Tómasson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, og Sigríði Lillý Baldursdóttur og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig hafa nefndinni borist sjö umsagnir um málið.
    Hinn 1. janúar sl. fluttust málefni aldraðra og almannatryggingar frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis, sbr. lög nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969. Frumvarp þetta er í meginatriðum byggt á tillögum verkefnisstjórnar sem skipuð var af félags- og tryggingamálaráðherra og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja frá 5. desember 2007. Verkefnisstjórnin vinnur áfram að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og á að skila tillögum 1. nóvember nk.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verði hækkað í 100 þús. kr. á mánuði. Megintilgangur þess er að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og gera ellilífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Gert var ráð fyrir í greinargerð með frumvarpinu að lagðar yrðu fram tillögur sem tryggðu örorkulífeyrisþegum sama frítekjumark eða ígildi þess. Nefndin gerir ráð fyrir að tillögur berist frá örorkumatsnefnd forsætisráðherra á vorþinginu þannig að hægt verði að afgreiða þá lagasetningu fyrir gildistöku 1. júlí nk. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja er kveðið á um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði eða sambærilega réttarbót með öðrum hætti fyrir 1. júlí nk. Í verkefnisstjórn félagsmálaráðherra var lagt til að greiðslur þessar yrðu inntar af hendi af hálfu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Ekki er gert ráð fyrir þessum greiðslum í frumvarpi þessu þar sem lífeyrissjóðir heyra undir fjármálaráðuneyti, sem mun leggja fram sérstakt frumvarp um greiðslurnar. Nefndin telur mikilvægt að þeirri vinnu verði hraðað svo bæta megi stöðu tekjulægstu hópa ellilífeyrisþega í landinu.
    Athugasemdir komu fram á fundi nefndarinnar varðandi fjárhæð vasapeninga í 6. gr. frumvarpsins þar sem segir að hún sé allt að 28.951 kr. á mánuði en í greinargerð kemur fram að hún muni hækka úr 30.000 kr. í 36.755 kr. Ástæða þessa er sú að fjárhæðum í almannatryggingalögum er ekki breytt í lagatextanum sjálfum heldur með reglugerð.
    Nefndinni bárust ábendingar þess efnis að heppilegra væri að nota orðið íbúi í stað vistmanns í lögunum og óskar eftir að það verði haft í huga við heildarendurskoðun almannatryggingalaganna.
    Nefndin gerir einungis tvær orðalagsbreytingar. Annars vegar leggur hún til að orðið „ellilífeyrisþegi“ verði notað í 2. gr. í stað „einstaklings“ til samræmis við orðalag 3. gr. frumvarpsins. Hins vegar telur nefndin rétt að nota orðið „greiðslur“ í stað orðsins „bætur“ í f-lið 1. gr. og f-lið 9. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur áherslu á að afgreiðslu málsins verði hraðað svo að þau ákvæði frumvarpsins sem taka eiga gildi 1. apríl nk. komi til framkvæmda á réttum tíma.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. mars 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Kristinn H. Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Árni Johnsen.


Birkir J. Jónsson.