Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 775  —  325. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson, Ingvar Rögnvaldsson og Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Völu Valtýsdóttur frá Deloitte, Elísabetu Guðbjörnsdóttur frá PriceWaterhouseCoopers hf., Sigurjón Högnason frá KPMG endurskoðun hf., Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Rúnarsson og Braga Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Deloitte, Félagi löggiltra endurskoðenda, Kauphöll Íslands, OMX Nordic Exchange, KPMG Endurskoðun hf., PriceWaterhouseCoopers hf., ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands, skattrannsóknarstjóra ríkisins, skattstjóranum í Reykjavík, skattstjóra Suðurlandsumdæmis, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands. Einnig hafa borist tilkynningar frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og Ríkisendurskoðun.
    Meginefni frumvarpsins er tvíþætt. Eru þar lagðar til breytingar annars vegar á reglum um skattlagningu söluhagnaðar og hins vegar skattaumsýslu stórfyrirtækja. Þá eru í frumvarpinu lagðar til minni háttar breytingar á virðisaukaskattslögum.
    Í frumvarpinu er vísað til eldri lagabreytingar á tekjuskattslögunum, sbr. lög nr. 95/1998, en tilgangur þeirra var öðrum þræði að milda áhrif tvísköttunar á hagnað þegar arður er greiddur úr einu hlutafélagi í annað. Ef móttakandi arðs var hlutafélag var honum heimilt að draga arðgreiðslur frá skattskyldum tekjum sínum fyrir álagningu skatts. Í athugasemdum umræddra breytingalaga var rætt hvort sams konar regla ætti að gilda um söluhagnað af hlutabréfum en ákveðið var að gera ekki þá breytingu þar sem söluhagnaður byggist á nokkuð öðrum grunni en arðgreiðslur. Í því augnamiði að gera skattlagningu á söluhagnað rökréttari og stuðla að áframhaldandi fjárfestingu í hlutabréfum var hlutafélögum gefinn kostur á að fresta skattlagningu söluhagnaðar með því að fjárfesta í öðrum hlutabréfum innan tveggja ára frá sölu.
    Í frumvarpinu sem nefndin hefur til umfjöllunar er lagt til að sambærileg regla verði tekin upp varðandi skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum og skattlagningu arðs þegar hluthafinn uppfyllir viss skilyrði félagsforms. Til stuðnings þessari breytingu er vísað til breyttra efnahagsaðstæðna, aukinnar alþjóðavæðingar og skattalegrar samkeppni milli ríkja og eins þess að frestun á skattlagningu hefur verið nýtt mikið. Því hafa tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni verið minni en ætla mætti. Af sjálfu leiðir að samfara skattfrelsi söluhagnaðar í formi frádráttar frá skattskyldum tekjum verður ekki lengur þörf fyrir sérstaka frestunarheimild. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að heimildin skuli afnumin. Enn fremur er lagt til að reistar verði skorður við frádráttarbærni kostnaðar sem varðar umræddan söluhagnað.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ábendingar um að regla frumvarpsins um frádráttarbærni kostnaðar vegna söluhagnaðar væri óskýr. Óljóst væri hvaða kostnaður félli þar undir og álitamál hvort sú tilhögun að fela ráðherra að útfæra það nánar stæðist stjórnarskrá. Þá var gagnrýnt að afnám frestunarheimildar mundi ekki aðeins taka til þeirra aðila sem samkvæmt frumvarpinu fá notið frádráttarbærni söluhagnaðar heldur einnig annarra rekstrarforma, svo sem einstaklingsreksturs og sameignarfélaga. Þá komu fram tilmæli í umsögnum um að láta meginreglu frumvarpsins um frádrátt söluhagnaðar taka til afleiðuviðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru hlutabréf.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að ákvæði 2. mgr. b-liðar 2. gr. frumvarpsins um takmörkun á frádráttarbærni kostnaðar vegna söluhagnaðar verði breytt og þann kostnað sem þar er tilgreindur verði heimilt að draga frá öðrum tekjum. Meiri hlutinn telur að óbreyttu að ákvæðið geti valdið vandkvæðum í skattframkvæmd þar sem erfitt getur reynst að greina kostnað vegna söluhagnaðar frá öðrum kostnaði á söluári, til að mynda kostnað vegna arðgreiðslna. Meiri hlutinn telur jafnframt æskilegt og í anda frumvarpsins að kveða skýrt á um það að ekki sé heimilt að draga söluhagnað frá skattskyldum tekjum fyrr en yfirfæranlegt rekstrartap hefur verið jafnað út, þ.m.t. tap sem myndast hefur á tekjuárinu, einnig að ekki sé heimilt að draga tap umfram hagnað af sölu hlutabréfa frá tekjum eða mynda með þeim hætti yfirfæranlegt tap.
    Meiri hlutinn fellst á að rök séu fyrir því að láta meginreglu frumvarpsins um frádráttarbærni söluhagnaðar taka einnig til afleiðuviðskipta sem byggjast á hlutabréfum enda sé um ígildi hlutabréfaviðskipta að ræða og leggur meiri hlutinn því til samsvarandi orðalagsbreytingu á 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á að heimild frumvarpsins til að draga söluhagnað frá rekstrartekjum er óháð eignarhaldstíma. Á fundum nefnarinnar kom fram að þetta mundi leiða til mikillar einföldunar í skattframkvæmd og eyða óvissu um hvernig fara ætti með skattlagningu á veltuhlutabréfum.
    Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að gildistökuákvæði frumvarpsins verði ekki látin gilda afturvirkt í þeim tilvikum þar sem þau kunna að leiða til íþyngjandi niðurstöðu. Meiri hlutinn hefur í því sambandi sérstaklega í huga afnám frestunarheimilda þeirra rekstraraðila sem ekki fá notið frádráttarbærni söluhagnaðar en einnig það hvernig haga skuli meðferð áður frestaðs söluhagnaðar.
    Meiri hlutinn fagnar loks þeirri tilhögun sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að komið verði á fót sérhæfðri stjórnsýslueiningu hjá embætti skattstjórans í Reykjavík til að annast skattaumsýslu lögaðila sem eru yfir tilteknum stærðarmörkum. Slík sérhæfing sé nauðsynleg til að geta brugðist hratt og faglega við örum breytingum sem verða á alþjóðlegum markaði og hún muni skila atvinnugreininni betri þjónustu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Bjarni Benediktsson og Steinunn Þóra Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 11. mars 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Gunnar Svavarsson.



Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Lúðvík Bergvinsson.