Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 776  —  325. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðar breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar (PHB, EBS, GSv, MS, REÁ, LB).



     1.      1. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
              a.      Á eftir orðinu „hlutabréfa“ í 1. mgr. kemur: og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.
              b.      Á eftir orðinu „hlutabréfa“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.
              c.      5. mgr. fellur brott.
     2.      2. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
              a.      1. og 3. mgr. 5. tölul. falla brott.
              b.      Við 4. málsl. 9. tölul. bætist: eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
              c.      Á eftir 9. tölul. kemur nýr töluliður er verður 9. tölul. A, svohljóðandi: Hagnað af sölu hlutabréfa og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf, samkvæmt lögum þessum hjá félögum sem falla undir 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. af hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Sama gildir um hagnað sem félög í sömu félagaformum sem eru skattskyld skv. 7. tölul. 3. gr. og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa fengið af sölu hlutabréfa. Ákvæði þessa töluliðar tekur einnig til hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum sem skráð eru erlendis ef seljandi sýnir fram á að hagnaður af starfsemi hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Frádráttur skv. 3. málsl. er bundinn því skilyrði að það skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
                     Tap umfram hagnað af sölu hlutabréfa og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf, heimilast ekki sem frádráttur frá tekjum og myndar ekki yfirfæranlegt tap.
                     Frádráttur samkvæmt þessum tölulið er því aðeins heimill að yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað, þar með talið tap sem myndast hefur á tekjuárinu.
                     Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessara ákvæða.
     3.      9. gr. orðist svo:
             Ákvæði 1. og 2. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 vegna söluhagnaðar sem myndast á árinu 2008, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.
             Ákvæði 3.–7. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2009.
             Ákvæði 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008.
     4.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu halda gildi sínu um hagnað félaga skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga og einstaklinga í atvinnurekstri af sölu hlutabréfa sem féll til fyrir gildistöku laga þessara. Ákvæði þetta skal einnig halda gildi sínu um frestaðan söluhagnað félaga skv. 1. og 2. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á árunum 2006 og 2007.