Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 16. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1068  —  16. mál.




Nefndarálit


um till. til þál. um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um efni tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Með tillögunni er lagt til að viðskiptaráðherra verði falið að athuga hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga séu í samkeppni við einkaaðila. Þá skuli ráðherra kanna hvort fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga hafi á undanförnum árum eflt samkeppnisstöðu sína gagnvart einkafyrirtækjum. Einnig skal kannað í hversu miklum mæli stofnanir og fyrirtæki á vegum ríkis og sveitarfélaga sinni verkefnum sem sérhæfðir aðilar í atvinnulífinu gætu leyst jafn vel eða betur fyrir minna fé.
    Nefndinni bárust á annan tug umsagna um tillöguna sem voru langflestar jákvæðar í garð hennar. Tilgangurinn með tillöguflutningnum er m.a. að fá yfirsýn yfir starfsemi á vegum hins opinbera sem er í samkeppni við einkaaðila. Nefndin telur æskilegt að fá slíka yfirsýn svo dýpka megi umræðu um hlutverk og þátttöku hins opinbera í atvinnulífinu.
    Meiri hlutinn tekur undir með Alþýðusambandi Íslands sem bendir á í umsögn sinni að „mikilvægt sé að tryggja ákveðna fjölbreytni í rekstrarformum samfélagsþjónustu…“ og að mikilvægt sé að tryggja að „gæði þjónustu verði ávallt fullnægjandi og að allir hafi jafnan aðgang að henni óháð efnahag og félagslegri stöðu.“
    Í umsögnum má meðal annars finna tillögur um útvíkkun tillögugreinarinnar auk umfjöllunar um einstök svið eða geira sem einkum þykir þörf á að athuga með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem í tillögu þessari felast. Í því sambandi hefur m.a. verið minnst á rekstur hins opinbera á eftirliti sem hugsanlega gæti átt heima hjá einkaaðilum, ólíkar skattareglur milli opinberra aðila og einkaaðila, kaup opinberra aðila á utanaðkomandi sérfræðiaðstoð, kaup opinberra aðila á tölvuþjónustu frá einkaaðilum, þátttöku hins opinbera í verslunarrekstri, vernd og stuðning hins opinbera í landbúnaði, kröfur til einkaaðila í rekstri, þátttöku hins opinbera í rannsóknum.
    Þótt sumir þessara þátta kunni að vera á mörkum úttektar af þessum toga telur nefndin æskilegt að viðskiptaráðherra marki úttektinni í upphafi hæfilega rúman ramma sem tryggi að heildaryfirsýn fáist yfir verkefni sem opinberir aðilar sinna nú og gætu verið í höndum einkaaðila. Slík yfirsýn er nauðsynleg forsenda upplýstrar umræðu um hvort einhver sérstök sjónarmið kunni að réttlæta viðamikið hlutverk ríkisins á einstökum sviðum og þá að hvaða markmiðum sé stefnt með umfangsmeiri ríkisrekstri í samkeppnisrekstri en almenn viðskiptasjónarmið kalla á.
    Þá telur meiri hlutinn rétt og eðlilegt að jafnframt verði litið til þeirrar reynslu sem þegar hefur fengist af einkarekstri og einkaframkvæmd við verklegar framkvæmdir eða veitingu lögboðinnar þjónustu ríkis og sveitarfélaga hér á landi.
    Meiri hlutinn telur rétt að ráðherra leggi skýrslu um niðurstöðu athugunarinnar fyrir Alþingi til umræðu. Í þeirri skýrslu geri ráðherra tillögur til Alþingis um frekari athuganir, ef hann telur þörf á slíku.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „1. apríl 2008“ í 2. mgr. tillögugreinarinnar komi: 1. febrúar 2009.
    
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. maí 2008.


Ágúst Ólafur Ágústsson,

form., frsm.

Guðfinna S. Bjarnadóttir.

Birgir Ármannsson.


Árni Páll Árnason.

Björk Guðjónsdóttir.