Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1092  —  324. mál.




Nefndarálit


um frv. til innheimtulaga.

Frá viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Írisi Björk Hreinsdóttur og Jónas Fr. Jónsson frá Fjármálaeftirlitinu, Bjarna Þór Óskarsson og Sigurð Arnar Jónsson frá Intrum, Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands, Davíð B. Gíslason frá Momentum, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Guðjón Rúnarsson, Hildi Friðleifsdóttur og Karl Óttar Pétursson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Gísla Tryggvasvon, talsmann neytenda, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði og Atla Frey Guðmundsson og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Markmið frumvarpsins er að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur. Frumvarpið snertir m.a. innheimtustarfsemi lögmanna, viðskiptabanka og sparisjóða, annarra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og ýmissa stofnana. Við samningu frumvarpsins var stuðst við ákvæði norskra innheimtulaga en frumvarpið byggist einnig á stjórnarfrumvarpi frá 123. löggjafarþingi, munnlegum athugasemdum efnahags- og viðskiptanefndar við það og vissum atriðum úr þingmannafrumvarpi frá 132. löggjafarþingi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er vísað til nokkurra ákvæða þess sem eru frávíkjanleg en önnur ákvæði frumvarpsins eru ófrávíkjanleg. Frumvarpið tekur með nokkrum undantekningum til innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Í 3. gr. frumvarpsins eru sett skilyrði fyrir því að mega stunda innheimtu fyrir aðra. Gerðar eru kröfur um innheimtuleyfi, fasta starfsstöð hér á landi og gilda starfsábyrgðartryggingu. Ekki þarf innheimtuleyfi vegna innheimtu í eigin starfsemi nema þegar um ræðir aðila sem kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni. Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um innheimtuviðvörun. Eftir gjalddaga kröfu skal senda skuldara eina viðvörun og veita honum færi á að greiða kröfu innan ákveðins frests. Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins getur viðskiptaráðherra með reglugerð ákveðið hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Tekið er fram í 12. gr. að fjárhæðin skuli taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist. Þetta ákvæði var talsvert rætt við umfjöllun málsins í nefndinni. Skuldarar hafa ekki val um það við hvaða innheimtuaðila kröfuhafi semur en telja verður að þetta fyrirkomulag stuðli að því að skuldarar eigi ekki síður á hættu að innheimtukostnaður reynist þeim of þungbær.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lögð er til breyting á 1. gr. sem fjallar um gildissvið frumvarpsins. Eins og að framan greinir tekur frumvarpið til innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Innheimta opinberra aðila á sköttum og gjöldum fellur ekki undir frumvarpið. Hins vegar mundi önnur innheimta opinberra aðila heyra undir frumvarpið, t.d. innheimta krafna Íbúðalánasjóðs. Þá gildir frumvarpið ekki heldur um innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga. Því fellur t.d. kostnaður við útgáfu stefnu og fjárnámsbeiðni utan gildissviðs frumvarpsins. Nefndin leggur til að við 1. gr. bætist skilgreining hugtakanna fruminnheimta, milliinnheimta og löginnheimta. Með fruminnheimtu er átt við innheimtuviðvörun skv. 7. gr. Með milliinnheimtu er átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið slíka innheimtuviðvörun og áður en löginnheimta hefst. Með löginnheimtu er átt við innheimtu á grundvelli réttarfarslaga sem ákvæði frumvarpsins taka ekki til eins og að framan greinir.
    Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 4. gr. Annars vegar er lagt til að við b-lið 1. mgr. bætist tilvísun til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis um óflekkað mannorð. Hins vegar er lagt til að við 2. mgr., sem fjallar um innheimtuleyfi lögaðila, verði bætt málslið þess efnis að lögaðili skuli fullnægja skilyrðum a-liðar 1. mgr. varðandi greiðslustöðvun og gjaldþrotaskipti og e-liðar sömu málsgreinar.
    Lagðar eru til tvær viðbætur við 2. mgr. 6. gr. Er í fyrsta lagi lagt til að við bætist orðin „m.a.“ svo að skýrt sé að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Í öðru lagi er lagt til að orðið „óþarfa“ komi á undan orðunum tjóni og óþægindum til að hnykkt sé á því að það tjón eða óþægindi sem skuldari hlýtur verði ekki umfram það sem venjulegt geti talist.
    Lagt er til að d-liður 2. mgr. 7. gr. um upphafsdag dráttarvaxta falli brott enda getur í framkvæmd verið vandkvæðum bundið að finna út hver hann er.
    Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 8. gr. Er annars vegar lögð til sú viðbót við 1. málsl. að innheimtuaðili geti gefið kröfu eftir að nokkru leyti eða öllu. Um þetta er fjallað í athugasemdum með 8. gr. en telja verður rétt að gera þetta skýrara í sjálfum frumvarpstextanum. Ef innheimtuaðili gengur of langt getur hann bakað sér bótaskyldu gagnvart kröfuhafa. Hins vegar er lagt til að samningar um greiðslu skuli því aðeins vera skriflegir að skuldari óski þess. Til skýringar er lögð til orðalagsbreyting á 11. gr.
    Lagt er til að gerð verði breyting á 12. gr. í þá veru að ekki verði tekið fram að hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar samkvæmt reglugerð sem viðskiptaráðherra getur sett verði ákveðin í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þessi tillaga um breytingu er gerð vegna athugasemda Samkeppniseftirlitsins.
    Nefndin leggur til að í stað 15.–17. gr. komi sex nýjar greinar. Er að ýmsu leyti byggt á tillögum Fjármálaeftirlitsins um breytingar á þessum greinum frumvarpsins. Lagt er til að í nýrri 15. gr. verði fjallað um leyfi og leyfisveitingu og hnykkt á því fyrirkomulagi að úrskurðarnefnd lögmanna fari með eftirlit með lögmönnum og Fjármálaeftirlitið fari með leyfisveitingu og eftirlit að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 4. og 5. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að í 3. mgr. 15. gr. verði kveðið um það að eftirlitsaðilar samræmi verklagsreglur sínar.
    Lagt er til að í nýrri 16. gr. verði fjallað um eftirlit og textinn einfaldaður nokkuð frá því sem er í 15. gr. frumvarpsins sem fjallar bæði um leyfi og eftirlit. Þá er lagt til að í 17. gr. verði mælt fyrir um sviptingu innheimtuleyfis. Lagt er til að í 18. gr. verði ákvæði um stjórnvaldssektir sem verði fyllra en ákvæðið sem er í frumvarpinu. Lagt er til að í 19. gr. verði kveðið á um það að Fjármáleftirlitinu verði heimilt að ljúka máli með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggi við. Lagt er til að 20. gr. frumvarpsins fjalli um refsingar. Framangreindar breytingar á viðurlagaákvæðum eru í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á heimildum Fjármálaeftirlitsins, sbr. lög nr. 55/2007, um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði.
    Nefndin leggur til að gildistöku frumvarpsins verði seinkað þannig að lögin öðlist gildi 1. janúar 2009.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Birgir Ármannsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara um 12. gr. frumvarpsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. maí 2008.


Ágúst Ólafur Ágústsson,

form., frsm.

Guðfinna S. Bjarnadóttir.

Jón Bjarnason.


Birgir Ármannsson,

með fyrirvara.

Árni Páll Árnason.

Valgerður Sverrisdóttir.


Jón Gunnarsson.

Björk Guðjónsdóttir.

Höskuldur Þórhallsson.