Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
2. uppprentun.

Þskj. 1137  —  517. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um Veðurstofu Íslands.

Frá umhverfisnefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Veðurstofu Íslands, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, ríkislögreglustjóra, Félagi íslenskra veðurfræðinga, Félagi íslenskra náttúrufræðinga og Rauða krossi Íslands. Allar þessar umsagnir voru mjög jákvæðar í garð frumvarpsins þótt smávægilegar athugasemdir hafi komið fram.
    Frumvarpið er fram komið í tengslum við ákvörðun um sameiningu vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands í nýja stofnun sem mun heyra undir umhverfisráðuneytið frá 1. janúar 2009 verði frumvarpið að lögum. Er það álit nefndarinnar að með sameiningu þessara stofnana sé hægt að samnýta þá þekkingu sem til er á hvorum stað til að styrkja mælingastarfsemi í landinu. Nefndin telur einnig að með þessu móti skapist tækifæri til eflingar á þeim sviðum sem hin nýja stofnun mun starfa á. Stefnt er að því að hlutverk stofnunarinnar nái yfir fleiri fagsvið og hún geti þar með annast verkefni sem minna hefur verið sinnt undanfarin ár. Frumvarpið gerir ráð fyrir að öll þau verkefni sem Veðurstofa Íslands og vatnamælingar Orkustofnunar hafa annast verði á meðal hlutverka hinnar nýju stofnunar.
    Í 3. gr. er kveðið á um þau verkefni sem hin nýja stofnun, Veðurstofa Íslands, mun sinna. Aukið er hlutverk vöktunar á náttúruvá, sbr. 1. tölul., en Veðurstofa Íslands hefur þó fram að þessu einnig sinnt því hlutverki. Nýmæli er að finna í 9. tölul. þar sem kveðið er á um að eitt hlutverka Veðurstofu Íslands skuli vera að fylgjast með loftslagsbreytingum. Einnig má sjá í 3., 4. og 7. tölul. að verkefni vatnamælinga Orkustofnunar á sviði auðlindarannsókna falla nú undir hina nýju stofnun. Nefndin áréttar þann skilning sinn á 7. tölul. greinarinnar að hugtakið vatnsauðlindin taki ekki eingöngu til vatns til orkuframleiðslu heldur t.d. einnig til drykkjarvatns, grunnvatns og áveituvatns.
    Fjallað er um fjármögnun og kostnaðargreiningu í 4. gr. og er þar gert ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar verði tvíþættar. Í fyrsta lagi fái stofnunin framlög úr ríkissjóði og hafi heimild til að taka gjöld fyrir veitta þjónustu, sbr. 1. mgr. 4. gr. Í öðru lagi hafi stofnunin tekjur af sölu á þjónustu sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði en slík þjónusta skal taka mið af verðlagi á markaði. Lögð er sú skylda á Veðurstofuna að setja viðmiðunargjaldskrá um þessi verkefni og gefa hana út. Í umsögnum um frumvarpið kom fram tillaga um að Veðurstofunni yrði ekki skylt að birta slíka gjaldskrá. Nefndin telur slíkt aftur á móti vera eðlilega framkvæmd en ítrekar að slíkt felist til að mynda í birtingu hennar á vefsíðu stofnunarinnar og að um viðmiðunargjaldskrá sé að ræða. Leggur nefndin því ekki til breytingar á 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 5. gr. er fjallað um afhendingu gagna. Þar kemur fram að sé gagna aflað fyrir opinbert fé skuli þau vera aðgengileg svo fremi sem það brjóti ekki gegn lögverndun þriðja aðila eða fari gegn reglum um gjaldtöku sem settar eru af erlendum eiganda gagnanna. Í umsögn Félags íslenskra veðurfræðinga kom fram ábending um að eigendur gagna væru ekki ávallt erlendir og lagði félagið til að þessu orðalagi yrði breytt. Tekur nefndin undir þau sjónarmið og leggur til breytingu á frumvarpinu því til samræmis.
    Í 6. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að skipa fagráð, að tillögu forstjóra Veðurstofu Íslands, honum til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar. Það sjónarmið kom fram í umsögnum að fagráð sem þessi gætu verið til bóta en óljóst væri hver skipan þeirra og hlutverk væri að öðru leyti. Í ákvæðinu felst mjög opin heimild til handa ráðherra til að skipa fagráð til ráðgjafar forstjóra. Aftur á móti er ekki fjallað um skipan ráðsins eða skipunartíma þess. Telur nefndin ekki þörf á lagaákvæði sem þessu og leggur til að það verði fellt brott úr frumvarpinu.
    Í kostnaðarmati með frumvarpinu kemur fram að verði frumvarpið að lögum skapist réttur um átta starfsmanna til biðlauna og getur fjárhæð þessara réttinda verið um 60 millj. kr. Enn fremur kemur fram í kostnaðarmatinu sem og umsögn Veðurstofu Íslands að þótt þessi réttur sé fyrir hendi muni hann ekki verða nýttur til fulls. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins telur af þeim sökum að hin nýja stofnun geti borið þennan kostnað. Aftur á móti hafnar Veðurstofa Íslands því og telur sig þurfa aukna fjárveitingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 5. gr. Orðið „erlendum“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      6. gr. falli brott.
     3.      Við ákvæði til bráðabirgða. Í stað „7. gr.“ í 2. tölul. komi: 6. gr.

    Kolbrún Halldórsdóttir og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. maí 2008.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Illugi Gunnarsson.



Katrín Júlíusdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.


Ólöf Nordal.



Árni Þór Sigurðsson.