Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1145  —  535. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Broddadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Einar Skúlason og Margréti Steinarsdóttur frá Alþjóðahúsi, Hallfríði Þórarinsdóttur og Sólveigu Georgsdótturr frá MIRRU, Miðstöð innflytjendarannsókna Reykjavíkurakademíunnar, og Elsu Arnardóttur frá Fjölmenningarhúsinu á Ísafirði. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Íbúðalánasjóði, Ríkisútvarpinu, Læknafélagi Íslands, MIRRU, Íslenskri málnefnd, Útlendingastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, Lögregluskóla ríkisins, landlæknisembættinu, sóttvarnalækni, Hagstofu Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Vinnueftirlitinu, ríkisskattsstjóra, Alþjóðahúsi, Samtökum iðnaðarins, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennaraháskóla Íslands, ríkislögreglustjóra, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Greiningar og ráðgjafarstöð ríkisins, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Brunamálastofnun, Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, foreldrasamtökunum Heimili og skóli og Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði. Einnig barst tilkynning frá innflytjendaráði félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um í málefnum innflytjenda hefur að markmiði að bæta móttöku erlends fólks sem flytur til landsins og auðvelda því að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, læra íslensku, læra um íslenska siði og menningu og jafnframt rækta eigin menningu. Áætlunin er margþætt og tiltekur verkefni og málaflokka sem heyra undir ýmis ráðuneyti og stofnanir sem ætlað er að ná fram nánar afmörkuðum markmiðum á sviðum innflytjendamála. Gert er ráð fyrir því að áætlunin verði endurskoðuð að tveimur árum liðnum og þá verði ný áætlun lögð fyrir Alþingi.
    Nefndin telur jákvætt að sett sé fram framkvæmdaáætlun í svo þýðingarmiklum málaflokki en telur þó nauðsynlegt að gera athugasemdir við form og framsetningu áætlunarinnar. Sjálf þingsályktunartillagan er nær einungis upptalning á einstökum verkefnum, en nánari útfærslur eru í athugasemdum. Nefndin mælir með að við endurskoðun áætlunarinnar að tveimur árum liðnum verði sett í sjálfa þingsályktunartillöguna skýrari markmið og afmörkun verkefna sem vinna á að í stað þess að hafa eingöngu lista yfir verkefnin sem undir áætlunina heyra. Jafnframt tekur nefndin fram að ekki er á færi hennar að samþykkja nákvæma útfærslu einstakra verkefna þar sem hún býr ekki yfir sérfræðiþekkingu hvað þetta varðar.
    Áætlunin fjallar eingöngu um verkefni ríkisins og stofnana þess, en rétt er að benda á að sveitarfélögin gegna veigamestu hlutverki í móttöku og þjónustu við innflytjendur. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt milli sveitarfélaga og að gott samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga um málefni innflytjenda.
    Þó svo að ýmsar stofnanir hafi þegar fengið fjármagn og hafið vinnu að nokkrum þeirra verkefna sem talin eru upp í tillögunni hefur borið á því að umsagnaraðilar bendi á að fjármagn vanti til einstakra verkefna. Nefndin áréttar hér að samþykkt áætlunar af þessu tagi fylgir ekki fjárveiting og er afgreiðsla áætlunarinnar því með hefðbundnum fyrirvara um afgreiðslu í fjárlögum.
    Á fundum sínum og í umsögnum varð nefndin vör við að ýmsir aðilar hefðu áhyggjur af því að verið væri að stofna til verkefna sem nú þegar væru í framkvæmd og að ekki yrði nægilega nýttur sá mannauður og þekking í málefnum innflytjenda sem er til staðar. Nefndin leggur ríka áherslu á að þekking þeirra aðila sem unnið hafa að málaflokknum verði nýtt. Í athugasemdum við tillöguna segir að stjórnvöld muni leitast við að hafa sem víðtækast samstarf við samfélag innflytjenda, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og atvinnulíf um framkvæmd þessarar áætlunar og nýta þannig sérþekkingu sem myndast hefur um málefni innflytjenda á margvíslegum vettvangi. Nefndin tekur undir þetta en leggur þó áherslu á að stjórnvöld hafi sveitarfélög einnig í huga varðandi þessa þætti. Engu að síður telur nefndin mikilvægt að ríkið hafi heildaryfirsýn og sjái til þess að viðeigandi þjónusta sé til staðar þótt hún sé falin ólíkum aðilum.
    Nefndin tekur undir með mörgum umsagnaraðilum um mikilvægi samvinnu og samræmingar í allri vinnu ríkisvaldsins í málefnum innflytjenda, svo sem varðandi upplýsingar til innflytjenda um íslenskt samfélag, réttindi þeirra og skyldur. Þannig er litið á Fjölmenningarsetrið sem slíkan samræmingaraðila fyrir hönd ráðuneytisins en ekki framkvæmdaraðila ríkisins í öllum málum innflytjenda. Þá áréttar nefndin að gæta þurfi að því að sami aðili fari ekki með samninga, framkvæmd eða eftirlit einstakra verkefna í áætluninni.
    Fjölmargir umsagnaraðilar ítreka mikilvægi íslenskukennslu og góðrar túlkaþjónustu og tekur nefndin undir að það, ásamt kennslu á íslenskri menningu og siðum, er grundvallaratriði í málefnum innflytjenda.
    Að lokum bendir nefndin á að skýra þarf betur ábyrgð, hlutverkaskiptingu og kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga varðandi þjónustu við innflytjendur og eftirlit með framkvæmd áætlunarinnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. maí 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Jón Gunnarsson.



Pétur H. Blöndal.


Birkir J. Jónsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Ögmundur Jónasson.


Árni Johnsen.






.