Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 20. janúar 2009, kl. 13:44:03 (2992)


136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

dagskrá fundarins.

[13:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég spyr þar sem verið er að ræða dagskrá þingsins, hvernig stendur á því að við höfum ekki enn séð frumvarp um greiðsluaðlögun sett á dagskrá þingsins. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur hún lofað að setja lög um greiðsluaðlögun og það er kallað sterklega eftir því frá almenningi. Þessi greiðsluaðlögun þýðir að skuldarar verði aðstoðaðir við að komast út úr mesta svartnættinu og hvað er það annað en að fólk er að óska eftir að ríkisstjórnin geri eitthvað fyrir fólkið í landinu?

Það er sorglegt að segja frá því að það síðasta sem heyrðist frá ríkisstjórninni um þetta mikilvæga mál var einmitt viðtal við hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, á Stöð 2, þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði allt í einu uppgötvað það eftir allan sinn tíma á þingi hversu gríðarlega erfitt það er að leggja fram mál þar sem tekið er á því að afskrifa skuldir einstaklinga. (Forseti hringir.) Ég tek bara undir orð hv. þingmanna um að þessi forgangsröðun er alveg ótrúleg, að það eigi að fara að ræða hér um áfengi.