Gjaldþrotaskipti o.fl.

Fimmtudaginn 05. febrúar 2009, kl. 12:45:52 (3212)


136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að mikilvægt væri að þetta ætti við fólk sem hefði verið í atvinnurekstri en ég hugsa að hann hafi ekki lesið ákvæðið nógu greinilega vegna þess að þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“

Í mínum huga er þetta tómt mengi, eða nánast, því þeir sem hafa verið í atvinnurekstri skulda yfirleitt umtalsvert vegna hans og féllu því ekki undir þetta. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að beina því til þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að hún skoði þetta og víkki út þannig að ákvæðið eigi við um þá sem hafa verið í atvinnurekstri almennt þó að skuldirnar séu umtalsverðar því að þeir eru kannski ekki síður í vandræðum með skuldir sínar og kannski enn frekar.

Svo varðandi höfundarréttinn, herra forseti. Hv. þingmaður talar um að það sé lítið mál. Auðvitað er þetta lítið mál, hvort um er að ræða ritstuld, höfundarrétt eða hvað þetta nú er. En þetta var eitt af þeim atriðum sem sprengdi fyrrverandi ríkisstjórn. Það skiptir því verulega miklu máli hvernig ferillinn var. Hvernig var ferillinn hjá ríkisstjórninni? Það sýnir sig að það voru samfylkingarráðherrarnir sem stöðvuðu málið.