Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009, kl. 15:24:37 (3518)


136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:24]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr svör. Ég tel þetta, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, mjög til bóta og hjálplegt að mörgu leyti og til þess fallið að ýta undir að fólk ráðist í þær endurbætur sem það hefur hugsað sér að fara í á þessu tímabili, frá 1. mars 2009 til 1. júlí 2010, ef það hefur möguleika á því í efnahagsástandinu sem nú ríkir. Ég held líka að koma þurfi þessum skilaboðum, því sem við erum að fjalla um í frumvarpinu, til fólks á skýran hátt þannig að almenningur viti um þessa leið. Þar sem atvinnuleysi er mjög mikið í þessari stétt iðnaðarmanna getur þetta liðkað til með svo margt og gert það að verkum að iðnaðarmönnum á atvinnuleysisskrá fækki, sem er auðvitað mjög af hinu góða.