Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009, kl. 15:53:02 (3526)


136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það eru ákveðnir erfiðleikar í því að framkvæma þessa aðgerð. En ég held að fái lífeyrissjóðirnir tíma geti þeir leyst úr þeim sjálfir og sín á milli og hafi alla möguleika til þess.

Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki að boða það að settar verði einhverjar takmarkanir á það hvað aðilar geta losað um mikið af fjármunum sínum með þessu móti þannig að það raunverulega leysi ekki vanda þeirra, þeir komist ekki út úr skuldavandanum með því að nota séreignarsparnað sinn. Ég get að vissu leyti haft skilning á því að fólk vilji þá nota séreignarsparnaðinn vegna annarra erfiðleika sem það er í.

Vonandi er samfélag okkar þannig að við getum hjálpað þeim aðilum sem ekki hafa atvinnu og skulda ekki heldur og eru ekki með mikla greiðslubyrði þá á annan hátt en að þurfa að ganga á þennan sparnað. Það auðvitað gæti komið þeim í koll síðar en þeir aðilar sem væru í greiðsluvandræðum fengju ekki lausn mála sinna.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vona, eins mikla áherslu og menn lögðu á að þetta gerðist hratt hér fyrir nokkrum vikum, að ekki verði farið að tefja þetta að óþörfu í nefndinni vegna þess að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin þannig að það þurfi ekki að koma endilega með nýtt þingmál til að fara með í gegnum þingið. Ráðuneytið gæti komið með sínar hugmyndir inn í nefndina og ef meiri hlutinn telur það vera til bóta væri hægt að vinna málið (Forseti hringir.) þar þannig.