Uppbygging álvers í Helguvík

Miðvikudaginn 11. febrúar 2009, kl. 14:52:15 (3577)


136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[14:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að bera upp fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort hún sé sammála hæstv. iðnaðarráðherra hvað varðar uppbyggingu álvers í Helguvík. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað skýrt í þessu máli en í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er enginn leiðarvísir um verkefnin „Álver í Helguvík“ og „Álver á Bakka“ og þessir tveir hæstv. ráðherrar iðnaðar og umhverfismála tala vægast sagt hvort í sína áttina.

Tilefni fyrirspurnar minnar er bæði afstaða hæstv. umhverfisráðherra varðandi álversframkvæmdir í landinu og ekki síður viðtal við hana á vefmiðli einum þar sem hún sagði að vel gæti verið hagkvæmara að ljúka við byggingu tónlistarhúss í Reykjavík en að reisa álver í Helguvík. Ef einhver óvissa hefur komið upp sem varðar framkvæmdirnar væri gott að fá það strax upp á borðið svo að hægt sé að bregðast við því. Það var gríðarlegt áfall fyrir Suðurnesin þegar varnarliðið ákvað að hverfa af landi brott fyrir rúmum tveimur árum. Varnarliðið hafði verið nokkurs konar kjölfestuatvinnurekandi á Suðurnesjum og við brotthvarf þess voru 900 störf í uppnámi og um 700 störf voru ekki endurheimt.

Álversframkvæmdir í Helguvík hafa veitt íbúum á Suðurnesjum von um vellaunuð framtíðarstörf og ýmis önnur tækifæri til atvinnusköpunar í þjónustu við álverið, bæði á byggingartímanum og þegar það hefur tekið til starfa. Miðað við 250 þús. tonna álver, eins og fyrstu hugmyndir voru um, var gert ráð fyrir að 400 ný störf yrðu til við álverið og 600 til 700 afleidd störf í samfélaginu. Samtals var talað um 1.000 ný störf tengd álverinu. Nú eru uppi hugmyndir um að 360 þús. tonna álver rísi í Helguvík sem þýðir eflaust eitthvað fleiri störf. Á byggingartímanum er talað um að allt að 1.800 störf skapist, sem er mjög gott í því atvinnuleysi sem nú er meðal iðnaðarmanna, verkfræðinga og arkítekta en búast má við að þær stéttir og eflaust miklu fleiri komi að verkefninu á byggingartímanum. Atvinnuleysi er hvað mest á Suðurnesjum um þessar mundir, eins og alkunna er.

Suðurnesjamenn hafa áhyggjur af afdrifum álversins. Við teljum það ekki algjörlega í höfn þrátt fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra hafi kveðið skýrt upp úr með það að framkvæmdum verði haldið áfram. Þá hafa menn áhyggjur af afstöðu hæstv. umhverfisráðherra í ljósi ýmissa yfirlýsinga hennar. Þess vegna væri gott að fá á hreint hver afstaða hennar til málsins er. Því ber ég upp þessa fyrirspurn til að taka af allan vafa, virðulegi forseti.