Ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 14:42:12 (3795)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:42]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég held að það sé löngu orðið ljóst af þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mál bæði hér og erlendis að beiting hryðjuverkalaganna var fyrst og fremst til heimabrúks. Hún var fyrst og fremst til þess að leita eftir skammtímavinsældum á heimavelli. Það var hins vegar með bakgrunni í því að breskir fjármunir höfðu glatast nóttina áður en Lehman Brothers bankinn féll um miðjan september sem höfðu þá verið fluttir frá London til New York og með bakgrunni í því að bresk stjórnvöld höfðu grunsemdir um að Kaupthing Singer & Friedlander hefði flutt fjármuni frá London til Íslands og kannski eitthvað víðar út í heim. Ég veit ekki um það.

Hins vegar er ljóst að beiting hryðjuverkalaganna var langt umfram það sem var nauðsynlegt, langt umfram það samhengi sem samskiptin voru í um þessi mál á þeim tíma og, eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, langt umfram það samhengi sem samskipti Íslands og Bretlands hafa verið í í gegnum tíðina. (Gripið fram í.)

Þessi aðgerð hefur líka verið mjög gagnrýnd í Bretlandi, sérstaklega af fjármálakerfinu, og mun líklega hafa veruleg áhrif í framtíðinni ásamt öðru á það hvernig fjármálamarkaðir í Bretlandi munu þróast.

Yfirlýsingar íslenskra ráðamanna, eða sérstaklega íslenskra ráðherra, höfðu því ekkert með þetta að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra fór skilmerkilega yfir í máli sínu.