Ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 14:44:03 (3796)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:44]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins, nýfrjálshyggjan, hin óhefta einka- og markaðsvæðing þar sem frelsi var einkavætt en ábyrgðin ekki til síðustu 18 ára er gjaldþrota og þjóðinni blæðir. Maður bíður eftir því að forustumenn Sjálfstæðisflokksins, þingmenn og aðrir, biðji þjóðina afsökunar. Atvinnulausir eru 15.244 manns. Heilbrigðiskerfið hefur verið stórskaðað. Og ein grafalvarleg afleiðing er hér til umræðu í dag.

Hver er ástæða þess að Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum? Frá mínum bæjardyrum blasir það við að í raun og veru voru stórfelldir og sviksamlegir fjármagnsflutningar íslenskra auðmanna úr bönkunum, bresku bönkunum sínum eða íslensku bönkunum í Bretlandi, ástæðan fyrir þessari beitingu hryðjuverkalaganna, þ.e. þjófnaður á sparifé bresks almennings, líknarstofnana, sveitarfélaga og fleiri. Og það í kringum reikninga sem hafa verið nefndir glæpsamlegir, Icesave-reikningarnir og fleiri.

Mér er spurn, herra forseti: Af hverju var málið ekki rannsakað strax í kjölfarið sem glæpamál? Af hverju voru viðkomandi ekki yfirheyrðir þá þegar vegna gruns um meint landráð? Það flokkast undir landráð þegar svona aðgerð beinist gegn þjóðinni, aðgerð sem er jafnósanngjörn og hafði jafnafdrifaríkar afleiðingar og raun ber vitni. Af hverju voru þeir ekki yfirheyrðir þegar í stað sem sakborningar vegna hugsanlegra landráða, vegna auðgunarbrota og annarra brota á íslenskri löggjöf og erlendri? Og af hverju var ekkert aðhafst annað í gegnum NATO? Árás á eitt NATO-ríki er árás á þau öll og Bretar beittu ekki sömu aðgerðum gegn Bandaríkjamönnum. Af hverju var ekki farið í gegnum stjórnmálasambandið, í viðræður, í gegnum viðskipti (Forseti hringir.) og í gegnum málsóknir? Af (Forseti hringir.) hverju var ekki aðhafst strax? Auðmennirnir hafa komið (Forseti hringir.) þjóð okkar í koll.