Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 16:31:38 (3829)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talar um hrossakaup. Ég verð að segja að það er í fínu lagi að hann tali um hrossakaup í sambandi við þetta. Ég tel að það hross sem við vorum að kaupa hafi verið aukið lýðræði og valddreifing í landinu. Ég tel að stór hluti af baráttu okkar framsóknarmanna sé fyrir betra Íslandi og því að Alþingi hafi raunverulegt vald. Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst það koma úr allra hörðustu átt frá hv. þingmanni sem hefur verið baráttumaður fyrir því að draga úr flokksræði og hefur talað um skort á lýðræði innan flokkanna. Hann nefndi sérstaklega að hrossið sem við hefðum frekar átt að kaupa væru einhverjir stólar í ríkisstjórninni. Þjóðin virðist hins vegar vera frekar sammála okkur um að skiptin hafi verið betri, aukið lýðræði og valddreifing og það að leggja upp með þetta mál. Við töldum líka mikilvægt að þjóðin fengi að tjá sig í almennum kosningum og settum því fram kröfu um að kosningar yrðu haldnar sem fyrst, í síðasta lagi 25. apríl.

Við töluðum líka um mikilvægi þess að gripið yrði til aðgerða til að aðstoða heimilin og atvinnulífið.

Aðrar helstu athugasemdir sem komu fram í ræðu hv. þingmanns virtust snúast um tilkomu málsins frekar en innihald þess, hvort við ættum að halda stjórnlagaþing, og hugmyndir hans um hvernig við gætum tryggt aukið lýðræði á Íslandi. Ég tel að hlutverk stjórnmálaflokka sé að koma á framfæri ákveðnum hugmyndum og hugsjónum og það álít ég Framsóknarflokkinn gera með þessu máli. Við erum að framfylgja ályktunum flokksmanna okkar og þeir lögðu mikla áherslu á að þetta mál yrði flutt og þess vegna lögðu þeir líka mikla áherslu á þetta þegar óskað var eftir að við verðum núverandi ríkisstjórn vantrausti.