Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 16:37:44 (3832)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:37]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það geta út af fyrir sig verið rök í málinu að þingmenn eigi ekki að taka þátt í því að semja leikreglurnar sem þeir eiga að vinna eftir. Það finnast mér kannski vera bestu rökin fyrir stjórnlagaþingi. En með þeirri breytingu að þjóðin ein geti breytt stjórnarskránni höfum við náð því fram að þingmenn ráða ekki sjálfir leikreglum sínum. Jafnvel þótt málið sé tekið upp á Alþingi og breytingar lagðar þar fram og afgreiddar gerist ekkert nema það hljóti stuðning þjóðarinnar í sjálfstæðri atkvæðagreiðslu. Með þeirri tillögu, sem ég hef reyndar flutt nokkrum sinnum hér á Alþingi, er málið tekið úr höndum þeirra.

Ég átta mig ekki alveg á þeirri fullyrðingu að ekki hafi tekist að breyta stjórnskipaninni á þeim 64 árum sem lýðveldið hefur verið. Hvað eiga menn við? Hverju þarf að breyta? Þarf að breyta þrígreiningu ríkisvaldsins? Ég er ekki viss um að því þurfi að breyta. Það sem þarf að breyta er að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt í þingsalnum og séu ekki áhrifamenn á þinginu sjálfu. Því finnst mér að þurfi að breyta. Ef það væri gert, jafnvel þótt ekki væri gengið svo langt heldur verulega í áttina til þess sjónarmiðs, yrði það mikill áfangi.

Að öðru leyti er ég ekki sammála því að stjórnarskráin sé skjal sem þurfi að kollvarpa og sé svo gallað að himnarnir séu að hrynja yfir okkur um þessar mundir af þeim sökum. Það er ekki svo, virðulegi forseti.