Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 16:39:47 (3833)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:39]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef örlitlar áhyggjur af hræðslu tiltekinna hv. þingmanna sem hafa talað hér í dag. Mér finnast þeir kannski óttalegar smásálir, fyrir að skilja ekki um hvað málið snýst og hafa svona miklar áhyggjur. Ég held að ég sé þó farin að skilja að hér er um að ræða pólitískt yfirklór.

Hér er til umræðu ein háværasta krafa samfélagsins, um að leiðréttur verði sá kúrs sem núverandi stjórnkerfi hefur sett okkur á, þar sem vald hefur safnast á fárra hendur, svo Alþingi er orðið óstarfhæft.

Þetta má leiðrétta með því að stofna til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað er það hlutverk að skrifa nýja stjórnarskrá. Við höfum öll — eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex, með virðulegum forseta, svo ég veki athygli á hversu fjölmennt er í salnum — undirritað eiðstaf um að fylgja stjórnarskránni í störfum okkar. Stjórnarskráin er að stofni til frá lýðveldisárinu 1944, þó að margar greinar eigi uppruna sinn í stjórnarskrá um hin sérstöku málefni Íslands sem gefin var út af danska konunginum 1874. (GMJ: Læra að telja.)

Læra að telja, er kallað hér fram í, þú varst frammi, hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Til stóð að endurskoða stjórnarskrána strax eftir setningu hennar. Árið 1945 var ákveðið að skipa 12 manna nefnd til þess verkefnis. Skemmst er frá því að segja að átta árum síðar, eða 1953, kom fram fyrirspurn í þinginu um hvað störfum nefndarinnar liði. Í máli þáverandi forsætisráðherra kom fram að lengi hafi verið leitað samkomulags um málið en ein tillaga hafi komið fram í nefndinni, um stjórnlagaþing. Hugmyndir um það þing, sem við ræðum hér árið 2009, eru fjarri því að vera nýjar af nálinni. Tillögur um stjórnlagaþingið 1953 voru útfærðar með tillögum af málaskrá og voru þar nefnd atriði sem enn er verið að ræða í dag. Þar má nefna völd forseta, reglur um stjórnarmyndun, kosningaaðferðir, Hæstarétt og aðferðir við að breyta stjórnarskrá.

Um störf nefndarinnar er það þó helst að segja að hún lognaðist út af og ekki er að finna í Þjóðskjalasafni gerðabækur nefndarinnar en helstu heimildir um stjórnlagaþingshugmyndina er að finna í ræðu formanns nefndarinnar, Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem birt var í Morgunblaðinu í janúar 1953. Málið er því 56 ára gamalt. Árið 1972 var aftur skipuð stjórnarskrárnefnd, sem vann til ársins 1983, eða í 11 ár, skilaði skýrslum en náði ekki samstöðu um endanlegar tillögur. Til að gera langa sögu stutta hafa nokkrar fleiri stjórnarskrárnefndir starfað, mislengi. Sú síðasta var skipuð 2005 og enn er engin heildstæð lausn fundin og enn hefur ekki farið fram sú heildstæða skoðun sem átti að fara fram á stjórnarskránni 1945, ári eftir að hún var sett.

Stjórnarskráin hefur að vísu tekið einstaka breytingum á þessum tíma, aðallega hvað varðar kosningafyrirkomulag, breytingar í þinginu og auðvitað mannréttindakaflann, sem hefur verið til umræðu hér í dag. Til að varpa ljósi á alvarleika málsins hafa komið fram hér í þinginu 80 tillögur að breytingum á stjórnarskránni, sjö þeirra hafa verið samþykktar, fjórum hefur verið vísað til ríkisstjórnar og aðrar hafa ekki verið útræddar og þess vegna lognast út af. Með hliðsjón af því hvað þingið hefur átt erfitt með að ná samstöðu um málin og ekki hefur náðst samstaða um breytingar í þeim stjórnarskrárnefndum sem þó hafa verið skipaðar á síðustu 65 árum hlýtur að teljast fullreynt að kjörnir fulltrúar, sem væntanlega hafa borið hagsmuni flokka sinna fyrir brjósti að mestu, nái samstöðu um þetta stóra mál.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson vill ekki ana að neinu um þessi mál, eins og hann sagði í ræðu áðan, en gott væri að vita hvað hann vill langan tíma. Eru 65 ár að ana að málum? Eðlilegt næsta skref í málinu er að vísa málinu til stjórnarskrárgjafans, þjóðarinnar sjálfrar, og skipa ópólitíska fulltrúa til að útkljá þau mörgu deiluefni sem uppi eru um stjórnarskrána og skrifa nýja í ljósi forsögunnar. Rétt er að kjörnir fulltrúar komi þar hvergi nærri. Þá kunna menn að spyrja um tilganginn. Meginmarkmið stjórnlagaþings er að tryggja að vilji þjóðarinnar verði aldrei settur að veði, ekki undir neinum kringumstæðum. Með því að skrifa nýja stjórnarskrá er byggður traustur grunnur undir stjórnskipulag landsins. Eins og allir vita hefur vald þjappast á fárra hendur og það hefur kristallast mjög í ástandi undanfarinna mánaða þar sem oddvitar stjórnarflokkanna hafa setið með risastórt verkefni í fanginu án þess að ráða við það og komust of lengi upp með að hleypa engum að borðinu. Slíkt vald er beinlínis hættulegt íslenskri þjóð.

Í frumvarpinu er ekki kveðið ákveðið á um þau verkefni og efni þeirra mála sem til kasta stjórnlagaþings gætu komið. Þó er lagt upp með ákveðnar hugmyndir sem byggja á þeim álitaefnum sem til umræðu hafa verið hér á landi síðastliðin 65 ár, án þess að sá listi sé bindandi eða tæmandi.

Ég ætla að nefna nokkur brýn mál sem taka þarf til skoðunar. Í fyrsta lagi má ekki stefna réttaröryggi borgaranna í hættu með því fyrirkomulagi sem verið hefur að dómsmálaráðherrar eins stjórnmálaflokks hafa skipað alla hæstaréttardómara landsins undanfarin 18 ár. Það eitt að einn fulltrúi framkvæmdarvaldsins skuli hafa svo stóru hlutverki að gegna við mannaval mikilvægustu stoðar réttarkerfisins, án þess að um það gildi lýðræðislegar reglur, er hrein og klár aðför að lýðræðinu og veikir sjálfstæði dómstólanna. Með þessum orðum er ekki vegið að heiðri dómara, né mat lagt á störf þeirra, en það að einn ráðherra skuli hafa svona mikið vald við val á fólki í jafnmikilvæg störf er óásættanlegt, enda bera ófá deilumál milli ráðherra og hæfisnefnda glöggan vitnisburð um það.

Í öðru lagi hefur spurningunni um það hvort og hvenær beri að vísa ákvörðunum um mikilvæg mál til þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu ekki verið svarað. Þessu tengt eru hlutverk og völd forseta Íslands, því í stjórnarskránni er kveðið á um að forsetinn geti synjað lagafrumvarpi staðfestingar og þá skuli efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki voru allir sammála um virkni neitunarvalds forseta Íslands árið 2004 og sumir töldu það hreinlega ekki til staðar. Annað kom á daginn þótt ekki hafi fyllilega reynt á það því málið gekk aldrei alla leið og var dregið til baka. Undanfarnar vikur hafa menn tekist á um völd forsetans, hvaða hlutverki hann eigi að gegna við stjórnarmyndunarviðræður og hver hafi í raun og veru þingrofsréttinn. Sú umræða sem hefur farið fram undanfarið er af pólitískum toga runnin. Þá fara persónur og leikendur að skipta máli. Slík umræða er íslensku þjóðinni ekki samboðin og allra síst við þær aðstæður sem nú eru uppi og óskýr stjórnarskrárákvæði sem hægt er að túlka í allar áttir og út um allar koppagrundir mega ekki verða til þess að grundvallarspurningar um persónulegan vinskap eða heift vakna, vegna þess hvaða persóna situr í stólnum þá stundina.

Til viðbótar má nefna deilur um eignarhald á auðlindum og nauðsyn þess að festa beri sameign þjóðarinnar á slíkum auðlindum í stjórnarskrá. Það má nefna spurninguna um framsal valds til yfirþjóðlegra stofnana sem komið hafa fram nokkrum sinnum og sem mest var rætt um í sambandi við EES-samninginn. Töluvert hefur verið rætt um rétt ráðherra til setningar bráðabirgðalaga, ekki síst eftir að starfstími þingsins er nú skilgreindur allt árið og greiðari samgöngur gera það auðvelt að kalla þingið saman með skömmum fyrirvara. Eftirlitshlutverk þingsins mætti einnig nefna, persónukjör til Alþingis, þingræðisregluna, og þingsetu ráðherra, sem verið hefur til umræðu í dag. Það mat sem hæstv. viðskiptaráðherra gaf í þinginu í gær var allrar athygli vert, þar sem hann telur það fyrirkomulag hafa valdið miklum vandræðum í viðskiptalífinu að stjórnarformenn geti á sama tíma verið starfandi framkvæmdastjórar eða forstjórar fyrirtækja, þar sem þeir fara þá með eftirlitshlutverk með sjálfum sér. Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og við höfum á Alþingi, virðulegi forseti, nema að það er heldur svæsnara hér. Hér fara ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki bara með framkvæmdarvaldið, þeir fara með stærstan hluta löggjafarvaldsins og hafa síðan, a.m.k. 8 af þeim 10 sem nú sitja, eftirlitshlutverk með sjálfum sér.

Öll þessi mál eru þess eðlis að þau varða grundvallarskipulag stjórnkerfisins, þrískiptingu ríkisvaldsins og lýðræðið. Engum má blandast hugur um að leikreglurnar séu í anda lýðræðis og það hlýtur alltaf að þurfa að njóta vafans.

Í ljósi þess sem áður hefur verið rakið, um vilja til breytinga á stjórnarskrá, sem birtist í á níunda tug tillagna þess efnis undanfarin 65 ár, um ósætti sem hefur verið um þær breytingar án þess að tillögur hafi náð fram að ganga og þær deilur sem uppi hafa verið um fjölmörg stjórnarskrárákvæði á undanförnum áratugum, hlýtur að vera komið að því að stjórnarskrárgjafanum sjálfum verði gefið tækifæri til að skipa sveit vaskra Íslendinga með þekkingu og áhuga að leiðarljósi við skrif nýrrar stjórnarskrár.

Einhverjir hafa haft á orði að tíminn sé of skammur til undirbúnings. Ég minni hins vegar á að aðdragandinn er 65 ár. Það liggur fyrir í dómsmálum og deilum hvaða mál þarf að taka til skoðunar. Efnislega er það því ekki vandamál. Eina sjáanlega fyrirstaðan í málinu er að val þessara fulltrúa liggur ekki fyrir og þar þarf að tryggja að einn hagsmunahópur í samfélaginu nái ekki yfirhöndinni umfram aðra, svo það sé sagt beint út.

Þingmenn stjórnlagaþings verða að endurspegla alla hópa samfélagsins og þeim þarf að tryggja sjálfstæði í störfum sínum. Verði þetta frumvarp ekki samþykkt núna eru mestar líkur á að það verði sett til hliðar eftir kosningarnar og farið með það eins og allar stjórnarskrárnefndirnar og þingmálin áttatíu og eitthvað, að það verði svæft af þeim öflum sem með valdið fara og hér verði ekki þær grunnbreytingar á stjórnskipaninni sem þjóðin knýr á um um þessar mundir. Þá er alls óvíst hvort og hvenær það verður næst á dagskrá og við sitjum áfram í þeirri miklu óvissu sem kristallast hefur í deilum um einstaka þætti þess.

Íslenska þjóðin á betra skilið og störf þingsins þurfa að snúast um annað en flokkapólitík, embætti og titla og það sem snýr að þingmönnum og ráðherrum sjálfum og persónulegum aðstæðum þeirra, sem er auðvitað afleiðing þess að vald hefur safnast á mjög fárra hendur. Löggjafarvaldið er ekki virkt, framkvæmdarvaldið hefur tekið allt of stór skref inn í þetta hús og ákvarðanir sem varða líf og heilsu þjóðarinnar eru ekki teknar á lýðræðislegum grunni. Sú birtingarmynd af Alþingi sem fólk hefur horft upp á undanfarna mánuði og ár er til komin vegna þess að sá meiri hluti sem hér situr er nánast undir öllum kringumstæðum að verja hið mikla framkvæmdarvald. Þingmenn sitja hér og verja ráðherra sína og störf þeirra, enda fátt annað að gera, málin sem koma til kasta þingsins eru yfirleitt alltaf á forsendum framkvæmdarvaldsins og send hingað inn af því. Þingstörfin munu ekki taka breytingum og hætta að snúast um flokkapólitík fyrr en skilið verður á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og þingmenn fara að hafa öðrum hnöppum að hneppa en að verja sitt fólk sem fer með framkvæmdarvaldið.

Athyglisvert er að fregnir herma að kostnaðurinn við að koma á virku lýðræði í landinu vefjist fyrir mönnum. Hér voru nefnd hrossakaup fyrr í dag og vil ég í því samhengi minna á að u.þ.b. 900 millj. kr. voru afgreiddar til ýmissa verkefna á svokölluðum safnliðum fjárlaga hér skömmu eftir bankahrun og mjög skömmu fyrir jól. Þá veltu þingmenn ekki fyrir sér sparnaði og ég vil nota þetta tækifæri, virðulegur forseti, og gagnrýna það fyrirkomulag að þingmenn skuli hafa það verkefni með höndum að deila út fjármunum í þessum mæli til einstaklinga og félagasamtaka. Safnliðirnir kostuðu fimm til sex sinnum meira en gert er ráð fyrir að stjórnlagaþingið kunni að kosta og rétt er að benda á að ef mönnum er umhugað um sparnað þá sparast 180 til 200 millj. kr. við það að kjósa til stjórnlagaþings samhliða alþingiskosningum í apríl.

Ég hef áður rætt um það hér á þinginu að formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað rætt um beinna lýðræði og að auka þurfi atbeina borgaranna við ákvarðanatöku. Ég á því von á því að samfylkingarþingmenn veiti málinu brautargengi og hef svo sem fengið staðfestingu á því hér í dag. Ég á ekki von á því að hin lýðræðiselskandi vinstri græn leggi stein í götu málsins enda segir í stefnuyfirlýsingu þeirra að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Ég sakna þeirra hins vegar í umræðunni í dag, virðulegi forseti.

Ég vil halda mig við málefnalegar staðreyndir í stað þess að elta órökstuddar dylgjur en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, var hér með órökstuddar dylgjur um hrossakaup og ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að svara. Ég minni á að í málefnaskrá frjálslyndra segir að styrkja beri réttaröryggi borgaranna gegn löggjafarvaldinu og hinu opinbera eftir því sem framast er kostur og þetta er leiðin til þess.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að fram hefur komið í umræðum hér í dag að sjálfstæðismenn virðast ekki vera mjög áfram um þessar breytingar. Velta má vöngum yfir því hvort sú andstaða sem sjálfstæðismenn hafa sýnt málinu sé til komin vegna þess að þeir hafa sjálfir farið með mikil völd í samfélaginu undanfarna áratugi, það gæti verið sárt að tapa þeim völdum. Þeir hafa t.d. verið andsnúnir því að Íslendingar skoðuðu hvað möguleg aðild okkar að Evrópusambandinu gæti falið í sér og athyglisvert er að velta því fyrir sér hvort það tengist áðurnefndum völdum þeirra í samfélaginu, sem sárt væri að tapa.

Ég ætla ekki að kveða upp dóm um það hér í dag hvort Íslendingum er betur borgið undir miðstýrðu valdi frá Evrópusambandinu í Brussel eða miðstýrðu valdi úr Valhöll. Ég held þó að það mundi vekja sérstaka athygli ef sjálfstæðismenn leggjast þverir gegn tillögum þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, sem hafði forgöngu um að kynna þessar hugmyndir um stjórnlagaþing árið 1953, þar sem hann lagði áherslu á að málið væri alþjóðamál sem ekki mætti eingöngu líta á sem flokksmál og mikilsvert að vel yrði til vandað og skaplegt samkomulag tækist um. Það eina sem samkomulag þarf að nást um hér í dag, virðulegi forseti, er að viðurkenna að 65 ára þrautagöngu, sem litlu hefur skilað, sé lokið. Að öðrum kosti eru þeir að segja að bíllinn verði ekki mokaður upp úr snjóskaflinum af því að þeir nenni ekki að leita að skóflu.

Einangrunarstefna og löng valdaseta Sjálfstæðisflokksins má ekki koma í veg fyrir að þjóðin fái að taka afstöðu til málsins. Ég vil þó árétta að með þessu er ég ekki að kasta rýrð á einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir eru eins og við hin hið besta fólk og ég verð að viðurkenna að þar er að finna hreinustu perlur innan um, virðulegi forseti. En þeir eru mannlegir og breyskir og hafa að mínu mati að nokkru leyti orðið, eins og við hin, fórnarlömb þeirrar þróunar sem orðið hefur á þingræðinu. En nú er mál að linni og þjóðin á næsta leik.