Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 17:23:14 (3843)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Ég var þeirrar skoðunar eða vonaði að Sjálfstæðisflokkurinn mundi nú, þegar þjóðin kallar á breytingar, koma fram og viðurkenna að stjórnarfyrirkomulag síðustu ára gengur einfaldlega ekki upp. Það er ekki bara eftirlitshlutverk Seðlabankans eða Fjármálaeftirlitsins sem hefur brugðist. Þrígreining ríkisvaldsins að vald verði aðeins temprað með valdi hefur líka brugðist og það sem hv. þingmaður boðaði hér er óbreytt ástand og að ægisvaldi framkvæmdarvaldsins yfir þinginu verði fram haldið. Þannig skildi ég hv. þingmann. Eða með öðrum orðum að hinn þungi hrammur flokksræðisins á Alþingi er það sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að ungur þingmaður skyldi koma fram og boða óbreytt ástand. Ég held að þjóðin þurfi fyrst og fremst á því að halda að við boðum til stjórnlagaþings, þingmennirnir sjálfir eiga ekki að vinna í því að breyta og móta eigin starfsreglur og ég óttast ekki, eins og hv. þingmaður ýjaði að, að þarna verði ekki unnið af fagmennsku. Ég veit að svo verður. Auðvitað munu einhverjar breytingar verða gerðar sem munu ekki hugnast Sjálfstæðisflokknum eða einhverjum öðrum flokkum. En þetta á líka (Forseti hringir.) að vera stjórnlagaþing óháð flokkapólitík. Þjóðin (Forseti hringir.) á að fá að klára þessa hluti, (Forseti hringir.) ekki þingmenn. (Gripið fram í.)