Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 17:30:35 (3847)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef einhvern tíma minnst á að þegar Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum hafi þótt ansi mikill hjónasvipur með okkur. Það var hjónasvipur sem við vorum kannski ekkert sérstaklega sátt við en það kenndi okkur samt að við vorum margbúin að reyna að koma einhverjum breytingum í gegn og ekkert gekk þannig að við sáum svo sem ekki mikla ástæðu til að tala við þennan fyrrverandi maka okkar varðandi breytingar. Í fyrrverandi stjórnarskrárnefnd voru ýmis þungavigtarmál rædd. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir að hann sjái ekki neina nauðsyn á nýrri stjórnarskrá þó að sumt sé óljóst í stjórnarskránni. En það er ekki bara sumt sem er óljóst í stjórnarskránni, það eru þungavigtarmál sem eru mjög óljós. Til dæmis er ekki minnst einu orði á hina svokölluðu þingræðisreglu í stjórnarskránni þó að við séum öll að vinna samkvæmt henni. Það er einnig ýmislegt óljóst varðandi það hvert hlutverk forseta er og ég veit ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert miklar athugasemdir við það hvernig núverandi forseti hefur sinnt hlutverki sínu. Margt varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er mjög óljóst og um það urðu heilmikil átök. Það var kannski eitt af fáum málum sem Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn til að taka á og sérstaklega hvað varðaði það að takmarka vald forseta og möguleika hans á því að synja málum og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það kemur hvergi fram í stjórnarskránni hvernig eigi að tryggja eftirlit einstakra hluta ríkisvaldsins og það má minna á að það hefur verið reynt í 65 ár að breyta stjórnarskránni, ekki bara á því 12 ára tímabili sem við vorum í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum eða á þeim 6 árum sem hann var síðan í viðbót, það eru … mál og hefur ekki gengið neitt og sérstaklega má minna á hvernig meiri hluti hefur troðið á minni hluta á Alþingi.