Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 17:37:56 (3851)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að heyra málflutning hins unga þingmanns hv. Bjarna Benediktssonar sem er þó örlítið eldri en ég. Hann hefur gefið kost á sér til forustustarfa í Sjálfstæðisflokknum og ég hef trú á því að honum verði vel ágengt á því sviði. Þess vegna voru það gríðarleg vonbrigði að hlusta á málflutning þingmannsins þar sem hann talar um hefðir og að það megi engu breyta. Hann finnur að því að þingflokkur framsóknarmanna skuli hafa vogað sér að leggja fram frumvarp á Alþingi um stjórnlagaþing. Hvað felur það í sér? Frumvarp um stjórnlagaþing felur það í sér að við ætlum að koma okkur upp úr því hjólfari sem við höfum verið í á undanförnum árum og við viljum breytingar og við treystum almenningi, við treystum háskólaprófessorum. Það er einfaldlega ekki þannig að það þing sem er hér starfandi sé miklu vitrara en einhverjir aðrir 63 einstaklingar. Mér fannst hv. þingmaður tala á þeim nótum að þessi mál ættu einungis að vera til endurskoðunar á vettvangi Alþingis.

Af því að hv. þingmaður var að stæra sig af því að hafa setið stjórnskipulagskúrs í Háskóla Íslands þá býst ég við að lærifaðir hans á þeim stað hafi verið Eiríkur Tómasson lagaprófessor, að hann hafi einhvern tíma komið að því að kenna hv. þingmanni þessi fræði. Ég vil benda á það að sá virti fræðimaður hefur mælt mjög fyrir því að menn klári þetta mál á vettvangi þingsins þannig að samhliða næstu alþingiskosningum verði hægt að kjósa til stjórnlagaþings. Ég skammast mín ekkert fyrir það, hæstv. forseti, að hafa þá trú á mörgum hæfileikaríkum Íslendingum að þeir geti komið að því að endurskoða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Ég skammast mín ekkert fyrir það og það er slæmur tónn hjá sjálfstæðismönnum að koma inn í umræðuna og lýsa því yfir að Framsóknarflokkurinn hafi rofið einhverja hefð á þinginu sem geti orðið til þess að þetta mál nái ekki fram að ganga. Mér heyrist sjálfstæðismenn hér á þingi ætla að leggja stein í götu þess að stjórnlagaþing verði að veruleika á næstu mánuðum.