Afstaða til Evrópusambandsaðildar -- ummæli þingmanns

Miðvikudaginn 18. febrúar 2009, kl. 13:59:58 (3926)


136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Mér finnst veruleikaskyn sumra þingmanna vera með ólíkindum. Þessari ríkisstjórn sem situr til 25. apríl, ef hún verður ekki endurkjörin þá, (REÁ: En eftir kosningar?) er fyrst og fremst ætlað að taka á brýnum bráðavanda sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur skilið eftir sig, hálfgert gjaldþrot þjóðarinnar.

Aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar sem situr fram í apríllok, fjarri því. Ég tel að brýnni mál þurfi að ræða á þingi en það. Hins vegar er stefna flokkanna í Evrópusambandsmálum öllum ljós. Stefna Samfylkingarinnar hefur verið skýr, hún vill beina umsókn að Evrópusambandinu. Samfylkingunni er jafnframt ljóst hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er. Við teljum að það sé ekki leiðin. Framsóknarflokkurinn hefur lýst því yfir að hann vilji taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert það upp við sig og bíður eftir landsfundi, og vonandi tekst honum að gera það upp.

En hvað sem stefnu hvers flokks líður í þessum efnum þá er það meiri hluti þjóðarinnar sem ræður og fari málið í þann farveg að nauðsynlegt sé að þjóðin taki til þess afstöðu þá gerir hún það. Hver flokkur sækir fram og tekst á um málið á grundvelli stefnu sinnar og sjónarmiða en það er þjóðin sem ræður.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun berjast fyrir skoðun sinni í þessum efnum. Hún mun kanna málefnalega allar hliðar þess, standa fast á stefnu sinni hvað þetta varðar en er í sjálfu sér reiðubúin að leggja það í dóm þjóðarinnar sem á að ráða þessum málum til lykta (Forseti hringir.) ef þau ganga þangað.