Undirbúningur að nýrri byggðaáætlun

Miðvikudaginn 18. febrúar 2009, kl. 15:49:10 (3974)


136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem hafa lagt áherslu á Byggðastofnun og að unnar séu byggðaáætlanir og staðið við þær. Í góðærinu undanfarin ár, í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, hefur verið of mikið um að menn hafi lagt fram byggðaáætlanir en ekki staðið við nema lítinn hluta af þeim. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það er því miður ekki rangt.

Það að við skyldum horfa upp á það að heilu landshlutarnir bjuggu við neikvæðan hagvöxt meðan þenslan í öðrum landshlutum fór upp úr öllu valdi var því miður stjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins. (ArnbS: Byggðamálin voru nú ekki hjá Sjálfstæðisflokknum.) Það var stjórnarstefnan samt.

Því finnst mér mjög mikilvægt núna þegar horft er til aðgerða til að tryggja atvinnu í byggðum landsins að horft sé til þeirra svæða sem báru skarðan hlut frá (Forseti hringir.) borði í þenslunni, að þau séu þá ekki hin fyrstu sem taka á sig líka skerðinguna í (Forseti hringir.) kreppunni. Og ég treysti hæstv. iðnaðarráðherra til að beita sér af alefli í þeim efnum.