Mál á dagskrá

Mánudaginn 23. febrúar 2009, kl. 17:34:01 (4133)


136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að harma það að við séum ekki enn þá gengin til dagskrár í dag en ekki síður stíg ég hér upp til að gera við það alvarlegar athugasemdir að milli þess sem forseti þingsins frestar hér fundi kemur forsætisráðherra fram í fjölmiðlum og lýsir því yfir að vegna þess að viðskiptanefnd hafi ekki tekist að afgreiða það sem kalla má „skipulagsbreytingar“ í Seðlabankanum séu brýnar efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í uppnámi.

Maður hlýtur að spyrja: Hvaða efnahagsaðgerðir eru það? Hvar eru þær á dagskrá þingsins og hvernig má það vera að menn haldi því fram í fullri alvöru að einhverjar slíkar aðgerðir séu í uppnámi vegna þess að viðskiptanefnd ætlar að taka sér fáeina daga í að fara nánar ofan í mál sem hún er með til umfjöllunar og varða, eins og ég sagði áðan, skipulagsbreytingar og skipurit Seðlabankans? Það er auðvitað stóralvarlegur hlutur að forsætisráðherra (Forseti hringir.) segi við þjóðina að það einfalda mál (Forseti hringir.) komi í veg fyrir efnahagslegar aðgerðir sem eru ekki á dagskrá þingsins.