Skuldbreyting húsnæðislána

Þriðjudaginn 24. febrúar 2009, kl. 13:43:36 (4151)


136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldbreyting húsnæðislána.

[13:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við hefðum kannski átt að skipta á ráðherrum strax í upphafi eins og tilkynnt var í byrjun. En ég vil hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að skoða tillögur okkar framsóknarmanna varðandi niðurfellingu á skuldum og sérstaklega af því að það tengist stofnun sem er undir félagsmálaráðuneytinu, þ.e. Íbúðalánasjóði. Ef ég fer aðeins nánar út í hugmyndir okkar þá sjáum við ekki fyrir okkur að þetta feli í sér umtalsverð útgjöld fyrir ríkið en með þessu er verið að gera upp tap erlendra kröfuhafa í bönkunum. Hins vegar viðurkennum við að ríkið gæti þurft að kaupa fasteignalán með afslætti af lífeyrissjóðum og sparisjóðum til að setja inn í Íbúðalánasjóð til að tryggja jafnræði fasteignalánanna og lántakanna.

Sparisjóðirnir eru hins vegar þegar í samstarfi við Íbúðalánasjóð og hafa sumir selt sjóðnum fasteignalán sín. Kostnaður við þetta, að okkar mati, nemur um 10% af því sem ætlunin er að eyða í endurfjármögnun bankanna. Væri áhugavert að heyra frá hæstv. félagsmálaráðherra hvernig henni líst á þessar hugmyndir.