Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 24. febrúar 2009, kl. 15:21:30 (4181)


136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:21]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir þá hörku og ósérhlífni að halda þessu máli gangandi, hann hefur gert það í 13 ár að því er mér skilst. Ég vona að frumvarp hans verði að lögum vegna þess að þetta er af því góða og hjálpar til.

Forsendur í íslensku þjóðfélagi hafa breyst gríðarlega mikið upp á síðkastið með bankahruninu og þeim hörmungum sem því fylgja. Margir munu eflaust lenda í því að vera ábyrgir fyrir skuldum sem þeir áttu engan þátt í að stofna til og trúðu að væru minni háttar mál, skuldirnar hafa jafnvel tvöfaldast og vandamálin eru gríðarleg og margir munu eiga um sárt að binda. Við þekkjum öll hörmungar í fjölskyldum, og hreinlega fjölskylduharmleiki, sem hafa átt sér stað eftir að fólk hefur lent í að missa húsin sín og annað út af því að hafa skrifað upp á. Ég ætla því ekki að hafa mörg orð um frumvarpið en það er mjög af því góða og er til þess fallið að hjálpa til. Þetta leggur mikla ábyrgð á herðar lánveitendum og gerir ákveðnar kröfur til þeirra um að vanda sig við að lána peninga.

Er til eitthvert fasteignaveð? Menn hafa oft lent í því þegar þeir fara í bankann að það er það eina sem spurt er um, ekkert er spurt út í það hvað gera eigi við peningana og hvernig eigi að verja þeim. Það þekkja allir sem einhvern tíma hafa þurft að fara í banka og fá lán að einungis er spurt um veð, hvort ábyrgðarmaðurinn sé góður og annað í þeim dúr.

Ég hvet alþingismenn til að styðja frumvarpið og vona svo sannarlega að það verði að lögum áður en þing klárast í vor.