Greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

Miðvikudaginn 25. febrúar 2009, kl. 13:42:43 (4195)


136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:42]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég er með fyrirspurn til hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, um hvar í fjárlögum gert var ráð fyrir fjárveitingu til tónlistarhúss við Reykjavíkurhöfn. Ég spyr út af því að hæstv. menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa skrifað undir samning um að þeir ætli að halda áfram byggingu tónlistarhússins. Það kemur dálítið á óvart ef hæstv. menntamálaráðherra og borgarstjóri geti gert svona hluti og skrifað undir skuldbindingar fyrir hönd Alþingis án þess að það sé samþykkt af Alþingi. Ég hefði talið að þeir 14 milljarðar sem fara í þessa ágætu byggingu væru betur komnir annars staðar í atvinnuuppbyggingu, til að skapa útflutningsverðmæti, gjaldeyristekjur og varanlega atvinnu. Ég held að þegar þetta ágæta hús verður upp komið verði mikill kostnaður af rekstri þess og á svona krepputímum eins og nú eru er peningum illa varið með þessum hætti. Ég tel að við þurfum að fá upplýsingar um það með hvaða hætti og hvar þetta er í fjárlögum og hvernig við erum að vinna á Alþingi í dag.