Sýklalyfjanotkun

Miðvikudaginn 25. febrúar 2009, kl. 15:32:10 (4245)


136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

sýklalyfjanotkun.

310. mál
[15:32]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og sýklalyf eru nauðsynleg við alvarlegum sýkingum eru þau einnig ónauðsynleg við mörgum kvillum og gera í raun ekkert annað en valda skaða hjá sumum ef ónæmi myndast gegn algengustu sýklalyfjum eins og borið hefur á. Ávísun sýklalyfja er í höndum lækna. Þeirra er ábyrgðin að ávísa lyfjunum. En við vitum líka að það er mjög mikill þrýstingur á lækna að ávísa lyfjum, sérstaklega þegar börn eiga í hlut, eyrnabólga eða öndunarvegssjúklingar. Því eru læknar oft undir pressu og eiga í erfiðleikum með að neita foreldrum.

Þeir þurfa því tíma til að geta sinnt því hlutverki og leiðbeiningum. Fleiri geta komið þar að, hjúkrunarfræðingar geta líka tekið þátt í því að leiðbeina foreldrum en eftirlitið þarf að vera gott svo ekki sé teflt á tvær hættur með eyrnabólgu, að hún þróist á verri veg. En (Forseti hringir.) tímaleysi foreldra er oft um að kenna og erfiðleikar við að fá að fara úr vinnu þannig að það er að mörgu að huga. Ábyrgðin er fyrst og fremst hjá læknum, og fræðsla hjá læknum er það sem við þurfum.