Rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Miðvikudaginn 25. febrúar 2009, kl. 15:47:38 (4252)


136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir fyrirspurnina og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég held að mikilvægt sé að menn fari rétt með mál og tali málefnalega um þetta. Hv. þm. Atli Gíslason veit að hann hefur ekki farið rétt með með því að tala um að verið sé að svelta einhverja stofnun, hvort sem það er þessi eða einhver önnur, til einkavæðingar.

Vandinn er sá eins og hæstv. ráðherra er meðvitaður um að margar skurðstofur eru á þessu svæði. Fyrir liggur að við þurfum að spara um 7.000 millj. kr. og liggur mjög á að komast að niðurstöðu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða líka þá vinnu sem farið hefur fram í ráðuneytinu á undanförnum mánuðum áður en hann kemst að niðurstöðu, því að þrátt fyrir allt verða menn líka að hafa í huga að mikil tækifæri eru í þessu. Það er ekki rétt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi verið áhugalítil. Þvert á móti hafa ýmsir aðilar verið mjög áhugasamir um að nýta þá aðstöðu þar sem atvinnuleysi er hvað mest til að koma atvinnustarfsemi af stað og eru þar mjög miklir möguleikar. Við Íslendingar verðum að nýta þá nú þegar í að veita öðrum þjóðum heilbrigðisþjónustu. Þar eru mikil sóknarfæri fyrir landsmenn og sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk.