Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 26. febrúar 2009, kl. 18:06:07 (4368)


136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka til máls í 1. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum. Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur sem 1. flutningsmaður mælt fyrir því en hann flytur það ásamt þingmönnunum Jóni Magnússyni og Valgerði Sverrisdóttur.

Ég tel að almennt eigi sú regla að gilda og menn eigi að reyna að hafa hana í heiðri eftir því sem frekast er kostur að um þingsköp Alþingis sé þverpólitísk samstaða. Hér er verið að fjalla um þær almennu leikreglur sem gilda í störfum Alþingis og mikilvægt er að um þann ramma sé góð pólitísk samstaða. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýndum það á sínum tíma þegar afgreidd voru þingskapalög snemma á síðasta þingi að gerðar voru breytingar sem fóru í bága við það sjónarmið sem við höfðum uppi í þeim málum og lítill vilji virtist vera þá til að teygja sig í þá átt að um það gæti tekist fullkomin samstaða.

Þau mál sem fjallað eru um í þessu frumvarpi eru ekki pólitísks eðlis, a.m.k. ekki flokkspólitísks, heldur eru þetta atriði sem lúta fyrirkomulagi þingstarfanna og þess vegna er þeim mun mikilvægara að mínum dómi að ekki sé verið að takast á um slíka hluti þvert á flokkspólitískar línur.

Það er að sjálfsögðu líka álitamál hvernig skipa eigi þingstörfunum. Hér er verið fyrst og fremst að fjalla um nefndaskiptinguna og lagt til að starfandi séu sjö fastanefndir á Alþingi í stað þeirra 12 sem nú starfa og gert ráð fyrir því að í hverri nefnd séu níu þingmenn. Í dag eru níu þingmenn í öllum nefndum nema í fjárlaganefnd, þar eru 11, en ég skil það þannig að frumvarpið geri ráð fyrir að breyting verði á fjölda nefndarmanna í fjárlaganefnd og þeim fækki úr 11 í níu.

Jafnframt er gerð sú tillaga að breytingu að þingflokkar tilnefni fasta varamenn í nefndir, jafnmarga og þeir eiga aðalmenn. Sú regla gildir í dag einungis um utanríkismálanefnd en hér er gert ráð fyrir að þetta verði hin almenna regla.

Um efnisatriði frumvarpsins — burt séð frá því að ég tel að flytja hefði átt frumvarp til laga um breytingu á þingskapalögunum af öllum þingflokkum — vil ég segja að ég tel að margar athyglisverðar hugmyndir séu hér á ferðinni. Mér finnst sjálfsagt mál að skoða það að nefndum þingsins verði fækkað og málasvið þeirra þannig breikkað en að sjálfsögðu er að mörgu að huga í því efni. Ljóst er að málaflokkunum sem þingið fjallar um mun ekkert fækka þó að nefndirnar verði færri. Sömu mál verða að sjálfsögðu undir eftir sem áður og það getur auðvitað orðið snúnara fyrir þingflokka, ekki síst þingflokka sem hafa ekki mörgum þingmönnum á að skipa, að komast yfir öll þau mál sem nefndirnar fjalla um. Það má t.d. hugsa sér að skoða þingflokk sem í dag á einn fulltrúa í allsherjarnefnd og einn fulltrúa í menntamálanefnd, sem hér lagt er til að verði sameinaðar, ætti hugsanlega aðeins einn fulltrúa í sameinaðri nefnd eftir þessa breytingu. Álagið yrði því þeim mun meira á viðkomandi en áður var. Því er að mörgu að hyggja í þessu þó að ég sé þeirrar skoðunar að vel komi til álita að fækka þingnefndunum.

Um einstakar tillögur í þessu efni get ég tekið undir þau sjónarmið sem eru á bak við t.d. tillögu um eina atvinnumálanefnd sem fjallar um atvinnumálin á breiðum grundvelli, sameinaða efnahags- og skattanefnd annars vegar og viðskiptanefnd hins vegar. Mér finnst það vera tillaga sem vel geti gengið upp og sömuleiðis um heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Ég hef meiri efasemdir um aðrar tillögur. Um hugmyndina um sameiningu umhverfisnefndar og samgöngunefndar eru hygg ég tvö sjónarmið uppi. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt geti verið að sameina umhverfisnefnd og samgöngunefnd, líkt og gert hefur verið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, þar beitti ég mér fyrir því þar sem við höfum litið svo á að samgöngumálin séu eitt allra stærsta umhverfismálið. Þau sjónarmið hafa líka heyrst a.m.k. í þingflokki mínum að það geti orkað tvímælis á löggjafarþinginu að sameina þessar nefndir í eina þar sem umhverfisnefnd fer meira með eftirlit með alls konar verklegum framkvæmdum meðan samgöngunefndin fjallar um framkvæmdaþáttinn. Þar gætu því hagsmunir stangast á. Ég tel eðlilegt að það sjónarmið verði skoðað alveg sérstaklega í umfjöllun um þetta mál.

Um tillögu um sameiningu allsherjarnefndar og menntamálanefndar hef ég miklar efasemdir. Ég tel að þar séu í eðli sínu mjög ósamkynja málaflokkar og henti ekki vel að setja þá saman í eina nefnd. Ég hefði heldur viljað sjá að allsherjarnefndin væri áfram ein enda hefur hún býsna mikið undir eins og reynslan sýnir. Við höfum séð það bæði á þessu þingi og áður að mjög mörg stór mál koma til úrlausnar og vinnslu í allsherjarnefnd og ég hygg að varla sé á það bætandi að bæta við heilum málaflokki eins og menntamálum þar inn.

Vitaskuld má skoða annars konar skiptingu ef menn vilja halda sig við fjöldann sjö en það væri ekki frágangssök að mínu áliti þó nefndirnar væru átta en ekki sjö eins og hér lagt er til. Það er allt saman efni sem hlýtur að koma til skoðunar við umfjöllun á vettvangi þeirrar þingnefndar sem fær málið til umfjöllunar.

Rauði þráðurinn í þessu er m.a. sá að reyna að tryggja það að þingmenn eigi ekki sæti í allt of mörgum þingnefndum eins og gerist í dag. Það er kostur við tillöguna að þingmenn mundu væntanlega flestir eiga aðeins sæti í einni nefnd og geta helgað sig henni, í einhverjum tilvikum hugsanlega tveimur, en það væru viðbrigði frá því sem er í dag þegar margir þingmenn eiga sæti í þremur og jafnvel fjórum þingnefndum. En aftur kemur upp þetta sjónarmið sem ég nefndi áðan að sérstaklega fyrir litla þingflokka sem eiga kannski bara einn mann í stórri nefnd þá getur verið býsna mikið undir að þurfa að dekka heilu málasviðin eins og allsherjar- og menntamálanefnd eða efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd gerir í dag. Þarna eru ýmis álitamál uppi. Inn á þetta kemur líka umræðan um aðstoð við nefndastörfin. Ekki fyrir löngu síðan var sett á laggirnar aðstoðarmannakerfi þingmanna landsbyggðarkjördæmanna. Ég var mjög gagnrýninn á það fyrirkomulag. Ég taldi að betra hefði verið að beina þeim kröftum og því fjármagni sem til þess var varið til að styðja við nefndastarf þingflokkanna, taldi það betra og tel reyndar enn að skynsamlegt væri að gera ráðstafanir til að þingflokkarnir gætu hver fyrir sig verið með meiri aðstoðarvinnu á vettvangi einstakra nefnda, svipað og nefndasviðið er skipt þar sem nefndarritarar sinna ákveðnum nefndum hver. En þetta eru líka viðhorf sem mér finnst rétt að fái þá umfjöllun á vettvangi allsherjarnefndar sem mun fá þetta mál til umsagnar.

Ég tel að hugmyndin um að fastir varamenn komi upp í nefndum geti verið til bóta og rétt geti verið að þingflokkar tilnefni fasta varamenn í nefndir en það kæmi þó kannski ekki í veg fyrir að í undantekningartilvikum þyrftu aðrir að geta hlaupið í skarðið og eftir sem áður þyrfti að vera heimild til þess, en almenna reglan um að það séu varamenn held ég að sé til bóta.

Virðulegi forseti. Ef ég held mig við efnisatriði frumvarpsins þá tel ég að ýmislegt sé í því sem getur horft til betri vegar frá því sem er í dag en annað sem ég hef miklu meiri efasemdir um. Ég fæ væntanlega tækifæri til að ræða það betur á vettvangi allsherjarnefndar þar sem ég á sæti. Ég held að í þessu efni væri gagnlegt að allsherjarnefnd viðaði að sér gögnum og upplýsingum um hvernig svona fyrirkomulagi er háttað í þjóðþingunum í kringum okkur, meðal annars er lýtur að því hvaða mál heyra saman, hvort þingmenn séu almennt bara í einni nefnd eða fleiri og hugsanlega hvort jafnvel þyrfti, þó menn færu í fastanefndir með þessum hætti, annars konar nefndir svo sem eftirlitsnefnd, eins og mér heyrðist hv. þm. Sturla Böðvarsson nefna í framsögu sinni.

Þegar á heildina er litið finnst mér eðlilegt að frumvarpið fái málefnalega umfjöllun á vettvangi allsherjarnefndar og það verður þá að koma í ljós í þeirri vinnu hvort almennur stuðningur er við málið eins og það er lagt fyrir eða hvort menn vilja gera á því einhverjar breytingar. Ég áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til að koma með breytingartillögur þegar málið er þar til umfjöllunar.