Afgreiðsla efnahags- og atvinnumála

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 15:16:23 (4391)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

afgreiðsla efnahags- og atvinnumála.

[15:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í viðtali við hinn nýja seðlabankastjóra, Svein Harald Øygard — ég ætla ekki að fara að ræða um það hvort hann sé bær eða hæfur til þess að gegna stöðunni, aðrir munu taka það upp og umboðsmaður Alþingis hefur tekið upp mál af minna tilefni. En ég tók eftir ákveðnum atriðum í ágætisviðtali við hinn nýja seðlabankastjóra sem er að taka við erfiðu starfi eins og menn vita. Hann sagði þó að þrír þættir gæfu tilefni til bjartsýni fyrir íslenska þjóð og fyrir hann sem nýjan seðlabankastjóra.

Í fyrsta lagi greindi hann frá því, sem við öll vitum, að ríkissjóður var rekinn með verulegum afgangi fyrir hrun. Það skiptir miklu máli. Það er fyrsta atriðið og það gefur tilefni til bjartsýni. Í öðru lagi sagði hann, sem við vitum öll, að íslenska þjóðin er vel menntuð þjóð, tilefni til bjartsýni, tilefni til að við náum viðspyrnu fyrr. Í þriðja lagi sagði hinn nýi seðlabankastjóri að íslenska þjóðin væri samheldin og vinnufús.

Þá er ég komin að spurningu minni: Hvaða svör hefur ríkisstjórnin gagnvart þeim þúsundum manna sem verða atvinnulausar á kjördegi, 25. apríl? Forsætisráðherra sagði réttilega að einungis væri búið að afgreiða eitt mál, 28 mál liggja enn hér í þinginu þannig að það sé sagt skýrt. Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir góðum málum er snerta efnahags- og atvinnuuppbyggingu í landinu.

Ég legg þetta til og rétti út sáttarhönd, geri það fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna. Fáir dagar eru eftir af þinginu og rétt að við leggjum öll önnur mál til hliðar og ræðum eingöngu efnahags- og atvinnumál. Það er tilboð okkar til ríkisstjórnarinnar og ég trúi ekki öðru en að hæstv. forsætisráðherra taki í þá útréttu sáttarhönd.