Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 18:34:38 (4443)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í áratugi hefur verið rætt um jafnréttismál. Það hafa verið sett fjölmörg lög um jafnrétti og það er búið að útrýma öllu ójafnrétti sem finnst í lögum og reglum. En samt næst ekki árangur. Það er búið að setja viðamikil lög um jafnréttisáætlanir, jafnréttisráð. Það er kominn heilmikill jafnréttisiðnaður, frú forseti, í gang. Fólk sem vinnur að því baki brotnu að koma á jafnrétti og samt er ekkert jafnrétti.

Sumir segja að það sé verið að bakka, að það sé ekki verið að nýta besta fólkið í þjóðfélaginu til að stjórna. Þá er það spurningin: Eigum við að halda áfram að telja hausa eða eigum við kannski að skoða hvort sú leið hafi verið ákveðið skipbrot? Hvort sú leið að vera alltaf að telja hausa sé ekki skipbrot í sjálfu sér. Við eigum að reyna að finna út úr því af hverju eigandi hlutafélags ákveður að ráða karlmann í stöðuna sem stjórnarformann eða stjórnarmann í stað þess að ráða konu sem hlýtur þá að fást hæfari. Þeirri spurningu eigum við að velta fyrir okkur. Sá sem tekur ákvörðun um að ráða karlmann sem oft og tíðum er þá óhæfari af því það er svo mikill fjöldi af konum sem ekki fær vinnu sem eru mjög hæfar, af hverju tekur hann þessa ákvörðun? Því þurfum við að svara.

Ég held því fram að það sé vegna þess að hann vilji ekki endilega græða. Ef það væri arðsemiskrafa þá mundi hann alltaf ráða hæfasta einstaklinginn. Þá kæmust u.þ.b. jafnmargar konur og karlar að. Það er mín trú. Ég held að það misrétti sem er í gangi í kerfinu komi fram vegna þess að þetta eru kyn. Auðvitað eru margir karlmenn sem ekki fá stöðu heldur þótt þeir séu mjög hæfir. (SVÓ: Færri.) Það kemur hvergi fram vegna þess að aðrir karlmenn sem eru óhæfari fá stöðurnar. Það er verið að fara eftir flokkspólitískum atriðum, það er verið að fara eftir fordómum o.s.frv. og ættartengslum. Það eru alls konar atriði sem valda því að óhæfara fólk er ráðið í stöðu í stað þeirra sem hæfari eru. Og við eigum eftir að sjá það áfram. Ég óttast að núna þegar þessi fyrirtæki eru öll orðin meira og minna ríkisvædd og þeir sem skipa í stöðurnar hafa engan áhuga á því hvort fyrirtækin skili hagnaði eða ekki þá muni þetta aukast. Þá mun það aukast að ráða menn eftir flokkum og ætterni en ekki eftir hæfileikum. Ég óttast það, því miður.

Þess vegna þurfum við alveg sérstaklega núna að gá að því hvað er það sem veldur því að svona fáar konur eru í stjórnun fyrirtækja í lykilstöðum. Af hverju eru t.d. svona fáar konur á aðalfundi Seðlabankans? Við eigum að velta því fyrir okkur hver sé ástæðan fyrir því en ekki endilega að þvinga fram jafnrétti með því að setja konur í stöður, hvort sem þær hafa hæfileika eða ekki. Það held ég að sé mjög röng leið. Það er að leiðrétta hitamæli sem sýnir ákveðinn hita, honum er bara breytt. Þeir sem ráða í stöðurnar ráða þá að sjálfsögðu frænkur sínar, systur og dætur o.s.frv., burt séð frá hæfileikum. Ég hef því miklar efasemdir um þessar jafnréttisaðferðir allar og leyfi mér að hafa mínar efasemdir áfram. Ég vil endilega að þjóðfélagið nýti hæfileika hvers einasta manns eins og mögulegt er, að jafnrétti sé milli fólks, eins og mögulegt er. Við þurfum að finna út úr því af hverju kemur það fram svona í hlutfalli kynjanna.