Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 18:38:49 (4444)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrsta flutningsmanni, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir svörin sem ég fékk við þeim vangaveltum sem ég var með. Ég vil segja það og ég tek undir með henni að ég held að það sé rétt sem kemur fram í máli hennar að reynslan af þeirri leið sem Norðmenn ákváðu að fara í þessu sambandi sé almennt góð og að fyrirtækin hafi í raun og veru brugðist mjög jákvætt við og skjótt og það hafi ekki tekið langan tíma að innleiða þessa nýju reglu um jafnrétti kynjanna í stjórnun fyrirtækja, eins og menn óttuðust þegar lögin voru sett þar.

Þar var settur aðlögunartími. Fyrirtækjunum var gefinn nokkur góður aðlögunartími til að koma þessu jafnrétti á en ef þau náðu ekki að uppfylla þau skilyrði laganna þá var ákvæði um að fyrirtækin yrðu leyst upp. Þetta er auðvitað, eins og ég sagði áðan, augljóslega býsna harkaleg aðgerð sem viðurlög. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að eðlilegt sé að gefa fyrirtæki og umhverfinu fyrst svigrúm til þess að uppfylla ákvæði þessara laga.

En við vitum hins vegar að þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga hingað til þá hefur nú gengið býsna hægt að innleiða jafnréttið í raun. Þess vegna held ég að það sé mikið álitamál og umhugsunarefni hvort ekki þurfi að taka nokkuð skarpt í. Taka nokkuð djúpt í árinni í þessu efni og setja einhver slík skilyrði eða viðurlög. Ég er alls ekki að segja að ég muni leggja það sérstaklega til enda á ég ekki sæti í þeirri nefnd sem væntanlega mun taka málið til meðferðar. En mér finnst þetta vera álitamál og innlegg í umræðuna á þeim vettvangi, hvort menn vilji gera það.

Ég verð líka að segja vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals þar sem hann velti vöngum yfir því af hverju konur eru ekki í ríkari mæli í þessum stöðum og svo fáar konur sitji ársfund Seðlabankans o.s.frv., þá held ég að við verðum bara að horfast í augu við að þetta er arfur gamalla tíma ef svo má segja. Þetta er bara staða sem við erum að glíma við í samfélaginu almennt og höfum verið að gera um langa hríð. Það er viðvarandi verkefni að koma á almennilegu jafnrétti kynja. Við glímum við þetta í stjórnmálum en þar hefur okkur samt sem áður orðið mun meira ágengt en almennt í fyrirtækjaumhverfinu. Það er mjög brýnt að við náum árangri þar líka.

Við viljum lifa í samfélagi þar sem jafnrétti kynjanna er í heiðri haft. Og eftir, það má segja, áralanga baráttu fyrir auknu jafnrétti kynjanna getum við ekki boðið ungu fólki, ungum konum eða ungum stúlkum, upp á að okkur verði ekkert ágengt í þessu efni. Það er bara ekki samboðið þeim gildum og meginsjónarmiðum sem við viljum að gildi í íslensku samfélagi. Þess vegna verðum við jafnvel að grípa á stundum til róttækra aðgerða og ráðstafana til þess að ná þeim markmiðum sem ég held að flestir taki undir að minnsta kosti í ræðu. Síðan er spurning hvort menn vilja á borði ná þeim árangri sem menn tala svo fjálglega um þegar það hentar.

Það frumvarp sem hér er lagt fram er viðleitni í þá veru að auka hlut kvenna í stjórnun fjármálafyrirtækja, að ná meira jafnrétti á þessu sviði. Þetta er afmarkað svið. Ég tel að við eigum að huga að því að ganga lengra og láta þetta verða víðtækara. Það kann vel að vera að það sé þá næsta skref. En eftir sem áður finnst mér þetta mjög góð viðleitni sem hér er á ferðinni og styð að málið fái jákvæða meðferð.