Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 02. mars 2009, kl. 18:51:01 (4448)


136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið með félagsmálaráðuneytið mjög lengi. Það er mjög langt síðan það var og undir félagsmálaráðuneytið heyra jafnréttismál. Það er bara þannig. Og það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sinnt jafnréttismálum. Stærsta mál, að mínu mati, í átt til jafnréttis var fæðingarorlofið sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir og fékk í gegn. Það gerði karla jafndýra á vinnumarkaði og konur gagnvart fæðingarorlofi og átti að ryðja burt síðustu hindruninni svo að algjört jafnræði sé milli karla og kvenna. Þrátt fyrir það hefur það ekki tekist og það eru mér mikil vonbrigði.

Ég horfi á að launamisréttið er áfram til staðar, misrétti í stjórnum atvinnu- og fjármálafyrirtækja og víðar er enn þá til staðar. Samt er búið að setja heilmikið af lögum, nefndum, ráðum og jafnréttisáætlunum, jafnréttisskýrslur hafa verið skrifaðar og jafnréttisþing haldin og ég veit ekki hvað þetta heitir allt saman. Samt miðar ekkert. Ég vildi gjarnan skora á menn sem vinna í þessum málum að skoða eftirfarandi: Getur verið að við gerum eitthvað rangt? En það vilja menn ekki. Menn ætla að halda fast í að hafa jafnmarga karla og konur í stjórn þannig að nú mun ráðherrann sem skipar í stjórnir allra þessara ríkisfyrirtækja velja dætur sínar, tengdadætur, systur, mæður og frænkur í stjórn.