Kosningar til Alþingis

Miðvikudaginn 04. mars 2009, kl. 13:08:00 (4549)


136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:08]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Herra forseti. Það segir mikla sögu að hv. þingmaður svarar ekki spurningu minni um ÖSE og Evrópuráðið og tilmælin sem þaðan koma. Ég þykist vita að það sé vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér þessi tilmæli, veit ekkert um þau og hefur heldur engan áhuga á þeim. Annað hljóð er nú í strokknum en stundum þegar talað er um tilmæli frá Evrópu.

Þingmaðurinn svaraði þessu ekki, sennilega af því að hann veit ekkert um þessi tilmæli og hefur ekki á þeim neinn áhuga. Það á ekki að breyta kosningareglum síðar en í síðasta lagi ári fyrir kosningar samkvæmt þessum alþjóðlegu tilmælum.

Það var talað við Sjálfstæðisflokkinn um þessar breytingar, það er rétt, okkur var kynnt þetta. Ekki var óskað eftir breytingartillögum, það var ekkert samráð um þetta mál og það er ekki hægt að kalla það samráð eða samstarf þó að fleygt sé fram plaggi sem ekki er síðan óskað eftir gagntillögum um. Allur undirbúningurinn að þessu máli er viðkomandi til minnkunar, ekki hefur t.d. neitt verið skoðað hvaða áhrif lögin um fjármál flokkanna hafa á þetta. (Forseti hringir.) Hvernig á í skilningi laganna um fjármál stjórnmálaflokkanna að fara með framlög til frambjóðenda sem eru í prófkjöri á sama degi og kosningarnar?