Kosningar til Alþingis

Miðvikudaginn 04. mars 2009, kl. 13:10:38 (4551)


136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér kemur fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að þetta frumvarp breyti ekki neinu, það breyti engu um kosningarnar í vor eða undirbúning þeirra og það mætti halda, miðað við það hvernig formenn stjórnarflokkanna hafa talað, að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi verið að tala um eitthvert allt annað frumvarp en það sem liggur fyrir hér.

Mig langar til að inna hann eftir nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi hlýt ég að spyrja hann hvort hann telji ekki að við breytingar á svona viðamiklum lögum eins og kosningalögunum ættu menn að hugsa um kjósendur í landinu, hvernig þeir nálguðust kosningar, í staðinn fyrir að rugla þá svoleiðis í ríminu með að tala um óraðaða og raðaða lista. Hv. þingmaður ruglaðist sjálfur í því nokkrum sinnum, enda ekki að furða, þetta er meira og minna óskiljanlegt. Það væri kannski ráð að reyna að gera þetta þannig að þetta væri til að hjálpa kjósendum að kjósa en ekki þvælast fyrir þeim.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvernig hann lítur á tengsl þessa máls við 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að tvo þriðju atkvæða á þingi þurfi til að breyta kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta. Frumvarpið felur í sér slíkar breytingar á úthlutun þingsæta að ekki verður hægt að skilja það öðruvísi en svo að það þurfi tvo þriðju atkvæða til að samþykkja það. Mig langar til að fá sjónarmið þingmannsins — ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið. Þá langar mig til að vita hver nýja línan er í skilningi stjórnarskrárinnar á þeim bænum og ég treysti því að hann útskýri þetta fyrir mér.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hann, vegna þess að hann er fulltrúi í stóru og víðfeðmu kjördæmi, hvort hann hafi engar áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag muni hafa þau áhrif á t.d. Suðurkjördæmi að fulltrúar á framboðslistum komi mest af þéttbýlli svæðum í stað þess að dreifast eins og verið hefur.