Hólaskóli -- Háskólinn á Hólum

Miðvikudaginn 04. mars 2009, kl. 15:55:44 (4606)


136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.

347. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þau svör sem komu fram hjá henni áðan og fagna því að verið er að vinna að þessum málum í menntamálaráðuneytinu og reyndar í samstarfi við fleiri ráðuneyti. Ég fagna því jafnframt að það eigi að vinna hratt og vel. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að staðan er þannig að það má ekki dragast mikið að fá niðurstöðu í þessi mál.

Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrv. menntamálaráðherra, um mikilvægi þess að fá fleiri aðila að rekstri Hólaskóla. Ég tel að starfsemi skólans sé þannig að það sé mjög eðlilegt að gera það og nauðsynlegt að það takist. Það tengist þá væntanlega umræðunni um rekstrarformið með einhverjum hætti.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra og hvet hana til að nota vel þann stutta tíma sem hún hefur til umráða í menntamálaráðuneytinu á næstu vikum til þess að leggja áherslu á að niðurstaða fáist í þessi mál sem fyrst. Ég geri mér líka grein fyrir því að væntanlega verður ekki farið í lagabreytingar á þessu þingi. Ég hef fullan skilning á því en hvet hæstv. ráðherra til dáða, Hólaskóla til heilla.