Uppsagnir þyrluflugmanna Landhelgisgæslunnar

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 10:44:19 (4643)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

uppsagnir þyrluflugmanna Landhelgisgæslunnar.

[10:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir fyrirspurnina. Þannig háttar til í ríkisrekstri að það þarf að hagræða og þegar kemur að öryggi sjómanna og annarra á þessu landi verður auðvitað að fara varlega og gæta þess að skerða þar sem minnst og helst ekki neitt.

Ég heimsótti Landhelgisgæsluna um daginn og við fórum yfir þetta mál, ég og forstjóri Landhelgisgæslunnar. Hagræðingaraðgerðir stofnunarinnar miðast að því að skerða leitar- og björgunargetu sem allra minnst. Á sama tíma er ljóst að fara þarf í gegnum sársaukafullar aðgerðir en flugrekstrardeildin er þó sú deild þar sem minnsta skerðingu þarf að þola. Áætlað er að fimm þyrluvaktir af sex verði í fullum gangi en það er rétt að það eru uppsagnir sem koma niður á einni þyrluvakt. Uppsagnirnar koma að fullu til framkvæmda í lok sumars. Við höfum farið yfir það, ég og forstjóri Landhelgisgæslunnar, hvernig þetta kemur út fyrir starfsemina hjá þyrlunum og það er alveg ljóst að auðvitað er það áhyggjuefni ef getan skerðist verulega. Mér hefur hins vegar verið tjáð að hún geri það ekki.

Hvað varðar Varnarmálastofnun þá tel ég að þetta sé einn af hagræðingarmöguleikum sem verði að skoða en hvort hægt er að fullyrða að þetta bjargi Landhelgisgæslunni og fjármunum hennar er of snemmt að segja til um núna.