Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 17:27:46 (4746)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mjög góðar umræður hafa verið um lýðræðið og hvernig hægt er að koma áhrifum kjósenda í gegnum flokka til Alþingis þannig að krafa þjóðarinnar eða þeirra fjöldasamkunda sem hafa verið hérna í vetur um að menn hafi meiri áhrif á Alþingi næði fram að ganga.

Það er ekki einfalt að koma því við að hinn almenni kjósandi hafi áhrif á þá einstaklinga sem skipa á endanum Alþingi Íslendinga. Menn hafa reynt margar aðferðir. Við höfum verið með alls konar kerfi. Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Magnússon sagði áðan um misvægi í atkvæðavægi. Það er náttúrlega í reynd ólíðandi og ég tek undir með honum að það er mikið mál að sumir kjósendur hafi hálft atkvæði og aðrir kjósendur hafi fullt atkvæði eftir því hvar þeir búa á landinu. Það er náttúrlega eitthvað sem þyrfti kannski að laga fyrst og fremst. Þetta hef ég bent á mörgum sinnum í gegnum tíðina.

Hvernig komum við svo vilja kjósenda í gegnum flokkapólitíkina inn á Alþingi? Eins og ég gat um er það ekki einfalt. Menn mynda jú flokka vegna þess að þeir hafa sameiginlega stefnu, sameiginlega lífssýn í meginmálum. Það er alrangt sem sumir halda að þeir sem eru í einhverjum einum flokki séu allir með sömu skoðun og sömu lífssýn. Í meginmálum standa þeir saman í sinni stefnu.

Það frumvarp sem við ræðum nú gengur út frá því að flokkar geti boðið fram annars vegar raðaða lista og hins vegar óraðaða lista. Þá er hugsunin væntanlega sú að í óröðuðum lista hafi kjósandinn val um hvaða menn skipi þann lista og það er hárrétt. Spurningin sem skilin er eftir er: Hvað gerist með hina röðuðu listana, hvernig voru þeir valdir? Var það flokksstjórnin sem tók ein ákvörðun um það einhvers staðar í bakherbergjum, e.t.v. eftir heilmikla umræðu fram og til baka eða var það gert í prófkjöri?

Nú vill svo til að minn flokkur hefur í gegnum tíðina verið flokka duglegastur að stunda raunveruleg prófkjör meðal flokksmanna sinna sem segir það að flokksmenn flokksins hafa heilmikið um það að segja hvernig listi flokksins er uppbyggður á meðan aðrir flokkar hafa verið með tilnefningar og einhverja nefnd sem raðar á listann sem er á margan hátt mjög ólýðræðislegt.

Það sem gert er ráð fyrir hér er að annars vegar verði þetta raðaður listi sem hugsanlega er valinn með prófkjöri og hins vegar listi sem valinn er í lokuðum herbergjum, sem sagt ekkert prófkjör og engin áhrif kjósandans, hvorki flokksmannsins né annarra á þann lista. Síðan verði annar flokkur af óröðuðum listum þar sem fólk getur kosið. Þar kemur hins vegar vandamál sem ekki er tekið á og ekki rætt almennilega um. Ef við tökum t.d. Sjálfstæðisflokkinn, þar væru mjög margir sem mundu vilja bjóða sig fram, segjum 100 manns, hvernig á að velja þá úr? Ef menn gæta ekki að sér og setja of marga á listann verður hreinlega með hlutkesti einhver fjöldi tekinn út af þeim svo að fjöldinn verði réttur á endanum. Það finnst mér eiginlega vera sísta lýðræðið, frú forseti, af þessu öllu, það er eiginlega það sísta. Flokkur sem lendir í því að 100 manns vilji bjóða sig fram yrði væntanlega að hafa prófkjör eða beita annarri aðferð til að lenda ekki í því að besta fólkið á listanum yrði kannski vinsað úr með hlutkesti, sem yrði náttúrlega versta niðurstaðan. Ef mjög margir bjóða sig fram enda menn í rauninni með svipað kerfi og áður, þ.e. annaðhvort yrði prófkjör sem raðar mönnum á lista eða einhver nefnd raðar mönnum á lista. Svo koma kjósendur aftur og endurraða þeim sama lista. Það getur því dálítið skrýtin niðurstaða komið út úr því. Þetta er eitthvað sem þarf að ræða mjög nákvæmlega því að menn mega ekki kastað til þessa höndum.

Menn hafa líka bent á að það að breyta kosningalögum svona stuttu fyrir kosningar — ekki er langt í kosningar, þær eiga að vera 25. apríl að því er sagt er, ekki er búið að ákveða það — sé mjög ólýðræðislegt. Margir flokkar eru t.d. búnir að ákveða prófkjör, sumir eru meira að segja búnir að tilnefna fólk. Vinstri grænir eru búnir að tilnefna sína menn í einu kjördæmi og mjög hæpið að sá flokkur færi í því kjördæmi að koma með óraðaðan lista, það yrði mjög skrýtið, frú forseti. Menn hefðu hugsanlega hegðað sér öðruvísi ef lagafrumvarpið hefði legið fyrir áður. Þá hefðu þeir hugsanlega komið með óraðaðan lista því að þeir hefðu viljað láta kjósendur hafa meiri áhrif á listann.

Þarna komum við aftur að því hvort það sé yfirleitt tækt að samþykkja frumvarp svona rétt fyrir kosningar. Ég átti fund í morgun með fulltrúum frá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, þar sem þeir eru að skoða væntanlegar kosningar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þeim hefur verið bent á og eru þeir að skoða hvort það sé tækt. Sú niðurstaða mun væntanlega liggja fyrir nokkuð fljótlega án þess að ég sé nokkuð að segja að hún sé á neinn hátt bindandi.

Ég er hins vegar ekki mjög hrifinn af frumvarpinu að því leyti til að þegar þingmenn hafa farið í prófkjör vita þeir að það er mjög hatrömm barátta, því miður. Það má eiginlega segja að í ferlinu rekist menn aldrei á persónulega baráttu nema í prófkjörum og eins náttúrlega þegar verið er að stilla upp lista, þá geri ég ráð fyrir að það séu líka ansi mikil átök og sárindi. Út úr prófkjörum koma oft því miður leiðindi og sárindi. Þeir sem tapa sætta sig ekki við það og kenna fólki um óheiðarleg vinnubrögð, þetta þekkjum við úr öllum þeim prófkjörum sem hafa verið hér á landi, mörg dæmi hafa komið upp. Ég tel að mjög mikilvægt sé að slík sárindi séu að mestu leyti lögð til hliðar fyrir kosningar og dálítill tími líði frá prófkjöri og þar til kosningar verða einmitt til þess að flokkurinn geti farið heilsteyptur í kosningar. Að afstöðnum kosningum þarf að mynda ríkisstjórn og menn geta lent í því að ef mikil sárindi eru gæti orðið virkilega erfitt bæði milli flokka og innan flokks að koma saman heilsteyptu liði.

Eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, þ.e. að flytja prófkjörin inn á kosningadaginn, eru menn ekki bara að slást á milli flokka heldur er þeir að slást innbyrðis, innan þess flokks sem er með óraðaðan lista. Það getur skaðað þann flokk heilmikið og í raun eyðilagt lýðræðið. Ég tel að menn hafi ekki hugsað það alveg til enda og þeir sem hafi hannað þetta séu kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig svona prófkjör fara fram og hvað þau geta valdið miklum sárindum og leiðindum. Ef t.d. allir listar væru óraðaðir mundu kosningarnar felast í því að menn væru að berjast milli flokka en líka innan flokkanna. Það mundi allt dynja í auglýsingum: Kjósið Jón á lista A o.s.frv. Þetta yrði því dálítið skrýtin staða.

Það sem ég hef látið mér detta í hug til þess að leysa þennan vanda er að flokkarnir hefðu sameiginlegt prófkjör, t.d. þrem eða fjórum mánuðum fyrir kosningar, þar sem við komum í veg fyrir það að kjósendur séu að hafa áhrif á fólk á öðrum listum, eins og hefur komið fram í sumum bæjarfélögum, t.d. á Siglufirði. Þar held ég að 100% bæjarbúa hafi kosið í öllum prófkjörum sem þar voru haldin, sem þýddi að fólk blandaði sér inn í uppstillingu á listum sem það ætlaði ekkert að kjósa. Það væri miklu skynsamlegra að hafa bara eitt sameiginlegt prófkjör í hverju kjördæmi. Þá mundu menn fyrst velja sér lista og svo gætu þeir raðað innan þess lista og 100 manns gætu verið á listanum þess vegna, eða eins og í Reykjavík, 29 manns hjá sjálfstæðismönnum. Mér litist miklu betur á slíkt fyrirkomulag að sameiginlegt prófkjör yrði hjá öllum flokkunum. Síðan gætu menn farið í venjulega hefðbundna kosningabaráttu og haft til þess góðan tíma og menn væru búnir að vinna á sárindunum að mestu leyti þegar kemur að kosningum.

Þegar menn ræða um svona kosningafyrirkomulag hljóta menn að velta vöngum yfir því og margir hafa spurt: Hvernig stendur á því að tvö kjördæmi eru í Reykjavík? Hvernig stendur á því að við erum með sex kjördæmi á landinu og sum þeirra óskaplega stór og önnur miklu minni, af hverju er þetta svona? Þá vil ég rifja upp að þetta er ákveðin málamiðlun á milli þess að hafa landið allt eitt kjördæmi, eins og sumir, sérstaklega í Samfylkingunni, tala um, að hafa landið allt sem eitt kjördæmi og sjá það sem eina lausn á öllum vanda. Það mundi örugglega jafna atkvæðisréttinn, það er ekki spurning, og laga hann heilmikið. En það mundi gera flokksræðið miklu sterkara vegna þess að þá væri það einn flokkur sem raðar á allt landið og miðin. Sá efsti á sínum lista yrði mjög sterkur, yrði efstur yfir allt landið. Hann væri alveg gefinn forsætisráðherra, það þarf ekki að ræða það neitt frekar. Sá sem yrði númer tvö, þrjú og fjögur yrði mjög sterkur einstaklingur í flokknum. Kjósendur hefðu því miklu minna val um einstaklingana. Nú erum við með sex kjördæmi og sex einstaklingar eru valdir númer eitt í kjördæmunum. Með því að hafa sex kjördæmi hefur kjósandinn meira val um einstaklingana en ef allt landið væri eitt kjördæmi og flokksræðið vex.

Hinar öfgarnar eru einstaklingskjördæmi, það yrðu 63 einstaklingskjördæmi þar sem kosið yrði um einn þingmann úr hverju kjördæmi. Það hefur hins vegar afskaplega mikla ókosti og jaðrar við að það sé ekki einu sinni lýðræði vegna þess að flokkur sem er með tiltölulega lítið fylgi, t.d. eins og í Bretlandi 20–30%, gæti orðið undir í öllum kjördæmum og fengi ekki einn einasta mann. Annar flokkur sem er með 55% atkvæði í öllum kjördæmunum fengi alla menn, alla þessa 63. Það sem meira er, hver einasti þingmaður yrði mjög sterkur einstaklingur og gæti orðið erfiður í samvinnu vegna þess að hann þyrfti ekki að óttast neitt nema kjósendur sína í því litla kjördæmi. Flokksræðið yrði því nánast núll en einstaklingshyggjan mjög sterk.

Til að finna lausn á þessum tveimur öfgum sem ég nefndi — landið allt eitt kjördæmi, sem þýðir mikið flokksræði og lítil áhrif kjósenda á efstu menn, því að allt landið mundi kjósa þá, og hins vegar einmenningskjördæmi — þá er umrædd leið valin, þ.e. sex kjördæmi. Því kemur sú furðulega staða upp að Reykjavík er skipt í tvö kjördæmi sem skipt er eftir Miklubrautinni og nánast tilviljun sem virðist ráða því hvorum megin kjördæmis menn liggja.

Ég vildi rétt aðeins, frú forseti, koma inn á þetta til að upplýsa hvernig þessi staða er. Það er alltaf mjög erfitt að láta hinn almenna kjósanda hafa áhrif á endanlegan lista. Það sem við hv. þingmenn þurfum kannski að vinna mest á er einmitt flokksræðið sem mér finnst vera allt of sterkt. Það er eitthvað sem þingið þarf virkilega að fara að vinna í, að auka veg Alþingis. Ég hef svo sem mörgum sinnum bent á að það er eiginlega ekkert frumvarp sem Alþingi samþykkir samið af þingmönnum sjálfum og ég vil breyta því. Ég vil að nefndir þingsins semji frumvörp. Ég vil líka að ráðherrar séu ekki þingmenn, þeir séu ekki bæði að greiða atkvæði á löggjafarsamkundunni og vera um leið framkvæmdarvald.